Elligleðin vakti mikla lukku
Tenórsöngvarinn Stefán H. Stefánsson gladdi sannarlega heimilisfólkið á Hlévangi í gær er hann kom og söng fallegar íslenskar dægurperlur frá fyrri hluta síðustu aldar. Hann og Margrét Sesselja Magnúsdóttir hafa undanfarið staðið að verkefninu Elligleðin þar sem Stefán syngur fyrir aldraða víða um land og í gær voru þau Margrét á ferð um Suðurnesin. Stefán hefur svo sannarlega sungið sig inn í hug og hjört gamla fólksins og mikil gleði hefur jafnan brotist út á skemmtununum líkt og á Hlévangi í gær. Stefán söng þá lystavel og sagði skemmtilegar sögur þess á milli. Hann lét þó ekki þar við sitja heldur tók hann léttan snúning og kraup á kné og söng til kvenna á staðnum, hann gjörsamlega heillaði konurnar upp úr skónum.
Verkefnið gengur eingöngu á styrkjum en Víkurfréttir styrktu einmitt verkefnið við þetta tækifæri. „Þetta gengur með styrkjum og við höfum verið það lánsöm að ýmsir hafa lagt þessu lið,“ segir Margrét. Hún sagðist í gær vona til þess að fleiri fyrirtæki sjái sér fært um að styrkja þetta verðuga verkefni.
Stefán og Margrét Sesselja í gær.
VF-Myndir [email protected]: Að ofan má sjá Stefán syngja og heilla konurnar á Hlévangi.