Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Elsti baukurinn 200 ára
Steinunn Elísabet Reynisdóttir tinbaukasafnari.
Föstudagur 26. desember 2014 kl. 10:00

Elsti baukurinn 200 ára

Tapaði 400 tinbaukum í flutningum en byrjaði bara að safna a ný og á aftur 400 stykki.

Húsmóðirin Steinunn Elísabet Reynisdóttir er uppalin í Innri-Njarðvík en hefur búið í Keflavík frá 13 ára aldri. Steinunn hefur safnað tinbaukum í áratugi og á um 400 stykki. Sá elsti er um 200 ára. Þeir veita henni mikla gleði. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðeins hluti af safni Steinunnar. 

Mackintosh dósir frá ýmsum tímum. 

„Enginn baukanna er eins og hver þeirra á sína sögu. Mér þykir ógurlega vænt um gamla bauka, sérstaklega ef það einhver saga á bak við þá, t.d. hvaðan þeir koma, hver var eigandinn og hvað var geymt í þeim,“ segir Steinunn sem fer afar vel með baukana og geymir þá í kössum. „Ég kveiki stundum á kertum í sumum baukanna, kemur góður ilmur úr þeim. Annars tek ég þá alltaf upp fyrir jól og set þá aftur í kassana eftir hátíðirnar. Ég var um tíma með baukana uppi á eldhússkáp. Þar safnaðist bara fita á þá. Einnig láta þeir á sjá ef þeir eru mikið handfjatlaðir. Best að pakka þessu niður og sýna fólki bara myndir af þeim,“ segir Steinunn og hlær.  

Jólabaukar í úrvali. 

Baukurinn sem langamma Steinunnar átti.  

Langamman átti þann elsta

Steinunn á eiginmann og þrjú uppkomin börn. Dags daglega aðstoðar hún vini og kunningja við ýmislegt sem þau þurfa á að halda. Hún vill láta gott af sér leiða. Tinbaukarnir hennar veita henni gleði, eru af ýmsu tagi og koma víða að úr heiminum. „Ég hef verið mjög heppin með hversu duglegir vinir og kunningjar hafa verið að færa mér bauka. Bróðir minn fór t.d. til Suður-Afríku og kom með lítinn Royal bauk. Hann er enn óopnaður; það er enn lyftiduft í honum. Ég man þó ekki alveg hver gaf mér hvern. Þetta eru um 400 stykki.“ Elsti baukurinn er um 200 ára gamall saumabaukur sem var í eigu langömmu Steinunnar. „Mamma afhenti mér hann. Amma var fædd 1877, mamma hennar mömmu. Hún fékk baukinn eftir langömmu, svo mamma og svo ég. Þetta þótti rosalega fínt, allt handgert.“

Hent á haugana í misgripum

Fyrir mörgum árum glataði Steinunn tæplega 400 bauka safni í flutningum en byrjaði upp á nýtt að safna fyrir 10-12 árum. „Kössunum var hent á haugana í misgripum. Það var ekkert annað í stöðunni en að byrja aftur. Ég þakkaði bara Guði fyrir að dýrmætustu baukana geymdi ég í kassa heima hjá mömmu. Greinilega öruggur staðar að vera á,“ segir Steinunn brosandi og bætir við að hún hafi alla tíð verið með baukadellu. „Ég á bágt þegar ég sé svona bauka í búðum. Vil helst kaupa þá alla. Hefði ekkert á móti því að eiga eintak af hverjum svona bauk úr Árbæjarsafninu.“ Rósa, elsta systir Steinunnar, gaf henni 40 bauka um daginn. „Þetta voru baukar sem hún átti og aðrir sem hún fékk frá vinum og kunningjum. Það munaði aldeilis um þá. Ef einhver vill losna við vel með farna bauka þá veit hann af mér núna.“ 

Safnið ekki til sölu

Steinunn segist staðráðin í að dunda sér áfram við baukasöfnun. Spurð um hvort einhverjir þeirra séu falir fyrir gott verð segir hún safnið ekki vera til sölu. „Margir hafa spurt mig eftir að ég birti myndir af baukum á Facebook. Sumir voru hálf fúlir og spurðu hvers vegna ég væri þá að birta myndirnar. Ég vildi bara sýna hverju ég er að safna. Ég komst líka í kynni við aðra konu sem einnig  safnar baukum. Ég hef bara aðallega gaman af þessu,“ segir Steinunn.

VF/Olga Björt