Eldgos, útivist og bremsuleysi
„Ógleymanleg gönguferð að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi kemur fyrst upp í hugann þegar ég rifja upp það sem eftirminnilegast var á árinu. Þar var ég í góðum hópi göngugarpa sem lögðu á sig 36 km fjallgöngu í nærri 30 stiga frosti til að berja gosið augum en gangan tók alls 12 tíma. Það var ólýsanlegt að standa frammi fyrir þessum náttúruöflum, ekki síst vegna þess að ég var þá um veturinn að læra helling um jarðfræði í leiðsögunámi hjá Ferðamálaskóla Íslands. Nokkru seinna stóð ég svo innst í Fljótshlíðinni og fylgdist með gosinu í Eyjafjallajökli,“ segir Ellert Grétarsson, blaðamaður og ljósmyndari okkar á VF til fimm ára þegar hann rifjar upp árið.
„Annað sem stendur upp úr er fjögurra daga gönguferð sem ég fór í ásamt göngufélaga mínum í Lónsöræfi í sumar. Ferðin var mikil upplifun enda er þetta svæði algjörlega kynngimagnað. Þá eru einnig eftirminnilegar göngur og ísklifur á Svínafellsjökli og Sólheimajökli. Einnig ljósmyndasýningin mín á Ljósanótt sem fékk frábærar viðtökur, afastrákur sem fæddist rétt fyrir jól, svo nokkuð sé nefnt af annars viðburðaríku ári sem fól í sér ákveðin tímamót í mínu lífi“.
Hvernig voru árin á Víkurfréttum?
„Ef ég nefni það helsta sem kemur upp í hugann í blaðamannsstarfinu á VF þá er það kannski helst strand og björgun Wilson Muuga. Maður eyddi þó nokkrum dögunum þar útfrá. Þá var brotthvarf Varnarliðsins mikill tímamótaviðburður. Einnig er mér sérstaklega minnistæð rútuferð á bremuslausri rútu niður snarbratta Fljótdalsheiðina veturinn 2007. Rútan var full af iðnaðarmönnum frá Suðurnesjum sem farið höfðu austur að skoða framkvæmdirnar við Kárahnjúka. Bílstjórinn var óreyndur og fór á alltof mikilli ferð niður fyrstu brekkuna. Það söng og hvein í öllu þegar hann reyndi að reka bílinn í gírana og við fórum á tveimur hjólum í U-beygjurnar alla leið niður. Bílstjórinn steig á bremsurnar allan tímann og gjörsamlega kveikti í þeim svo það hvarf allt á kaf í reyk. Eftir þessa lífsreynslu hræðist ég ekki neitt!“