Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kolfallin fyrir súrdeigsbrauði
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 30. ágúst 2020 kl. 07:44

Kolfallin fyrir súrdeigsbrauði

BAKAÐ með Elenoru Rós kemur út í haust

Njarðvíkurmærin Elenora Rós Georgsdóttir, Suðurnesjamaður ársins 2017 hjá Víkurfréttum, átti sér draum um að gefa út bók um brauð og kökur. Nú er hann að verða að veruleika og BAKAÐ með Elenoru Rós kemur út í haust. Hún bakaði uppskriftirnar og skrifaði alla bókina á aðeins tveim vikum í sumar.

„Bókin er virkilega fjölbreytt og stútfull af nýjum uppskriftum og góðum ráðum.  Þetta er eiginlega covid-barnið mitt þar sem hugmyndin að bókinni varð til í samkomubanninu,“ segir Elenora Rós Georgsdóttir, bakaranemi og Suðurnesjamaður ársins 2017.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elenora Rós hefur verið dugleg á samfélagsmiðlum og margir fjölmiðlar hafa sagt frá ævintýrum bakaranemans úr Innri-Njarðvík. Þá hefur hún verið reglulegur viðmælandi á útvarpsstöðinni K100.

– En hvað geturðu sagt okkur um þessa bók?

„Mér þykir ofboðslega vænt um þessa bók. Ég fékk skilaboð frá Jóni Axel Ólafssyni sem sagði mér að ég ætti að gefa út bók í byrjun árs. Ég átti mér draum um að gera það einn daginn en bjóst ekki við að gera það svona ung. Eitt leiddi að öðru og örfáum vikum eftir þessi skilaboð var ég komin með útgáfusamninginn í hendurnar og allt fór á fullt.“

Eitthvað fyrir alla

Bókin skiptist í fimm kafla og fjalla þeir um súrdeigsbakstur, brauðrétti, sætabrauð, þjóðlegt bakkelsi og samlokur. „Það ættu allir að finna sér eitthvað í þessari bók. Eddan gefur út bókina og um uppsetninguna á henni sér ritstýran mín, hún Þóra Kolbrá. Hún er algjör gullmoli og á mikið hrós skilið. Bókin verður yfir 150 blaðsíður og mun koma út í haust, líklegast í október og mun bera nafnið BAKAÐ með Elenoru Rós. Þetta var allt virkilega fljótt að gerast en ég bakaði allar uppskriftirnar og skrifaði alla bókina á aðeins tveim vikum. Þetta var þvílíkt púsluspil þar sem ég var í fullri vinnu á meðan en hófst á endanum með mikilli vinnu sem og hjálp frá fólkinu í kringum mig. Bróðir minn og mágkona voru t.d. dugleg að bjóða mér í mat og mamma og pabbi hjálpuðu mikið til við frágang sem munaði miklu.“

– Hvernig er að starfa í eldhúsi Bláa lónsins, fær bakarinn að njóta sín þar?

„Ójá, heldur betur. Ég elskaði fyrri vinnustaðinn minn, það sem ég gerði þar og fólkið þar. Ég átti mjög erfitt með að hætta að vinna þar til að geta byrjað að vinna í Bláa Lóninu – en ég sé sko heldur betur ekki eftir því. Ég kynntist svo innilega frábæru fólki þegar ég byrjaði að vinna þar og hef lært svo heilmargt. Þar fæ ég að vinna með croissant, kökur, súrdeigsbrauð, eftirréttagerð og konfektgerð svo fátt sé nefnt. Ég elska hvað dagarnir mínir eru fjölbreyttir og hvað ég hef lært ótrúlega marga nýja hluti. Bakararnir og kokkarnir sem ég vinn með eru frábærir og eru ávallt tilbúnir að hvetja mig áfram og styðja mig í mínu fagi. Við gerum morgunmat fyrir hótelið, eftirrétti og brauð fyrir veitingastaðina LAVA og MOSS, kökur fyrir „high tea“ á hótelinu, bakkelsið fyrir bistroið, brauð og bakkelsi fyrir starfsmennina og svo erum við oft með allskyns pantanir og fleira.“

– Hvað finnst þér skemmtilegast að baka?

„Ég var kolfallin fyrir kökum þegar áhuginn minn á bakstri kviknaði og fljótt fór ég að hafa mikinn áhuga á blautdeigi, croissanti og skandinavísku bakkelsi en núna í dag er það alveg klárt mál, súrdeigsbrauð. Ég hef aðeins unnið í súrdeigbakaríum frá því ég hóf námið mitt en áhuginn minn kviknaði ekki fyrr en í samkomu-banninu þegar ég bjó til minn eigin súr og allt fór á fullt. Núna er ég alveg heltekin og finnst allt við þetta ferli svo áhugavert og spennandi og það hlakkar í mér í hvert skipti sem ég veit að það er súrdeigsbakstur framundan.

– Hvernig hefur sumarið leikið við þig?

„Sumarið mitt fór heldur betur ekki eins og planað var og var frekar óvenjulegt en samt skemmtilegt. Ég ætlaði mér upprunalega að taka mér langt frí, kíkja til útlanda og hafa það næs en ég var á fleygiferð í allt sumar og lítill tími fór í afslöppun. Mikill hluti af sumrinu fór í bókina, að búa til uppskriftirnar, baka þær, mynda bakkelsið og skrifa uppskriftirnar. Ég var með –„pop-up“-bakarí á Deig í miðbæ Reykjavíkur í byrjun sumars sem var virkilega skemmtilegt og svo byrjaði ég að vinna aftur þar sem Bláa lónið lokaði í ágætan tíma vegna COVID en opnaði aftur í júní. Ég tók mér aðeins vikufrí í allt sumar og fór þá hringinn í kringum landið sem var virkilega skemmtilegt en við voru mjög heppin með veðrið allan tímann sem við ferðuðumst. Annars var ég mikið að reyna að njóta þeirra sólargeisla sem við fengum þetta árið með vinum mínum og fjölskyldu þegar ég var ekki að skrifa bók eða vinna.“

– Þannig að haustið hlýtur að leggjast vel í þig, bókin að koma út og spennandi hlutir að gerast hjá þér?

„Haustið verður vonandi ótrúlega skemmtilegt. Ég gef bókina mína út í haust sem leyfir mér strax að trúa að það sé alla vega eitthvað sem ég get hlakkað til. Þar sem mun færri ferðamenn eru að koma til landsins ríkir mikil óvissa hjá mér varðandi vinnu þar sem ég stóla á ferðamenn til að geta haldið minni vinnu en ég krossa fingur og vona það besta. Ég er margfalt meiri haust- og vetrarkona heldur en sumar- og vorkona svo ég er heldur betur tilbúin í smá kósý stemmingu og notalegheit. Ég er dugleg að finna mér ný verkefni og það er sjaldnast lognmolla í kringum mig. Þannig að þó svo að það sé kannski ekki mikið planað þá finn ég mér alltaf eitthvað,“ segir Elenora Rós verðandi rithöfundur.