Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Elskar að opna pakka
Miðvikudagur 23. desember 2020 kl. 07:07

Elskar að opna pakka

Einar Skaftason starfar við flugvernd í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ekki hefur verið mikið um flug að undanförnu en alltaf eitthvað smá að gerast þannig að dagarnir í vinnunni hjá Einari hafa verið skrítnir. „Það er nú lítið að frétta af áhugamálunum þar sem allar íþróttir liggja niðri en hef þó alla fjölskylduna með mér í þessum skrítnu aðstæðum,“ segir hann í samtali við Víkurfréttir. Einar svaraði nokkrum jólaspurningum frá Víkur-fréttum.

– Fyrstu jólaminningarnar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar ég sá jólasveinana í fyrsta skiptið aftan á traktors-kerru um miðja nótt og frá og með þeirri stundu hef ég trúað á tilvist þeirra og læt engan segja mér annað.“

– Jólahefðir hjá þér?

„Lítið um hefðir en erum sennilega eins og flestir. Borða góðan mat, opna pakka og bara vera saman fjölskyldan og njóta samverunnar.“

– Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðarnar?

„Get ekki sagt það, hef alltaf verið smá dekurdýr og er svo heppinn að betri helmingurinn sér alfarið um matinn og gerir það lystavel.“

– Uppáhaldsjólamyndin?

„Christmas Vacation með Chevy Chase sígild og góð.“

– Uppáhaldsjólatónlistin?

„Rut Reginalds og Helgi Björns koma þar sterk inn og bara þessi sígildu lög sem fá spilun í útvarpi.“

– Hvar verslarðu jólagjafirnar?

„Í ljósi aðstæðna var allt verslað á netinu. Black Fridays, Single Days og Cyber Mondays eða hvað þetta nú allt saman heitir. “

– Gefurðu margar jólagjafir?

„Elska að opna pakka og þar af leiðandi gef ég þrjá pakka á hvern fjölskyldumeðlim og óska eftir því sama alla vega frá makanum. Börnin sleppa með einn pakka ...“

– Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?

„Get nú ekki sagt það en reyni þó alltaf að fara kirkjugarðsrúnt og kasta kveðju á fólkið mitt þar.“

– Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Erfið spurning – en fyrir mér þá eru allar gjafir góðar. Það er hugurinn sem skiptir öllu máli gott fólk, ekki hvað hún kostar.“

– Hvað langar þig í jólagjöf?

„Ef einhver getur gefið mér og okkur öllum Covid-laust líf þá þigg ég það með þökkum. Sennilega pakkinn sem allir óska sér.“

– Hvað er í matinn á aðfangadag?

„Hamborgarhryggur og kalkúnn vegna sérþarfa barnanna.“

– Eftirminnilegustu jólin?

„Öll jól eftirminnilegust. Vera með sínum nánustu og njóta er það besta og hugsa til þeirra sem eru ekki lengur meðal okkar. Óska öllum gleðilegra jóla og muna að vera góð við hvert annað.“