Elísabet Ásberg með sýningu á Park Inn á Ljósanótt
„Ég er mikil tilfinningavera“ segir listakonan Elísabet Ásberg sem mun halda sýningu á Ljósanótt en hún fæddist og ólst upp í Keflavík til sextán ára aldurs þegar hún flutti til Reykjavíkur og hefur búið á höfuðborgarsvæðinu síðan þá fyrir utan að hafa búið erlendis um tíma. Hún byrjaði feril sinn sem skartgripahönnuður, færði sig svo yfir í sköpun málmskúlptúra og er komin aftur í ræturnar má segja, að hanna skartgripi og ýmislegt annað.
Ræturnar
Margir kveikja eflaust á eftirnafninu, en langafi Elísabetar úr móðurætt, Eyjólfur Ásberg, stofnaði Nýja bíó í Keflavík fyrir u.þ.b. 100 árum síðan. Amma hennar og nafna, Elísabet Ásberg, rak bíóið þar til faðir hennar, Árni Samúelsson tók við.
„Ég var sextán ára þegar ég flutti frá Keflavík en ég finn hvað ég á sterkar rætur hér. Það er alltaf gaman að koma á Ljósanótt og sýna hvað ég er að gera, ég hlakka mikið til sýningarinnar.
Ég byrjaði minn feril sem listamaður fyrir u.þ.b. 30 árum sem skartgripahönnuður en langaði alltaf að spreyta mig á stærri hlutum og byrjaði að hanna málmskúlptúra og stærri verk um aldamótin. Ég hanna og smíða úr öllum málmi, eins og silfri, stáli og kopar. Þetta eru kaldir, flatir málmar sem mér finnst gaman að gefa líf og forma með allskyns tækni og stundum bara hamar og sög. Vegglistaverk hafa verið fyrirferðamest í minni sköpun á undanförnum árum. Ég geri talsvert af því að hanna sérpartanir, síðasta stóra verk sem ég hannaði var t.d. verk fyrir dómshús EFTA í Lúxemborg, sem var mikill heiður að vera valin til að vinna það verk,“ segir Elísabet.
Þykir vænt um útiskúlptúrinn „Súlan“
„Einnig þykir mér vænt um Súluna sem stendur er fyrir framan DUUS-hús í mínum heimabæ. Ég er mjög þakklát fyrrverandi menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, Valgerði Guðmundsdóttur, hún leitaði til mín árið 2005 og bað mig um að hanna menningarverðlaun Reykjanesbæjar og mín túlkun af Súlunni varð til. Það var svo árið 2018 sem menningarráð Reykjanesbæjar lagði til að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duushúsa í tilefni afmælis þriggja menningarstofnana Reykjanesbæjar. Fyrir þessa viðurkenningu er ég mjög þakklát. Lífið fer svo sannarlega í hringi, samfara vinnu minni við stærri verk þá hef ég snúið mér aftur að skartgripahönnun, ekki ósvipað og það sem varð til þess að ég hóf minn feril sem listamaður og kalla þá hönnun BÉTA. Hálsfestarnar mínar eru gjarnan með orkusteinum og leðri og mætti segja að þær endurspegli tengingu mína við náttúruna, því ég er mikið náttúrubarn.“
Ber hjartað utan á mér
Elísabet verður í hópi listafólks sem mun sýna í Park Inn hótelinu alla Ljósanæturdagana og á von á mörgum gestum. „Ég er mikil tilfinningavera og finnst ég stundum bera hjartað utan á mér sem endurspeglast í verkum mínum á hverjum tíma fyrir sig. Ég mun bæði sýna veggskúlptúra og BÉTA línuna og aðra nytjahönnun. Ég hlakka mikið til að taka þátt og hitta íbúa Reykjanesbæjar og gesti á Park Inn dagana 5. til 8. september,“ sagði Elísabet að lokum.
Elísabet er með vinnustofu á Álfabakka 8, 109 Reykjavík og hægt er að ná í hana í síma 863-3269.
Hægt er að fylgja henni á Instagram: @elisabet.asberg.art