Endurgerð brunnsins við Brunnstíg vígð
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, vígði á Ljósanótt endurgerð brunnsins við Brunnstíg við upphaf sögugöngu um bæinn. Á brunninn er nú komin á ný dæla sem Árni notaði til þess að dæla vatni ofan í þyrsta göngufara en Árni gat þess í ræðu sinni að skortur á neysluvatni hafi lengi verið mikill vandi á Suðurnesjum og hafi þeir brunnar sem fyrir voru, áður en brunnurinn við brunnstíg var gerður, verið rammsaltir. Sú gamansaga hafi því gengið lengi vel á Innesjum að Suðurnesjamenn hefðu ævinlega með sér saltstauk til að strá í kaffið er þeir kæmu í höfuðstaðinn .
Þrátt fyrir hráslagalegt veður var góð mæting í sögugönguna sem var undir leiðsögn Rannveigar L. Garðarsdóttur. Hópurinn endaði svo gönguna í byggðasafninu á Vatnsnesi þar sem skoðuð var yfirstandandi sýning á brúðusafni Helgu Ingólfsdóttur. Þar eru einnig sýndar ljósmyndir Ellerts Grétarssonar af brúðunum og fatahönnun Gunnhildar og Brynhildar Þórðardætra.
Áður en brunnurinn við Brunnstíg, norðan Norðfjörðstúns, var grafinn voru tveir brunnar í Keflavík. Þeir voru við Náströnd og Íshússtíg. Þorgrímur Þórðarson læknir gat ekki fellt sig við stöðu vatnsmála í Keflavíkurþorpi, og í kjölfar tíðinda af taugaveikisýktu vatnsbóli í Reykjavík boðaði hann til fundar þar sem samþykkt var að Duusverslun myndi sjá til þess að ævinlega væru tvö vatnsból í tryggu og góðu standi í kauptúninu. Á móti féllust húsfeður sem brunnana notuðu að greiða sérstakan vatnsskatt árlega með lóðarleigugjödum í allt að 20 ár eða þar til útgjöld verslunarinnar ásamt vöxtum væru að fullu greidd. Framkvæmdir hófust árið 1907 og var grafinn brunnur vestan Norðfjörðstún.
Þegar Duusverslun hóf að innheimta hinn umsamda vatnsskatt vildu heimilisfeður ekki borga. Í fyrsta lagi voru þeir ósáttir við að þurfa að greiða kostnað vegna vegar sem gerður var að nýja vatnsbólinu (og síðar varð Brunnstígur). Ennfremur biluðu brunndælurnar fljótlega svo oft var ógjörningur að ná vatni úr brunnunum. Þá neitaði verslunarstjóri hjá Duus að kosta viðgerðir og brunnurinn lá ónotaður næstu árin. Það var ekki fyrr en 1911 að hnúturinn leystist með nýrri lagasetningu Alþingis sem heimilaði að hreppsnefndir innheimtu vatnsskatt og í framhaldi breyttist viðhorfið til vatnsveitu í þorpinu. Keflavíkurhreppur keypti vatnsbólin tvö af verslun H.P. Duus árið 1917 fyrir 1.500 krónur og annaðist þau eftirleiðis.
Mynd: „Endilega fáið ykkur meira, það er nóg til,“ sagði bæjarstjórinn og dældi vatninu mynduglega í drykkjarmál göngufólksins. VF-mynd: elg
Sjá fleiri myndir í ljósmyndasafninu hér á vefnum.