Eldsneytisdrægnikvíði tók að þjaka fimmtán ferðalanga
Horn í horn í horn á sjö dögum
Melrakkar er fjórhjóla- og buggy-félag sem hefur gaman af ferðalögum um hálendi Íslands. Síðasta árið hefur verið í undirbúningi sjö daga ferð frá Reykjanestá til Fonts á Langanestá og lögðu fimmtán manns af stað miðvikudaginn 19. júlí síðastliðinn. Víkurfréttir spjölluðu við Guðberg Reynisson, einn ferðalanga, og báðu hann að segja okkur frá ferðinni.
Guðbergur Reynisson og eiginkona hans, Arnbjörg Elsa Hannesdóttir, voru meðal horn í horn-fara en aðrir með í för voru Karl Eiríkur Hrólfsson, Karítas Gunnarsdóttir, Íris Sigtryggsdóttir, Elmar Magnússon, Íris Erlingsdóttir, Sæmundur Sæmundsson, Garðar Gunnarsson, Harpa María Sturludóttir, Valtýr Gunnlaugsson, Guðmundur Hilmarsson, Sverrir Hafnfjörð, Kristinn Jakobsson og Ólöf Kristín Sveinsdóttir.
Lagt var af stað snemma miðvikudagsmorgun og þrátt fyrir byrjunarbilunarvesen þá komst hópurinn af stað rétt eftir hádegið. Fyrsti leggur var framhjá Eldvörpum inn í Grindavík, framhjá gossvæðinu, austur að Kleifarvatni, yfir á Bláfjallaafleggjara og línuveginn austur að svifflugvellinum á Sandskeiði.
„Í þetta skipti náðum við ekki að gæða okkur á Hlöllabát á Litlu kaffistofunni,“ sagði Guðbergur undrandi; „því af óútskýranlegum ástæðum lokar þar kl. 16:00.“
Uppi á Hellisheiði er stórskemmtileg Þúsundvatnaleið sem má segja að sé uppáhaldsleiksvæði fjórhjólamanna en þeim finnst mjög gaman að göslast annað slagið.
Veðrið var með eindæmum gott og enginn að flýta sér svo farið var í rólegheitum gegnum Grafninginn norður að Þingvallavatni. Hópurinn náði á fyrsta leiðarenda í Reykjaskógi upp úr klukkan níu um kvöldið.
Beggi segir að gistingar í svona ferð geti verið mjög misjafnar. „Í Reykjaskógi gistum við í sumarbústað en næstu nætur í fjallaskálum og til dæmis í samkomuhúsi á Svalbarði á Melrakkasléttunni.“
Tafir vegna veðurs
„Dagur tvö var langur dagur þar sem bæði þurfti að keyra Hrunamannaafréttinn og Sprengisandinn en við höfðum ákveðið fyrir ferðina að skoða eins mikið og hægt var og stóðum við við það. Hægt er að sjá Gullfoss sunnan megin við Hvítánna og stoppuðum við aðeins þar. Eftir Hrunamannaafréttinn er skyldustopp við Háafoss og útsýnið vestur Þjórsárdalinn frá Háafossi er guðdómlegt.“
Þegar komið var yfir stífluna við Tröllkonuhlaup undir Búrfelli var ákveðið að koma við í Áfangagili sem er ótrúlega fallegur staður segir Beggi, „en vegna veðurs eyddum við allt of löngum tíma þar liggjandi í sólinni í algerri afslöppun. Það er nefnilega þannig að lítið sem ekkert símasamband er á fjöllum og því er hægt að kúpla sig algjörlega út.“
Ferðinni var haldið áfram og komið m.a. við í Sigöldufossi áður en stoppað var í kaffi í Hrauneyjum og til að taka bensín – og aldrei þessu vant var í lagi með bensíndæluna þar.
Nýyrðið eldsneytisdrægnikvíði varð til í ferðinni því endalaust var verið að velta því fyrir sér hvort hópurinn myndi ná á næstu bensínstöð og hve langt væri frá hálendishótelinu í Hrauneyjum og í næsta bensín á Möðrudal fyrir norðan.
Undirbúningurinn mikil áskorun
Það að fara með fimmtán manns á hálendið getur verið mikil áskorun, þar sem allir hafa skoðun á leiðarvali og fjölda daga. Þess vegna getur verið að leiðarval breytist oft í undirbúningi en þegar á hólminn er komið er reynt eftir besta megni að halda áætlun og að allir haldi sínum stað í röðinni og hjálpist að við að komast heil á leiðarenda.
Melrakkar segja að gæta þurfi að skipuleggja ekki of mikið þannig að hægt sé að breyta í miðri ferð. „Það má nefnilega ekki gleyma frelsinu sem verið er að leita eftir og því má ekki binda sig of mikið við áfangastaði, enda er það ferðalagið sem skiptir máli en ekki kappakstur um það hver er fyrstur í mark.“
Hver einasti aðili hefur tilgang í ferðinni, hvort sem er á ferðinni, við undirbúning á svefnstöðum eða vegna viðgerða og þess háttar. Allir taka þátt að einhverju leyti og þess vegna myndast tengsl milli ferðafélaga sem erfitt er að rjúfa á meðan á ferð stendur.
Eftir stopp í Hrauneyjum var farið yfir Sprengisand og þó svo honum sé oft lýst sem ferð til tunglsins, og að þar sé ekkert að sjá nema endalausar sandöldur, þá er eitthvað við þetta landsvæði sem heillar ferðamanninn. Yfirleitt er rok á Sprengisandi en það er mishvasst. „Eina stundina ertu í vandræðum með að sitja á farartækinu vegna þess hversu hvasst er og hina stundina ertu í vandræðum með flugu vegna dúnalogns – að ekki sé talað um rokið sem kemur úr öllum áttum, einnig getur líka komið hellirigning og jafnvel snjóað þótt komið sé mitt sumar.
Á þessum árstíma er bjart langt fram eftir og því getur dagurinn verið langur í keyrslu. Þegar við fórum yfir Hagakvíslina og beygðum inn á Ódáðahraun og Gæsavatnaleið var klukkan orðin margt en veðrið var að spila með okkur svo það kom ekki að sök hversu seint við komum á næsta áfangastað, sem var Gæsavatna-skáli.“
Að morgni þriðja dags vöknum við í Gæsavatnaskála sem er fall-egur skáli og rúmar vel fimmtán ferðalanga með kojum sitt hvoru megin herbergis og svefnlofti.
Maður þarf að vera útsjónarsamur þar sem kalt vatn, rafmagn og aðrir veraldlegir hlutir eru af skornum skammti og hvorki net- né símasamband – þú ert algjörlega á eigin vegum þar.
„Eftir dvöl í Gæsavatnaskála var ekin Gæsavatnaleið ofan Vatnajökuls og þvílík náttúruundur sem verða á vegi manns, dökkgrátt landslag með oddmjóum fjöllum í nokkra tugi kílómetra,“ segir Beggi. „Síðan kemur Urðarhálsinn, ljósgrár og erfiður yfirferðar, en þar er ekið á tíu til tuttugu kílómetra hraða og margur ferðalangurinn gæti orðið pirraður á skjöktinu en síðan koma verðlaunin; sem eru sandarnir við Flæðurnar. Margir kílómetrar af leirsöndum á landsvæði sem tekur breytingum á hverjum degi. Flæðurnar geta verið stórvarasamar þar sem mikið vatn bleytir upp leirinn og geta ökutækin sokkið í dýið ef ekki er ekið ákveðið yfir. Þegar við fórum yfir Flæðurnar voru þær nánast þurrar, enda reyndum við að fara snemma yfir þær – en kannski of snemma.
Eftir Flæðurnar komum við að ljósbrúnum leir og vikri og þar var hægt að halda níutíu til hundrað kílómetra hraða og bæta upp Urðarhálsinn og okkur leiddist það ekki. Hugsanir manns fara á örskotsstundu úr; „hvernig datt okkur í hug að fara í þessa ferð?“ yfir í, „þetta er skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í.“
Eftir Flæðurnar komum við í Drekagil sem er dásamlega fallegur staður og skemmtileg gönguleið er að finna inn í gilið. Að sjálfsögðu kíktum við upp í Öskju en þá byrjaði að hellirigna og við ákváðum því að ganga ekki þessa tveggja kílómetra göngu í Öskju en vorum svo lánsöm að fá „lánaðar“ myndir (AirDrop) af Öskjuvatni hjá vinalegum bandarískum hjónum sem voru að koma úr göngunni, í svona ferðalagi snýst allt um að vera útsjónarsamur,“ segir Beggi íbygginn á svip.
Á síðustu dropunum
Framhjá Herðubreið og gegnum Ódáðahraunið var rigningin flúin en vegurinn liggur í miklum hlykkjum svo einhvern veginn var hópurinn alltaf að keyra aftur inn í regnskýin. Góður regngalli gerði það þó að verkum að ferðalangarnir fundu lítið fyrir bleytunni. Áfram var haldið og ekið yfir Jökulsárnar á Fjöllum og Brú og aftur fór eldsneytisdrægnikvíðinn að gera vart við sig því mörg tækjanna voru á síðustu dropunum og eldsneytisgufunum þegar hópurinn náði loks á bensínstöð við þjóðveginn í Möðrudalsöræfum.
Eftir kærkomið bensínstopp var mál málanna að koma sér norður Dettifossafleggjarann og yfir Öxnadalsheiðina til að ná á náttstað að Svalbarði. „Veðrið var orðið svo ótrúlega gott að við létum það eftir okkur að stoppa í Ásbyrgi og nutum veðurblíðunnar í smá tíma.
Að aka yfir Öxnadalsheiði á Melrakkasléttu á svo góðu sumarkvöldi er algjör draumur enda erum við komin svo norðarlega að sólin nánast sest ekki á þessum árstíma.
Ofan af Öxarfjarðarheiði sá maður þokuna liggja yfir Langanesinu eins og snjóhvítan jökul og þegar við vöknuðum að morgni í Svalbarði sást ekki neitt vegna svartaþoku sem kunnugir segja á þessu svæði að sé svona annan hvern dag eða oftar.“
Eftir smávægilegar viðgerðir og reimaskipti var lagt af stað út á Langanesið og skiptist á milli þoku og sólskin þessa fjörutíu, fimmtíu kílómetra leið. Komið var við í Þórshöfn og eldsneyti tekið áður en lagt var af stað í lokakaflann.
Stoltið leyndi sér ekki
Melrökkum þótti góð tilfinning að koma loksins á Font þótt þykk þokan byrgði sýn en þó glitti aðeins í hafflötinn á Langanestánni. Fegnir ferðalangar tóku myndir af afrekinu og stoltið leyndi sér ekki á mörgum sem voru að koma í fyrsta skipti en eknir voru 905 kílómetrar á þremur og hálfum degi.
Eftir ferðina út á Langanes var snætt saman á Þórshöfn og hópurinn fékk heldur betur vitundarvakningu þegar þjónninn benti á að eingöngu væru til sex nautasteikur, fjórir lambaborgarar og átta eftirréttir – við erum of góðu vön.
Eftir góða daga á Svalbarði hófst undirbúningur vegna heimferðar. Að morgni fimmta dags var lagt af stað frá Svalbarði þar sem gist var í tvær nætur. „Regngallarnir komu að góðum notum þar sem þétt rigning ferðaðist með okkur alla leið á Mývatn og niður Bárðardal, inn á Sprengisand og yfir á næsta náttstað sem var í Laugafelli sem er rétt suður af Eyjafjarðarleið, hæsta fjallvegar landsins sem liggur í 940 metra hæð yfir sjávarmáli.“
Í Laugafelli er heit laug, eins konar vin í eyðimörkinni mitt á Sprengisandi það sem nánast ekkert vex eða þrífst vegna ágangs svakalegra veðuröfga.
Í Laugafelli er ferðalangurinn yfirleitt tekinn úr þægindarammanum þar sem gistingin er þannig að allir eru saman á háalofti, í þröngu rými á dýnum með fæturna á móti hver öðrum. „Hér er keppnin um að fara fyrstur að sofa ef þú ætlar að sofna á undan hrotukórnum sem lætur ekki á sér standa. Þá koma eyrnatappar sér vel.“
Á sjötta degi var ekið suður Sprengisand og Hrunamannaafréttinn. Síðustu nóttina var aftur gist í Reykjaskógi og seinasti dagurinn heim var ansi tíðindalaus; „fyrir utan að við áttuðum okkur á að við værum algjörlega búin að aftengja okkur frá lífsins amstri og batteríin voru vel hlaðin. Þess má geta að við steingleymdum eldgosinu í Litla-Hrút, hugsuðum ekkert um fylgi stjórnmálaflokka eða stríðið í Úkraínu.“
Eknir voru samtals 1.730 kílómetrar um hálendið frá Reykjanestá til Langanestáar og allir ferðalangarnir fimmtán voru strax tilbúnir að fara aftur í langferð. Á þessum sjö dögum gæddu ferðalangarnir sér á góðum mat, hlógu mikið og nutu samverunnar og þeirrar yndislegu náttúru sem okkar fagra Ísland hefur upp á að bjóða.
Á næsta ári er áformað að fara frá Gerpi, sem er austasti tangi landsins, vestur á Látrabjarg, sem er vestasti tanginn, en meira um það síðar.