Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Endurfundir Varnarliðsfólks á Ljósanótt
Guðmundur Tyrfingsson, María Ben Erlingsdóttir og Erlingur Bjarnason.
Sunnudagur 31. ágúst 2014 kl. 09:00

Endurfundir Varnarliðsfólks á Ljósanótt

Keflanding er ný ferðaskrifstofa sem býður upp á fjölbreytta þjónustu.

„Upphaflega hugmyndin var að fá fyrrverandi starfsmenn og verktaka hjá Varnarliðinu til að hittast á Ljósanótt. Guðmundur Pétursson stofnaði Keflanding en svo tókum ég og pabbi, Erlingur Bjarnason, við þessu og bjuggum til ferðaskrifstofu í samstarfi við Guðmund Tyrfingsson hópferðaþjónustujöfur. Pabbi er einn af fyrrum starfsmönnum hersins,“ segir framkvæmdastjórinn María Ben Erlingsdóttir, sem hefur haft í nægu að snúast við að aðstoða varnarliðsfólk við skipulag vegna endurfundanna, m.a. með skipulagningu ferða, bókun gistingu og fleira.

Margir Íslendingar hafa þegar skráð sig til leiks en vonast er til þess að enn fleiri bætist í hópinn. „Við vonumst til að fá svona 100 - 150 manns. Við munum bjóða upp á að keyra fólk niður í bæ eftir samverustundina í Officeraklúbbnum ef það vill sjá flugeldasýninguna. Bandaríska sendiráðið er í samstarfi við okkur með þetta og einnig hafa margir góðir fyrrum starfsmenn hersins aðstoðað. ÍAV þjónusta og Kadeco hafa einnig sýnt mikinn stuðning. “

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur, María Ben og Erlingur fyrir utan Officeraklúbbinn á Ásbrú.

Vilja geta bætt við mannskap
Í framhaldi endurfundanna á Ljósanótt munu Keflanding síðan verða starfandi ferðaskrifstofa með ferðir um Suðurnesin og einblína helst á það svæði. „Rúturnar hans Guðmundar skipta svo miklu í þessu samhengi, án þeirra væri starfsemin ekki möguleg í þeirri mynd sem hún er.“ Keflanding er til húsa að Klettatröð 2314 á Ásbrú, við hliðina á Airport Inn hótelinu. María Ben sinnir daglegum rekstri og faðir hennar hjálpar til en María segist vona að smám saman geti þau bætt við sig mannskap og fengið atvinnuskapandi verkefni.

„Þjónusta okkar gengur út á að skipuleggja ferðir um landið og við getum hjálpað til með bókun á ferðum, bílaleigubílum, gistingu, í skoðunarferðir og allt sem heyrir undir það sem fólk langar að gera, borða og annað. Óvissuferðir eru líka dæmi um eitthvað sem við gætum séð um,“ segir María, sem er bjartsýn og vongóð um að í framtíðinni geti fyrirtækið komið sér fyrir í eigin húsnæði með mannskap og nóg að gera. „Það hefur komið mér mest á óvart hversu fjölbreyttur svona rekstur er og hversu mikið ég læri á hverjum degi,“ segir hún að endingu.

VF/Olga Björt