Eldvarnaátak á landsvísu hefst í Myllubakkaskóla í dag
Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefst í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ kl. 13 í dag. Þar fræða starfsmenn Brunavarna Suðurnesja og Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, börn og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Síðan fer fram rýmingaræfing í skólanum og að því búnu fá Sigurður Ingi og fleiri að spreyta sig á að slökkva elda, skoða slökkvi- og sjúkrabíla og fara í körfubíl. Í kjölfarið fá allir grunnskólar landsins heimsókn frá slökkviliðinu sínu.
Logi og Glóð aðstoða
Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.
Slökkviliðsmenn munu í átakinu heimsækja vel á fimmta þúsund átta ára börn til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir.
Eldhætta eykst á aðventunni
Í tilkynningu frá Landsambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna kemur fram að alltof mörg heimili hafi engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Þá sé innan við helmingur heimila með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telji lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.
Nú fer í hönd tími þegar eldhætta eykst á heimilum. Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana.
Lágmarkseldvarnir á heimilum eru:
Reykskynjarar, tveir eða fleiri.
Slökkvitæki við helstu flóttaleið.
Eldvarnateppi á sýnilegum stað nálægt eldavél.
Lágmarkseldvarnir á heimilum eru:
Reykskynjarar, tveir eða fleiri.
Slökkvitæki við helstu flóttaleið.
Eldvarnateppi á sýnilegum stað nálægt eldavél.