Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þriðjudagur 24. desember 2002 kl. 09:33

Elding kveikti í sumarbústað rafveitustjórans

Þann 14. mars árið 1974 fóru Jóhann Líndal Jóhannsson fyrrverandi rafveitustjóri í Njarðvík og kona hans Elsa Dóra Gestsdóttir út í Staðarhverfi, rétt utan við Grindavík að tala við séra Gísla Brynjólfsson um möguleika á því að fá lóð undir lítinn sumarbústað sem þau hugðust reisa í landi Staða. Séra Gísli var þar staðarhaldari. Hann fór með þau víða um landið og fundu þau stað þar sem sumarbústaður þeirra hjóna stendur í dag. Jóhann Líndal var rafveitustjóri í Njarðvík frá árinu 1965 til ársins 1985 og Elsa Dóra hefur starfað um árabil hjá Póstinum í Keflavík. Víkurfréttir litu við í heimsókn til þeirra hjóna í Staðarhverfið á dögunum og skoðuðu fallegan sumarbústað þeirra hjóna: „Við búum í raun á þremur stöðum. Við erum mikið hér á sumrin, síðan eigum við hús í Njarðvík og loks eigum við með öðrum fjölskyldum hús á Spáni en þangað förum við á veturna,“ segir Elsa Dóra.

Þar sem sumarbústaður þeirra hjóna stendur í dag stóð eitt sinn skipsbrú sem Jóhann keypti árið 1974: „18. júní árið 1974 var báturinn Sigurður Sveinsson í Njarðvíkurslipp, en Sigurður var 100 tonna stálbátur. Báturinn sem var frá árinu 1946 hét fyrst Haukur, síðan Kópur, því næst Ólafía og síðast bar hann nafnið Sigurður Sveinsson. Ég hafði frétt að það ætti að sökkva bátnum svo ég hafði samband við eiganda hans, Jón Oddsson og óskaði eftir því að fá brúna af bátnum keypta. Hann samþykkti að selja mér hana og ég borgaði brotajárnsverð fyrir brúna, en skilyrðið var að ég þyrfti að losa brúna á fjórum dögum. Ég fékk lánuð logsuðutæki og mér tóks að losa hana á umsömdum tíma. Ég skrapaði hana og grunnaði í Njarðvík og þann 15. júlí árið 1974 flutti Geirfinnur Einarsson Brúna fyrir okkur inn í Staðarhverfi. Við sandblésum og máluðum Brúna þegar hún var komin þangað og fyrstu nóttinni okkar eyddum við í bústaðnum þann 3. ágúst 1974,“ segir Jóhann.

Sumarbústaðurinn brann
Þessi nýstárlegi sumarbústaður þeirra hjóna vakti að vonum mikla athygli og var gestagangur tíður. Þann 6. júlí árið 1976 var leiðindaveður þannig að Jóhann og Elsa ákváðu að fara heim: „Það var eins gott að við gerðum það því um nóttina sló eldingu niður í brúna og hún gjöreyðilagðist í eldi. Þar brann allt nema íslenski fáninn og kíkir sem voru í lokaðri skúffu í bestykkinu í brúnni,“ segir Jóhann.
Stuttu eftir brunann ákváðu þau hjón að byggja nýjan bústað á lóðinni: „Við vildum náttúrulega búa hér áfram og það var ekkert annað í stöðunni en að byggja nýjan bústað,“ segir Elsa Dóra og bætir því við að fyrir stuttu hafi þau keypt bústað sem Tómas Þorvaldsson úr Grindavík hafi átt og nú sé hann notaður sem gestahús hjá þeim.

Fékk háspennuna ómælda
Jóhann Líndal Jóhannsson er 72 ára gamall, fæddur og uppalinn í Bolungarvík. Hann lærði rafvirkjun í Reykjavík og í Svíþjóð. Í Bolungarvík gengdi Jóhann stöðu rafveitustjóra en fluttist til Njarðvíkur vegna atvinnutilboðs sem hann fékk: „1965 var mér boðin staða rafveitustjóra hér í Njarðvík og þeirri stöðu gengdi ég til ársins 1985, en það ár voru rafveiturnar sameinaðar hitaveitu Suðurnesja. Í kjölfarið gerðist ég starfsmaður þar og starfaði sem rekstrarstjóri háspennudeildarinnar og starfaði hjá Hitaveitunni til ársins 1996 en þá var ég 66 ára gamall og hafði unnið við rafmagn í 50 ár. Ég var löngu búinn að ákveða það að hætta á þessum tímapunkti og er ég mjög sáttur við það. Ég hef verið afskaplega heppinn með samstarfsfólk og sem betur fer hafa ekki alvarleg slys borið að höndum á þessum langa starfsaldri mínum,“ segir Jóhann en bætir að vinir hans hafi sagt að loksins hafi hann fengið það óþvegið þegar eldingunni laust niður í bústaðinn því hann hafi fengið háspennuna ómælda.

Alltaf á sjó
Jóhann situr ekki auðum höndum þegar hann er í bústaðnum. Við sumarbústaðinn stendur bátaskýli og þar geymir Jóhann bát sem hann notar til að fara á sjóinn, en hann þurrkar fisk á bryggjunni og stundum hefur hann reykt fisk við bústaðinn. Elsa Dóra segir að hann sé nánast alltaf á sjó: „Hann er voðalega duglegur að fara á bátnum og hann er fiskinn kallinn,“ segir Elsa og hlær en Jóhann bætir því við að Elsa sé ekkert skárri og bendir á garð sem Elsa hefur ræktað: „Það var búið segja við Elsu að hún fengi bjartsýnisverðlaunin fyrir það að reyna að koma garðinum í stand en það þurfti að rífa hér upp heilu klappirnar og enginn hafði trú á því að hér gæti vaxið einhver gróður. En annað hefur nú komið í ljós,“ segir Jóhann og bendir stoltur á garðinn sem er glæsilegur.

Sumarbústaður þeirra hjóna er rétt við golfvöllinn í Grindavík og þegar þau eru spurð að því hvort þau séu ekki í golfinu svarar Elsa: „#Hann má ekkert vera að því, hann er alltaf úti á sjó,“ segir hún brosandi en Jóhann er fljótur að svara um hæl: „Við erum nú heiðursgestir í golfklúbbnum og höfum meðal annars látið þá hafa smá land hérna við bústaðinn. En mér er sagt að við séum aðeins heiðursfélagar því við spilum ekki golf,“ segir Jóhann og segir að golfararnir komi nú oft og heilsi upp á þau hjón í bústaðnum.

Nudd í rafmagnsgeiranum
Jóhann er þekktur fyrir það að segja skemmtilega frá og það eru margar sögurnar sem hann segir á góðum stundum. Eftir 50 ára starf í rafmagnsgeiranum eru sögurnar margar: „Rafmagnsbransinn byggist upp á þjónustu eins og fólk veit og ég var með símanúmer einu sinni sem var næsta númer við nuddstofu í Keflavík og það hringdi eitt sinn í mig kona og spurði mig hvort hún gæti fengið nudd. Ég svaraði henni og sagði að við værum bara með rafmagnsnudd. Já er þetta díathermískt nudd spyr hún. Nei segi ég við hana, við erum bara að nudda í fólki sem borgar ekki rafmagnið sitt segi ég. Aumingja konan vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið,“ segir Jóhann og hlær.

Eyða vetrunum á Spáni
Eins og áður kemur fram eiga þau sumarhús á Spáni og segir Elsa að þar sé frábært að vera. Þau fara út þann 6. janúar nk. og verða á Spáni fram yfir páska. Jóhann segir að þau eigi húsið með öðrum fjölskyldum: „Þetta kom þannig til að ég var hluthafi í rafmagnsverktökum Keflavíkur og verktakarnir áttu tvö hús á Spáni. Þegar fyrirtækin á vellinum voru sameinuð undir heitinu Keflavíkurverktakar voru hluthafarnir 20 en það voru 5 fjölskyldur sem vildu kaupa og við vorum í þeim hópi þannig að það eru 5 fjölskyldur sem eiga þessi tvö hús. Við kunnum alveg gríðarlega vel við okkur þarna úti og strax í febrúar er hitinn kominn í um 20 stig. Við erum mest þarna á veturna en hinar fjölskyldurnar sem eru barnafjölskyldur fara þarna á sumrin. Við tökum virkan þátt í félagsstarfi Norðurlandafélagsins sem þarna er starfrækt,“ segir Jóhann og það er greinilegt að hugurinn er kominn hálfa leið til Spánar.

Þegar fólk sem lokið hefur lífsstarfinu taka við ýmis áhugamál og þeirra helsta áhugamál er að vera í bústaðnum og dytta að honum. En þau segja að stórfjölskyldan sé náttúrulega þeirra aðal áhugamál: „Við eigum 5 börn og 19 barnabörn og það er okkar helsti fjársjóður,“ segir Elsa og Jóhann bætir við: „Ég segi nú eins og Árni Tryggvason þegar hann var spurður að því í útvarpinu um daginn hvort hann færi að veiða í soðið. Fréttamaðurinn spurði hann hvort hann veiddi bara fyrir fjölskylduna og Árni svaraði: „Já, þetta er nú mjög stór fjölskylda, þú verður að athuga það.“ Og ég segi það sama, fjölskyldan er stór og það þarf töluvert að fiska ofan í hana,“ segir Jóhann og brosir.

50 ár í rafmagninu
Jóhann hefur starfað í rafmagni í 50 ár og hér áður fyrr þótti það mjög merkilegt ef einstaklingur var búinn að vera í 50 ár á sjó. Jóhann segir að hann hafi valið sér gott lífsstarf: „Eins og ég sagði áðan hef ég verið einstaklega heppinn með samstarfsfólk og til allrar hamingju hef ég átt slysalausan feril. Ég vann mikið úti á landi þegar ég var ungur og meðal annars var ég mikið í háspennulínuviðgerðum víða um landið. Ég hef kunnað rosalega vel við mig hvar sem ég hef verið, en á Suðurnesjum hefur verið afskaplega gott að vera.“

Elsa Dóra sá um uppeldi barnanna og þegar þau bjuggu í Bolungarvík sá hún um að gefa rafmagnsveitukörlum að borða: „Ég opnaði heimilið og bjó þar til mötuneyti og gaf kallagreyjunum að borða. Þegar við fluttum svo til Njarðvíkur fór ég að vinna hjá Pósti og Síma og þar starfaði ég í 20 ár við að bera út póst. Ég þekkti göturnar í Njarðvík vel og það var mjög góð hreyfing að fara í göngutúra á morgnana með póstinn til fólksins.“

Fluga í nærbuxunum
Eins og fram kemur eignuðust þau 5 börn og eru þau öll búsett á Suðurnesjum með sínar fjölskyldur, fjórar búa í Keflavík og ein í Garðinum. Jóhann segir að börnin séu dugleg að koma í bústaðinn til þeirra, en hann segir að yngsta stelpan þeirra sé ekki ennþá búin að ná sér eftir atvik sem þar gerðist: „Það var þannig að hana vantaði að pissa og þar sem við vorum ekki komin með klósett á þeim tíma sagði ég henni að fara niður í fjöru að pissa sem hún gerði. Þegar við komum svo heim fann hún dauða flugu í nærbuxunum hjá sér og þar með var hennar spenningur fyrir sumarbústaðaferðum farin fyrir bí, en hún hefur nú komið hingað eftir þetta og í dag er hún nú búin að jafna sig á þessu,“ segir Jóhann.

Hálfur kertapakki í jólagjöf
Nú þegar jólin nálgast er tilvalið að spyrja þau aðeins út í það hvernig fyrstu jólin hafi verið sem þau muna eftir sem börn. Jóhann segir að jólin í Bolungarvík hafi verið með töluvert öðrum hætti en þau eru í dag: „Það var nú lítið um þægindi í Bolungarvík um jólin því það þurfti að bera alla ösku út, en við vorum með kolaeldavél og salernið var útikamar. Það var eitt rafljós í húsinu, en það var í eldhúsinu. Manni fannst jólin óskaplega hátíðleg og það var vegna þess að það var svo mikil kertalýsing, enda eru þau hátíð ljóss og friðar. Maturinn sem var á borðum um jólin var nú ekki ósvipaður því sem hann er í dag, en hjá okkur voru svið og hangikjöt á aðfangadag. Á Þorláksmessu var Vestfirsk vel kæst skata borðuð. Það var alltaf farið í messu á aðfangadagskvöld klukkan 6. Mig minnir að það hafi verið þannig að þegar við komum heim eftir messu þá fengum við súkkulaði og kökur. Gjafirnar voru litlar en það var mikil fátækt heima því móðir mín varð ekkja 26 ára gömul með sex börn á framfæri og ég var yngstur. Fátæktin var svo mikil á árunum milli 1930 og 1940 að ég man einu sinni eftir því að það var ekki hægt að gefa okkur einn kertapakka hvorum. Við fengum hálfan kertapakka hvor, en spil var ekki nokkur leið að fá á þeim tíma. Maður gladdist voðalega yfir því að fá jólapakkann, jafnvel þó hann væri lítill. Þó að fátæktin hafi verið mikil heima þá var alltaf hreint hjá okkur,“ segir Jóhann og í augum margra er raunveruleikinn eins og Jóhann lýsir honum óraunverulegur. Eitt sinn voru þau hjónin í matarboði hjá Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands og Jóhann sagði við hana að hann væri 20 árum eldri en Elsa þegar á aðstæðurnar í æsku þeirra er litið.

Frábrugðin jól
Þegar Elsa segir frá sínum æskujólum hefur hún frábrugðna sögu að segja. Elsa er alin upp að Grundarstíg 15b sem var bakhús Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara, en hún á tvo bræður: „Á jólum hjá okkur var í raun nóg til af öllu og ég man ekki eftir neinni fátækt eða slíku. Faðir minn vann hjá Reykjavíkurbæ og hann og móðir mín voru í aukavinnu í Þórskaffi á kvöldin og um helgar. Á Þorláksmessu var alltaf söltuð skata á borðum, en við vorum ekki með þessa kæstu. Á aðfangadag var síðan hangikjöt og svið í matinn og jafnvel læri eða hryggur. Jólin hjá mér voru mjög frábrugðin þeim sem Jóhann lýsir og að þessu leiti er margt til í því að hann sé 20 árum eldri en ég, þó svo að í raun séu þau ekki nema 6. Ég fékk góðar jólagjafir og man ekki eftir því að hafa nokkurn tíma fengið kerti og spil í jólagjöf. Það var svo ólíkt að alast upp í Reykjavík eða úti á landi,“ segir Elsa.

Jólin dásamlegur tími
Það er greinilegt að þau hjón hafa nóg fyrir stafni og dagskráin er fullskipuð hjá þeim. Þau eru bæði líkamlega hraust og kenna sér varla meins: „Við erum bæði hraust og það er gríðarlega mikilvægt. Við erum mjög hamingjusöm og höfum alltaf verið, en auðvitað hafa komið upp erfið tímabil. Börnin okkar og fjölskyldur þeirra eru það dýrmætasta sem við eigum og við teljum okkur vera einstaklega heppin. Við ætlum að halda áfram að sinna okkar áhugamálum og okkur er strax farið að hlakka til að fara til Spánar í byrjun janúar. Núna erum við að undirbúa jólin sem eru dásamlegur tími,“ segja þau að lokum og í veganesti fær blaðamaður þurrkað strengsli sem Jóhann þurrkaði sjálfur á bryggjunni. Þvílíkt lostæti.

Gamansögur úr munni Jóhanns Líndals

Tveir ungir golfarar
Ég var einu sinni á bílnum við golfskálann á leið til Grindavíkur og þar stoppuðu mig tveir ungir strákar sem var mikið niðri fyrir, en þeir hafa verið um fermingu. Ég spurði hvað hafi skeð hjá þeim. Þá segir annar strákurinn og benti á hinn: „Hann skaut golfkúlu í löpp á kellingu og hún brjálaðist.“ Ég leit í spegilinn og sá að þar var hölt kona að ganga upp í húsið. Ég spyr strákana: „Er ekki vont að fá svona kúlu í sig?“ Þeir svara: „Jú það er voðalega vont að fá hana svona alveg í legginn.“ Og ég spyr aftur: „Var þetta gömul kona?“ Og þeir svara að bragði: „Já hún var andskoti gömul, að minnsta kosti 40 ára.“ „Ég hafði gaman af því að segja tengdadætrum okkar þetta því þær voru um fertugt,“ segir Jóhann og hlær innilega.


Japanska lagið
„Ég var einn af stofnendum Junior Chamber í Keflavík og við fórum á heimsþing samtakanna í Dublin árið 1971. Junior Chambers á Suðurnesjum átti að syngja eitt lag frá hverri heimsálfu á hátíðinni. Ég tók að mér að skipuleggja sönginn og við fundum lög frá öllum heimsálfum nema Asíu. Ég fór til Jóns Múla Árnasonar útvarpsmanns og bað hann að hjálpa mér að finna lag frá Asíu og hann sagðist vera með mjög gott lag sem hét Súkíaki, en hann gaf mér spólu með laginu. Þegar ég fór svo að reyna að láta félaga mína syngja lagið þá sögðu þeir að þeir myndu aldrei reyna að læra þennan texta. Ég sagði við þá að ég myndi þá bara syngja lagið einn og þeir klöppuðu fyrir því, en ég hálfpartinn missti þetta út úr mér. Ég fór að reyna að syngja lagið og það verður að segjast eins og er að það gekk á ýmsu því textarnir voru nú ekkert auðveldir í framburði. Ég brá því á það ráð að fara til konu sem er frá Japönsku eyjunni Okinava til að læra framburðinn svo ég myndi nú gera þetta almennilega. Hún tók mig í nokkra tíma og ég lærði þessa þrjá texta, en hún varð ekki ánægð fyrr en ég hafði náð hreymnum. Þegar við komum til Írlands var okkur boðið í heimapartý hjá félögum JC þar í landi og það voru yfirleitt tvenn hjón í partýinu frá hverju landi, þar á meðal voru þrír japanir, en einn þeirra var landsforseti JC í Japan. Þegar að við vorum allir búnir að syngja okkar lög, þar á meðal „Á sprengisandi“ þá kom í ljós að Japanarnir sögðust ekki geta sungið neitt. Þá sagði ég það vera lágmkars skyldu okkar að syngja eitt Japanskt lag. Og þegar ég byrjaði að syngja Súkíakí þá lyftust Japanarnir upp og brostu, en þeir kunnu bara tvö erindi. Ólafur Stephensen hafði sótt um sem varaforseti Heimssambands JC og var honum ekki spáð nema nokkrum atkvæðum, en Japanarnir voru eitt hundrað talsins. Á fundi sem landsforseti þeirra hélt fyrir kosningarnar sagði hann að þeim hefði verið sýnd það mikil virðing þegar íslendingur söng japanskt lag í samkvæmi sem þeim var boðið í, að hann myndi óska eftir því að japanarnir gæfu íslendingnum sitt atkvæði. Ólafur var kosinn með miklum yfirburðum og sat í heimsstjórninni í tvö ár. Það má því segja að ég hafi sungið Ólaf inn í heimssambandið.“


Við rákum hvern annan
„Ég hafði hugsað mér að komast að til að læra rafvirkjun í Reykjavík, nýkominn vestan úr Bolungarvík 16 ára gamall. Ég hafði von til þess að komast að hjá ákveðnum rafvirkjameistara í miðbænum. Ég hóf störf þar þegar ég kom til Reykjavíkur og vann eins og þjarkur við að smíða hólka úr járni sem notaðir voru til að setja saman rafmangsrör, en við þetta vann ég á þriggja mánaða reynslutíma. Eftir þessa þrjá mánuði sagði meistarinn við mig að ég væri ónothæfur og ég var rekinn. Ég komst að hjá Johan Rönning, en þar voru þá fjórir af tíu strákum sem hófu störf hjá þessum meistara en þeir voru allir reknir eftir þrjá mánuði. Svo liðu árin. Þegar ég kom hingað sem rafveitustjóri í Njarðvík höfðu rafverktakar í Reykjavík sett á staðarlöggildingu sem varð til þess að engir rafverktakar utan Reykjavíkur máttu vinna þar. Samskonar staðarlöggilding var sett á laggirnar hér og máttu einungis rafverktakar af Suðurnesjum vinna hér á svæðinu. Kristinn heitinn Björnsson kom eitt sinn til mín og sagði mér að rafverktaki úr Reykjavík væri að vinna í Beinamjölsverksmiðjunni í Innri-Njarðvík í stóru verki við annan mann. Kristinn sagði mér að ég hefði heimild til að vísa honum af svæðinu sökum staðarlöggildingarinnar. Þegar ég kom inn í Innri-Njarðvík og hitti rafverktakann þá horfðumst við í augu og þekktumst. Þetta var sami maður og rak mig frá námi 20 árum fyrr. Ég bað hann að taka pokann sinn og það gerði hann.“


Sannir Vestfirðingar
Mig langar að segja smá sögu af Sverri Hermannssyni en hann sagði í útvarpsviðtali eitt sinn að skatan þyrfti að vera það kæst að lyktin væri í húsinu fram að áramótum. Fréttamaðurinn spurði þá Sverri um ummæli Einars Odds þingmanns sem sagði að skatan væri eins og úldið tros. Sverrir svaraði að bragði: „Það er sem ég segi. Þeir þynnast fljótt út Vestfirðingarnir þegar þeir eru komnir suður fyrir Breiðadalsheiði.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024