Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 31. ágúst 2001 kl. 09:07

Endurspeglar fagurt mannlíf í Reykjanesbæ

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Ljósanótt verðu haldin með pompi og prakt nk. laugardag, 1. september. Undirbúningur hefur staðið yfir í nokkrar vikur en Markaðs- og atvinnuráð Reykjanesbæjar ber ábyrgð á framkvæmdinni og hefur yfirumsjón með henni. Að Ljósanóttinni koma einnig Menningar- og safnaráð, Tómstunda- og íþróttaráð, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar. Þessir aðilar hafa með samhentu átaki skipulagt fjölbreytta menningar- og skemmtidagskrá þar sem boðið verður upp á allt það besta sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða.

Góð tímasetning
„Ljósanótt er hugsuð sem hátíð allra bæjarbúa og á að endurspegla það besta sem er að gerast í mannlífinu hér um slóðir á hverjum tíma. Tímasetning hátíðarinnar er miðuð við að bæjarbúar séu komnir heim úr sumarleyfum og að sem flestir gætu verið viðstaddir og tekið þátt í hátíðarhöldunum“, segir Kjartan Már Kjartansson, formaður Markaðs- og atvinnuráðs, og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.
Hugmyndin að fjölskylduhátíð var sett fram í stefnuskrá flokkanna fyrir síðustu kosningar. Hugmyndin var þó ekki útfærð neitt frekar fyrst um sinn, að sögn Kjartans. Það var í tengslum við Reykjavík-Menningarborg 2000 sem boltinn fór að rúlla fyrir alvöru.
„Undirbúningsnefndin í Reykavík hafði samband við okkur og bað okkur um að leggja okkar af mörkum. Okkar framlag var lýsing Bergsins og framhaldið þekkja flestir“, segir Kjartan.

Hátíðin er hvatning
Í fundargerð Markaðs- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar frá 28. mars sl. eru markmið Ljósanætur sett fram. Þar kemur m.a. fram að Ljósanótt verði fjölskylduvæn hátíð og vettvangur fyrir allt það besta og blómlegasta í menningarmálum á svæðinu og að hún verði samstarfsverkefni einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og bæjaryfirvalda. Að sögn Kjartans hafa undirtektir vegna Ljósanætur verið mjög góðar að þessu sinni en hann telur að hátíðin sé mikil hvatning fyrir fólk til að framkvæma stóra hluti, eins og að setja upp óperu sbr. Norðuróp.

Öflug kynning á bæjarfélaginu
„Ég vil koma á framfæri þökkum til þeirra sem staðið hafa að undirbúningi hátíðarinnar, en þeir einstaklingar skipta tugum, ef ekki hundruðum. Þess má geta að þetta starf er að mestu unnið í sjálfboðavinnu. Kostnaðurinn við hátíðina felst aðallega í að auglýsingum og kynningum. Reykjanesbær, fyrirtæki og einstaklingar skipta kostnaðinum á milli sín. Ég tel að þessi hátíð sé vettvangur fyrir okkur að kynna bæjarfélagið okkar, því ég sé fyrir mér að bæjarbúar verði duglegir við að bjóða til sín vinum og kunningjum annars staðar frá til að koma á Ljósanótt.“
Kjartan undirstrikar að Ljósanótt sé ekki eingöngu menningarhátíð heldur noti fyrirtæki og ýmis félagasamtök þetta tækifæri til að kynna starfsemi sína, sbr. íþróttakappleikir í tilefni dagsins, Tölvuskóli Suðurnesja verður með opið hús, Lífsstíll og fleiri aðilar.

Klæðum okkur vel
Veðrið verður mönnum oft umhugsunarefni þegar til stendur að halda útihátíð á Íslandi. Kjartan viðurkennir að auðvitað komi veðrið til með að spila stóran þátt í hátíðarhöldunum og eins og er þá er veðurspáin ekkert allt of góð. „Við erum ekkert öruggari með að fá gott veður í júlí frekar en í september en ef við höldum þessa hátíð nógu oft þá ættum við stundum að fá gott veður og stundum vont. Það þýðir alla vega ekki að leggja árar í bát. Ég hvet fólk bara til að búa sig vel og taka með sér regnhlífar“, segir Kjartan Már og er bjartsýnn að vanda.
Hvaða viðburði hefur þú hugsað þér að sjá á Ljósanótt?
„Ég ætla að reyna að fara vítt yfir og vera alls staðar, en auðvitað mun það ekki takast. Hápunktarnir eru tveir að mínu mati, óperan á dráttarbrautinni; Z-ástarsaga eftir Sigurð Sævarsson og hins vegar þegar kveikt verður á minnismerki sjómanna um kvöldið kl. 22. Svo ætla ég að reyna að vera með börnunum mínum í því sem þau vilja sækja.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024