Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eldgosið kemur Reykjanesinu á ferðamannakortið
Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness.
Laugardagur 19. júní 2021 kl. 08:47

Eldgosið kemur Reykjanesinu á ferðamannakortið

– segir Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness.

Eldgosið í Geldingadölum hefur þegar haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Reykjanesi að sögn Þuríðar H. Aradóttur Braun, forstöðumanns Markaðsstofu Reykjaness. Meiri áhugi er fyrir Reykjanesinu og töluvert um fyrirspurnir frá fólki sem vill gera meira úr deginum en eingöngu að skoða eldgosið. Ljóst er að eldgosið hefur hjálpað til við alla markaðskynningu Reykjanessins sem áfangastaðar ferðaþjónustu. Þuríður vill að Reykjanesið verði hluti af ferðaáætlun ferðamanna sem eru að koma til Íslands og verði fyrsti viðkomustaður þeirra.

Ný heimasíða markaðstofu Reykjaness

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markaðsstofan er þessa dagana að vinna að nýrri heimasíðu www.visitreykjanes.is en heimasíðan er vettvangur til að halda utan um allt sem er í boði á Reykjanesi sem snýr að menningu og ferðamálum. „Markaðsstofan fær viðbótarstarfsfólk inn í sumar sem kemur til með að vinna frekar að efnisöflun, margmiðlunarvinnu og ljósmyndun. Fókusinn núna er á efnisvinnslu sem síðan getur nýst svæðinu í heild sinni og þeim ferðaþjónustuaðilum sem starfa þar til að koma sinni vöru og þjónustu á framfæri,“ segir Þuríður.

Sérstaða Reykjanessins felst í flekaskilunum

Sérstaða Reykjanessins er einstök á heimsvísu. Mið-Atlantshafshryggurinn gengur á land yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs.

Hvergi í heiminum má sjá flekaskilin ganga á land með jafn áþreyfanlegum hætti og land mótast út frá þeim og á Reykjanesinu. Birtingarmyndin sést í brúnni milli heimsálfanna. Í Reykjanes jarðvangi er að finna merkilegar jarð- og náttúruminjar, sumar einstakar á heimsvísu. Reykjanesið er í dag Geopark og hluti af verndaráætlun Unesco eða Unesco Global Geopark.

Sóknarfæri í eldgosinu

Það er margt gott í boði í ferðaþjónustu á Reykjanesinu að mati Þuríðar en einnig mörg tækifæri til að gera betur, m.a. annars í auknu samstarfi í að kynna Reykjanesið og bæta við flóru afþreyingar. „Eldgosið setti okkur í fyrsta sæti og brennidepil sem mikilvægt er að nýta til frekari uppbyggingar ferðaþjónustu. Verið er að vinna að opnun gestastofu í Duus húsum og einnig gestastofu í menningarhúsi Grindavíkur, Kvikunni, um eldgosið.“

Þuríður er bjartsýn á sumarið og árið í heild sinni með þróun og fjölgun gesta á svæðinu. „Eldgosið hefur fært okkur framar í röðina og nú er það okkar að nýta þetta tækifæri.“

GOSTÆKIFÆRI

- Nýir eldgosa fótboltabúningar

- Nýtt hótel með eldgosanafni

- Gott menningarhaust í Grindavík

- Eldgosið hefur hjálpað til við markaðskynningu á Reykjanesinu

- Ný heimasíða www.visitreykjanes.is

- Unnið að opnun gestastofu

Texti: Jón Hilmarsson