Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eldey hjálpar til í tónlistinni
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
mánudaginn 17. júní 2019 kl. 07:37

Eldey hjálpar til í tónlistinni

Gísli Kjaran Kristjánsson er tónlistarmaður, búsettur í Höfnum á Reykjanesi. Þar býr hann ásamt konu sinni, Elízu Newman, og dóttur þeirra en þangað fluttu þau í kyrrðina eftir að hafa unnið við tónlist víðs vegar um heiminn. Gísli flutti frá Los Angeles til London þar sem hann sneri sér að upptökustjórnun og lagasmíðum fyrir aðra en gaf þó út eitt og eitt lag sem naut velgengni í íslensku útvarpi.
Gísli gaf nýverið út plötuna The Skeleton Crew sem er fyrsta platan hans í fimmtán ár. Hann segir það skapandi að semja tónlist í Höfnum og bauð Víkurfréttum heim til sín í stúdíóið.

Af hverju ákvaðst þú að gefa út plötu núna?
Þörfin kom bara einhvern veginn til baka. Ég er búinn að gefa út eitt og eitt lag hér og þar og finnst það voða gaman. Það kítlar egóið smá að fara með lag í útvarpið og heyra það leikið þar. Það hefur hingað til bara verið nóg. Núna hefur það eitthvað breyst, ég veit ekki af hverju og nú langar mig að gefa út meira.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hefur þú verið lengi í tónlist?
„Ég hef alltaf verið í tónlist, alveg frá því ég var pínulítill. Ég var trommari og í lúðrasveit en svo leiddi bara eitt af öðru. Maður byrjar að semja lög og svo tekur maður þau upp af því það er enginn annar til að gera það og þá þarf maður bara að læra það, lærir að spila á ný hljóðfæri fyrir lögin sín og þannig vindur þetta upp á sig. Þegar maður er með einhverja hugmynd að lagi, einhverri stemningu, þá er lang auðveldast að ná því sjálfur í stað þess að sitja lengi og útskýra það fyrir einhverjum öðrum hvernig ég vil að það sé. Ég hringi stundum í vini mína og fæ þá til að spila á hljóðfæri og þá breytist fílingurinn. Þeir koma bara með sitt eigið og ég á stundum smá erfitt með það.“

Hvernig er ferlið frá því að þú kemur með hugmynd að lagi og yfir í það að þú gefur það út?
„Það getur gerst rosalega hratt ef maður er heppinn. En elsta lagið á nýju plötunni er alveg tveggja, þriggja ára gamalt. Þá hafði ég tekið upp bassa, trommur, gítar og söng en fannst það alveg hræðilegt þá og setti það bara ofan í skúffu. Svo núna um daginn opnaði ég lagið og fannst það ekkert svo slæmt, það vantaði bara aðeins upp á það. Það þurfti kannski bara aðeins að hækka í bassanum eða eitthvað svoleiðis. Oft er það svo lítið sem þarf til.“

Og þú ert búinn að semja um allan heim?
„Ég gerði eina plötu í Los Angeles sem átti að vera önnur sóló-platan mín en hún hefur aldrei komið út. Svo fór ég út í það að taka upp fyrir aðra og vinna með öðrum. Þá hef ég gert plötur í Noregi, London, Minneapolis og Trinidad í Karabíska hafinu, á fáránlegustu stöðum. Það er mjög skemmtilegt.“

Hvort er skemmtilegra að taka upp fyrir aðra eða að gefa út eigin tónlist?
„Það er skemmtilegast að gera það til skiptis. Að grafa svona mikið í eigin haus til að semja eigin tónlist er bara óhollt held ég. Það var líka hluti ástæðunnar fyrir því að ég stoppaði svona lengi. Ég samdi og gerði tvær plötur og túraði ógeðslega mikið um Evrópu. Að syngja lög allan daginn um sjálfan sig og fara í viðtöl að tala um sjálfan sig er ekkert rosalega sniðugt. Ég þurfti bara að setja fókusinn á eitthvað annað.“

Ert þú sjálflærður í tónlistinni?
„Já en maður lærir þetta í rauninni aldrei alveg. Það er eitt af því sem er svo gaman við þetta, maður er aldrei búinn að læra þetta. Það er engin endastöð í þessu og alltaf hægt að verða betri. Það er eitthvað við það sem er svo heillandi. Þróunin stoppar aldrei.“

Nýja platan þín, hvernig tónlist er á henni?
„Þetta er kallað eitthvað svona „indie-rock“, „indie-pop“. Ég spila á flest hljóðfærin á plötunni. Elíza, konan mín, spilar á fiðlur og syngur bakraddir. Dóttir okkar sem er fimm ára hefur tekið sig til og spilar slatta líka. Hún spilar næst mest á plötuna á eftir mér. Henni finnst það ekkert merkilegt.“

Hvers vegna fluttuð þið til Hafna?
„Við fluttum fyrst frá London í miðbæ Reykjavíkur. Þar fengum við allan hávaðann og lætin sem voru í London en það var samt sem áður ekki jafn spennandi og London þannig, þá ákváðum við að flytja bara eitthvað langt út í sveit.”

Hlustar þú mikið á íslenska tónlist?
„Já, alveg helling. Mér finnst hún frábær. Það er gaman að sjá hvað þetta er allt að verða betra betra og gæðin að verða meiri. Mér fannst þetta vera meiri klikkun áður fyrr. Þá var fullt af klikkuðum hljómsveitum sem voru bara að gera einhverja steypu. Núna er þetta orðið aðeins meira „mainstream“. Það er mikið um góðar söngkonur og góða rappara. Svo er fullt af flottum hljómsveitum hér. Það er gaman að sjá hlutina þróast.”

Er ekki mikill munur að semja tónlist í Höfnum, miðað við Los Angeles og London til dæmis?
„Jú, það er rosa mikill munur. En upp á það að vera skapandi er fátt betra en að sitja hér og horfa út á Eldey á meðan maður er að semja lag. Í stórborgum er oft margt sem truflar mann.“

Viðtal: Sólborg Guðbrands