Eldri FS-ingur: Fékk góðan grunn fyrir kennaranámið í FS
Bryndís Jóna Magnúsdóttir
Hvenær varstu við nám í FS?
Bryndís Jóna Magnúsdóttir. Hóf nám í FS á félagsfræðibraut haustið 1997. Útskrifaðist eftir verkfall skömmu eftir áramótin 2001.
Hvað hefurðu verið að gera síðan þú útskrifaðist úr FS?
Fljótlega eftir útskrift flutti ég til Noregs eftir að hafa klárað lokaárið mitt í FS í fjarnámi á meðan ég bjó í Englandi. Í Noregi bjó ég í 3 ár en þaðan lá leiðin til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem ég bjó í 5 ár. Á þessum átta árum menntaði ég mig til grunnskólakennara í fjarnámi frá KHÍ, eignaðist börnin mín tvö, starfaði í leikskóla, vann sem forfallakennari, ritstýrði nokkrum tölublöðum Tímarits Víkurfrétta - TVF og skrifaði unglingabækur, svo eitthvað sé nefnt. Eftir að við fluttum heim fór ég að kenna í Heiðarskóla og þar hef ég verið síðan, fyrst í kennslu, svo deildarstjórn og er nú aðstoðarskólastjóri.
Ef þú hefur haldið áfram námi?
Hvernig fannst þér FS búa þig undir það nám sem þú fórst í? Í FS fékk ég góðan grunn fyrir kennaranámið, engin spurning. Það sem ég lærði í félagfræði hjá Tótu, sálfræði hjá Elísabetu og íslensku hjá Þorvaldi Sig og Guðbjörgu Aðalbergs nýttist mér sérstaklega vel í KHÍ.
Hvernig skóli er FS í þínum augum?
Fyrirtaks framhaldsskóli með fjölbreyttum námsleiðum og mæli ég með honum við hvern sem er. Kennararnir flottir en svo er þetta að svo miklu leyti undir þér sjálfum komið. Samviskusemi og metnaður til að standa sig vel er lykillinn að árangursríku framhaldsnámi og þá leið ættu allir að geta fetað í FS, hver á sínum forsendum. Má líka til með að nefna að samstarf okkar í Heiðarskóla við FS hefur verið farsælt. Góð tenging á milli skólastiga er mikilvæg fyrir nemendur okkar og því er afar heppilegt að hafa skólann innan seilingar og gott fólk innan veggja hans.
Viltu deila með okkur eftirminnilegum minningum úr gamla skólanum þínum?
Að heilsa upp á Gísla Torfa var alltaf ánægjulegt, blessuð sé minning hans. Hann var algjör sérfræðingur í því að létta lund og leysa vandamál. Mikill húmoristi og alltaf hress. Hann reyndist mér mjög vel þegar ég flutti 18 ára til Englands og kláraði námið í FS í fjarnámi. Að lesa Njálu í fyrsta skiptið í íslensku hjá Þorvaldi Sig var alveg geggjað og ég fílaði SAM áfangann í botn, þar var mikið hlegið. Svo voru böllin alveg hrikalega skemmtileg en skemmtilegast af öllu var að kynnast fjöldanum öllum af fólki, bæði nemendum og kennurum. Eftirminnilegast er þó vafalaust að hafa verið kölluð á fund til Ólafs skólameistara þar sem mér var tilkynnt að skólinn hyggðist bjóða mér að taka þátt í Global Young Leaders ráðstefnunni í Washington og New York fyrir hönd skólans, sumarið 1999. Ógleymanleg upplifun og ég er afar þakklát skólanum fyrir að hafa fengið það tækifæri. Verð líka að minnast á einstakt viðmót og frábæra þjónustu Inganna í mötuneytinu og bátinn þeirra sem var sjúklega góður!
Hver var eftirminnilegasti kennarinn?
Get ekki nefnt einhvern einn. Þorvaldur Sig var eins og hann hefði upplifað það sjálfur að vera uppi á þjóðveldistímanum og þekkt Gunnar á Hlíðarenda og Njál á Bergþórshvoli persónulega. Ég hafði alveg ótrúlega gaman af því, svo gaman að ég hef síðan sótt nokkur námskeið sem hann hefur haldið um valdar Íslendingasögur á Bókasafni Reykjanesbæjar. Ónefndur sögukennari átti það til að sofna yfir fyrirlestrum okkar krakkanna en hann hefði þurft að skella sér í félagsfræðitíma til Tótu. Hjá henni var ekki hægt að láta sér leiðast. Það var eitthvað við hina stóísku ró Kristjáns stærðfræðikennara (nú skólameistara) og Elísabet sýndi mér inn í undraheima sálfræðinnar. Eru þá aðeins örfáir af mörgum góðum nefndir.
Uppáhalds náttúruperla á Suðurnesjum?
Sandvík. Falleg strönd og sandhólarnir miklir ævintýraheimar. Á margar góðar minningar þaðan. Svo stendur Garðskagi líka alltaf fyrir sínu, ekki síst á sólríkum sumarkvöldum.