Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Elti leikkonu drauminn
Sunnudagur 30. desember 2018 kl. 08:00

Elti leikkonu drauminn

Eva Óskarsdóttir, leikkona og móðir, ákvað að taka til í lífi sínu og elta drauma sína eftir að hún greindist með augnsjúkdóm

Eva Óskarsdóttir, leikkona og móðir, ákvað að taka til í lífi sínu og elta drauma sína eftir að hún greindist með augnsjúkdóm. Hún sótti leiklistarnámskeið í Evrópu og Los Angeles og hefur nú tekið þátt í fjölda verkefna. Fyrr í haust fór Eva með aðalhlutverk í kvikmyndinni og spennutryllinum Angels Never Cry.

Berst við ólæknandi augnsjúkdóm
„Mín fyrsta hugsun þegar ég greindist með sjúkdóminn, fyrir tíu árum síðan, var að ég myndi ekki vilja lifa ef ég missti sjónina. Börnin mín tvö voru þá bara fjögurra og tveggja ára. Þetta var of mikið sjokk fyrir mig til að ráða við ein,“ segir Eva en hún ákvað þá að snúa viðhorfi sínu algjörlega við, leita sér aðstoðar og elta drauma sína. „Svona hugsanir eru eðlilegar en við stöndum upp með breitt bak á næstu sekúndu. Við höldum áfram.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eftir nokkra mánuði af auglýsingaverkefnum og einkakennslu ákvað Eva að leggja land undir fót og kynnast leiklistinni betur. „Einhvern veginn togaði Los Angeles í mig en ég gat ekki séð það fyrir mér að ég, tveggja barna móðir, flytti þangað. Ég ákvað því að byrja hægt og rólega.“



,,Mitt vandamál var að ég ætlaðist til allt of mikils af sjálfri mér og sá aldrei mína eigin velgengni. Það tók mig þó nokkurn tíma þangað til að ég, útkeyrð og nú vitandi að ég gæti mögulega misst sjónina mína, gerði mér grein fyrir því að ég væri alls ekki að njóta lífsins. Ég seldi fyrirtækið mitt og ákvað að það væri kominn tími til að ég færi virkilega að lifa lífi mínu.“

Leyfi frá eiginmanninum
Fyrsta erlenda leiklistarnámskeiðið sem Eva fór á var haldið í Berlín í Þýskalandi en það stóð einungis yfir eina helgi. „Mér gekk mjög vel þar en þegar ég kom aftur heim, eftir að hafa verið heila helgi úti með leikurunum, saknaði ég þess lífs strax. Mig langaði svo mikið að halda áfram en vissi ekki hvernig ég gæti fengið fjölskylduna mína um borð,“ segir Eva, en fjölskyldan var þó ekki lengi að hvetja hana til þess að halda áfram. Næsta námskeið var haldið í Róm á Ítalíu og þangað hélt Eva.


Á þessu flakki um heiminn upplifði Eva þó að sem móðir þyrfti hún að réttlæta ýmislegt fyrir fólki. „Mér fannst áhugavert hvernig margt fólk í kringum mig brást við. Það spurði hvort ég væri búin að fá leyfi frá manninum mínum til að fara og hvort ég héldi að ég yrði fræg ef ég færi til LA. Það versta var þó að ég sjálf fékk mikið samviskubit fyrir það að leyfa sjálfri mér að fara. En það var aldrei maðurinn minn sem hefði virkilega stöðvað mig, heldur ég sjálf.“

Kaffibolli með Tarantino
Það tók Evu tíma að læra að slaka á í borg englanna þegar hún fór þangað fyrst en þegar hún gerði sér grein fyrir því að fjölskylda hennar heima á Íslandi hefði það fínt gat hún einbeitt sér að komandi verkefni en hún var þá í burtu frá Íslandi í sex vikur. „Orkan í Los Angeles er virkilega spes og hún er hvetjandi ef maður er í leiklist, enda snýst mjög margt þar um kvikmyndaheiminn,“ segir Eva.

Fjöldinn allur af kvikmyndastjörnum er búsettur í borginni og Eva minnist þess til að mynda að hafa einn daginn staðið á kaffihúsi og tekið eftir því að við hlið hennar stóð enginn annar en Quentin Tarantino. „Hann heilsaði mér og ég þóttist vera voða kúl og heilsaði til baka, settist niður og drakk drykkinn minn. Okkar á milli var ég hins vegar að deyja úr stressi.“

Draumur að gera kvikmynd á klakanum
Í fyrrasumar ákvað Eva að kominn væri tími til að komast almennilega á leikaramarkaðinn og leiðin lá aftur út til LA. Hún skráði sig á síðu fyrir leikara í borginni og eftir einungis tvo daga var hún boðuð í prufu fyrir aðalhlutverk í stuttmynd. Áheyrnaprufan gekk mjög vel og fékk Eva hlutverkið.




Á setti fyrir þá stuttmynd kynntist Eva Lok Woo Kwan, leikstjóra Angels Never Cry, eða Janice eins og hún er kölluð. „Það var ekki fyrr en eftir tökur á þeirri mynd sem hún sagði mér frá plönum sínum um kvikmyndina sína og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma í áheyrnaprufu til hennar fyrir aðalhlutverkið.“ Eva gerði það og fékk hlutverkið.
Ákveðið var að myndin yrði tekin upp á Íslandi og Eva var gerð að meðframleiðanda myndarinnar. „Ég er núna búsett í Austurríki en er samt einn stoltasti Íslendingur sem hægt er að finna. Eftir að ég byrjaði í leiklistinni vissi ég að mig langaði til þess að gera kvikmynd heima á Íslandi. En ég hefði aldrei getað ímyndað mér að það tækifæri kæmi í gegnum unga konu frá Hong Kong, búsettri í Los Angeles, eftir að hafa farið þangað sjálf að taka mín fyrstu skref.“

Orkan á Íslandi
Angels Never Cry fjallar um listakonuna Theresu og innri baráttu hennar við þá staðreynd að augnsjúkdómurinn hennar gæti tekið sjón hennar í burt fyrir fullt og allt. Handriti myndarinnar var breytt á þá vegu eftir að Eva fékk hlutverkið. Kvikmyndin er spennutryllir og heimurinn í kringum Theresu ekki alveg eins og hann sýnist, þar sem hún þarf á endanum að berjast um líf sitt og eigimanns síns.

Myndin var tekin upp í mars síðastliðnum, um miðjan vetur, og varði hópurinn oft klukkutímum saman utandyra í kuldanum. „Við vissum að íslenska landslagið myndi gera kvikmyndina einstaka,“ segir Eva.


Þegar myndin var tekin upp á Íslandi lýsir Eva því þannig að allir hafi verið tilbúnir að hjálpa til. Foreldar hennar, Hildur Harðardóttir og Óskar Halldórsson, aðstoðuðu þau mikið og þá var bróðir hennar, Davíð Óskarsson, fyrrum formaður Leikfélags Keflavíkur, talsmaður þeirra við Blue Car Rental. Meira að segja frændur, frænkur og afi Evu voru aukaleikarar í myndinni. „Ekki má svo gleyma Helgu Steinþórsdóttur, eiganda Mýr Design, en hún lánaði okkur fatnað frá sér. Það eru svo margir sem ég gæti talið hér upp. Þetta er orkan á Íslandi. Allir, meira að segja fólk sem við þekktum ekki fyrir, var tilbúið að aðstoða okkur. Allir hjálpuðust að og þannig gátum við tekið myndina upp á einungis þremur vikum.“

Fór að trúa á sjálfa sig

Í dag er Eva til að mynda að vinna að heimildarmynd um íslenska tónlist og öðru verkefni ásamt austurrískum rithöfundi. „Ég hef í raun ekki hugmynd um hvernig næstu ár verða og það er bara spennandi. Ég var minn versti óvinur og hafði ekki hátt álit á sjálfri mér en það er svo rosalega mikilvægt að við tölum fallega til okkar. Ef ég hefði ekki byrjað að breyta hugsunum mínum gagnvart sjálfri mér hefði ég aldrei haft innri styrk til að hætta að hlusta á og trúa neikvæða fólkinu í kringum mig. Einmitt þess vegna hafði ég trú á því að ég gæti einn daginn leikið í bíómynd. Það mikilvægasta sem við mæður gerum er að fylgja draumunum okkar.“

Viðtal: Sólborg Guðbrands