Endalok alheimsins fær þrjár stjörnur
Gagrýnandi Fréttablaðsins gefur leiksýningunni Endalokum alheimsins þrjár stjörnur í gagnrýni sinni. Fer Elísabet Brekkan fögrum orðum um sýninguna og segir í lokin: „Niðurstaða: Skemmtileg sýning með mjög eftirminnilegri aðalleikkonu." Ritdóminn má lesa í heild sinni hér:
„Það mætti halda að einhver predikari hefði verið á ferðinni. Predikari af þessari gömlu sort sem baðaði út öllum öngum og með þrumuraust boðaði ragnarök með Biblíuna í annarri hendinni og rit Nostradamusar í hinni. Ekki veit ég hvort slíkir loddarar hafa verið á stjái en hitt veit ég að nú um þessar mundir er heimurinn að farast í tveimur leikhúsum og sami leikarinn í báðum sýningunum. Regnið bylur á rúðum bifreiða sem njóta birtu frá öðrum hverjum ljósastaur Reykjanesbrautar á leið í hið ágæta leikhús í Kvikunni niður við höfnina í Grindavík. Eftir að borg eða heilt ríki hefur farist, birtast tveir piltar í rústunum á sviðinu og annar tekur fljótlega völdin þó svo að þeir séu aðeins einir í heiminum, að því er virðist í fyrstu. Fljótlega birtist þó ungt par og verður samleikur þeirra fjögurra við þessar aðstæður í matarskorti og óafvitandi um afdrif annarra, það sem við fáum að fylgjast með í hálfa aðra klukkustund.
Persónurnar eru vel afmarkaðar og hver með sínu sniði. Einn drullusokkur sem minnir um margt á peningabjálfa liðinna ára gerir allt sem hann getur til þess að ráðskast með og beita aðferðum nýfrjálshyggjunnar við að niðurlægja meðbræður sína og systur við þessar aðstæður.
Félagana tvo sem við hittum í upphafi léku þeir Sveinn Ólafur og Víðir Guðmundsson. Sveinn var í hlutverki hins umburðarlynda en líka svolítið aulalega Stefnis og tókst honum oft að fá salinn til að veltast um af hlátri með framgöngu sinni, en hann var ekki bara fyndinn heldur einnig mjög viðkvæmur og þeirri hlið skilaði Sveinn vel. Sólveig Guðmundsdóttir stendur upp úr og verður
minnisstæðust þeirra fjögurra. Hún leikur svo vandræðalegan vitleysing að manni fer eiginlega strax að þykja vænt um persónuna sem skakklappast um rústirnar á háum pinnahælum í glettnum leik þar sem hún reynir að glenna sig eins og glyðra, en viðkvæmur tónn sakleysis og kjánaskaps gerir hana bara að brjóstumkennanlegri vesalings stúlku sem langaði að verða söngkona. Freyja þessi var sum sé ein í heiminum með þremur karlmönnum þar sem Jón valdasjúki reyndi allt sem hann gat til þess að niðurlægja hana meðan Stefnir verndaði hana og Elvar sem var sér á parti hafði líklega meiri áhyggjur af sjálfum sér.
Benedikt Karl Gröndal leikur Elvar, sem stundum er uppnefndur Elvis, nördalegan þverslaufusendil innan úr flokksvél einhverri á hægri vængnum. Á köflum óheyrilega fyndinn. Jón sem Víðir leikur stjórnar atburðarásinni og því veltur leikurinn svolítið á hans tempói. Það tók örlitla stund að ná flugi en þegar á leið var þetta hin magnaðasti samleikur með yfirbragði farsans þar sem ekki vantaði blóðslettur, hnífakast né upprisu.