Ellert sýnir eld og ís í Duushúsum
Eldur og ís er heiti ljósmyndasýningar Ellerts Grétarssonar sem verður í Bíósal Duushúsa á þessari Ljósanótt.
Íslenskt eldfjalla- og jöklalandslag er viðfangsefni Ellerts á þessari sýningu eins og nafn hennar gefur til kynna. Eldur og ís eru andstæðurnar sem mótað hafa jarðfræðiundrið Ísland í milljónir ára.
Á sýningunni verða ljósmyndir sem Ellert hefur tekið á ferðum sínum um undraheima íslenskra skriðjökla, útkulnaðra megineldstöðva og forvitnileg svæði sem jarðhitinn og eldvirknin hefur sett svip sinn á.
Flestar ljósmyndirnar eiga það sameiginlegt að sýna smæð manneskjunnar andspænis stórbrotinni náttúru. Myndirnar eru því eins konar óður til víðáttunnar og þeirra lífsgæða Íslendinga sem felast í því að geta notið hennar í ósnortinni náttúru aðeins steinsnar að heiman.
Sýningin verður opnuð formlega fimmtudaginn 2. september kl. 18. Opið verður til kl. 22. Á föstudeginum verður opið frá kl. 13 – 20, laugardaginn frá kl. 13 – 19 og á sunnudeginum frá kl. 13 – 17.