Eldborg var eftirminnileg í meira lagi
Verslunarmannahelgi Suðurnesjamanna
Sigurrós Antonsdóttir er hárgreiðslumeistari úr Njarðvík sem mun eyða tíma með fjölskyldunni á milli vakta í flugstöðinni.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Í þetta skipti ætla ég að vera heima og vinna. Ég bætti við mig aukavinnu í sumar á kvöldin í versluninni Epal uppi í flugstöð og verð þar á vakt á milli þess að vera með fjölskyldu minni.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það að vera með fjölskyldunni er best. Undafarin ár höfum við verið í sumarbústað fjölskyldunnar í Vaðnesi í Grímsnesi á lítilli útihátíð með brennu og fleira. Það er notaleg tilfinning að vera með börnunum og nánustu í kósý í náttfötum og með hlýja sæng á kvöldin.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Eyjar ‘96 var skemmtileg upplifun fyrir mig sem ungling. Brjálað veður og fjölskyldutjaldið hjá mömmu og pabba fokið upp í hlíð. Kom heim með 2 súlur og 3 tjaldhæla. En við vinkonurnar heilar á húfi. Allt blautt sem gat blotnað. Þarna þurfti maður að hlaupa í tíkallasíma til að láta vita af sér. Síðan er það hin eina sanna Eldborgarhátíð sem haldin var árið 2001. Hún var eftirminnileg í meira lagi. Mjög umdeild hátíð. Það var mikill spenningur að sjá Jet Black Joe koma saman aftur eftir nokkurra ára hlé. Svo er alltaf gaman að fara til Ísafjarðar og fylgjast með Mýrarboltanum. Tek ofan fyrir þeim sem vilja vísvítandi vaða í drullu frá tásum og upp að hári. Seinni ár hef ég reyndar verið meira til í útilegur allar aðrar helgar en þessa því þá er ögn rólegra og notalegra á tjaldsvæðum landsins.