Endurnýja Bryggjuhús Duushúsa
Framkvæmdir við endurnýjun Bryggjuhúss Duushúsanna eru nú í fullum gangi en síðustu árin hefur alltaf verið unnið..
Framkvæmdir við endurnýjun Bryggjuhúss Duushúsanna eru nú í fullum gangi en síðustu árin hefur alltaf verið unnið eitthvað á hverju ári við Duushúsin, annaðhvort úti eða inni. Frá þessu er greint á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Nú er unnið að því að ljúka neðstu hæð Bryggjuhússins að innan með það í huga að hægt verði að opna þar Listasafn Erlings Jónssonar í lok sumars.
Unnið er eftir teikningum Arinbjörns Þorvarðarsonar og lagt upp með það að hafa allt sem upprunalegast en þó þannig að nýtist í nútíma samfélagi. Hjalti Guðmundsson ehf fékk núverandi verkhluta eftir útboð.
Reykjanesbær leggur sjálfur til mest allt fjármagnið sem til þarf en verkefnið hefur þó hlotið styrki bæði frá Húsafriðunarsjóði ríkisins og Menningarsjóði Suðurnesja.