El Diablo frá Kýpur er heilalímið þessa dagana
– segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Hún las nýlega magnaða bók en er sífellt að lesa kjarasamninga.
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, er ein þeirra sem er að glíma við eftirköst veirunnar sem hún fékk á síðasta ári. Hún ætlar bara að ferðast innanlands í sumar og skella sér í nokkrar göngur og hjóla á fullu.
– Hvað er efst í huga eftir veturinn?
„Ástandið á vinnumarkaðinum og endalaus bakslög vegna Covid.“
– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?
„Vegna Covid hafa samverustundir verið miklar hjá okkur fjölskyldunni sem er mjög gott. Eins sú ákvörðun sem við tókum upp á því að flytja eftir sautján ára búsetu i Vogum.“
– Hversu leið ertu orðin á Covid?
„Alveg endalaust leið. Er sjálf að kljást við eftirköst sjúkdómsins og ég eins og flestir landsmenn orðin leið á sífelldum höftum. Ég hlýði þó reglum algjörlega.“
– Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d.? Ætlarðu til útlanda?
„Í sumar ætla ég að ferðast innanlands. Ætla að skella mér í nokkrar göngur og hjóla á fullu í sumar og svo bara vonandi hitta vini og vandamenn sem ég hef ekki séð lengi.“
– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid-frír í næstu viku?
„Ætli ég yrði þá ekki á haus í vinnu. Þá færi atvinnulífið á fullt. Það væri dásamlegt.“
– Uppáhaldsmatur á sumrin?
„Grillað reykt svínakjöt með rjómasósu.“
– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?
„Það er nú bara Coke Zero allan ársins hring.“
– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu (fyrir utan gosslóðir)?
„Er ekki bara málið að fara hring og heimsækja alla helstu staði? En ef ég þarf að velja einn myndi ég velja Gunnuhver.“
– Hver var síðasta bók sem þú last?
„Ég las síðast Ljósið í Djúpinu um hana Rögnu Aðalsteinsdóttur. Ótrúleg bók um magnaða konu – en síðan er ég náttúrlega alltaf að lesa kjarasamninga.“
– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?
„Ég er að hlusta á Eurovision-lögin þessa dagana. El Diablo frá Kýpur er heilalímið þessa dagana.“
– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?
„Ja ... ég er að flytja í Reykjanesbæ á næstu vikum en bý í Vogum núna þannig að það er dálítið erfitt að svara þessu. Ég vil sjá fjölbreyttara atvinnulíf og áframhaldandi uppbyggingu. Ég vil að stjórnvöld geri sér grein fyrir og taki tillit til mikillar fjölgunar hér á undanförnum árum og fjárveitingar til stofnanna verði í takti við það því þar er þörf á mikilli uppbyggingu. Síðan vil ég sjá atvinnulífið fara á fullt. Þetta á eiginlega bara við báða staðina.“