Ekki verri móðir þó ég sé ung
Mæður á tvítugsaldri eru hlutfallslega mun fleiri á Suðurnesjum en annars staðar á landinu, en hlutfallið á Suðurnesjum er þrefalt á við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Ungir feður virðast þó vera minna umtalaðir í samfélaginu en Víkurfréttir ræddu við nokkrar ungar mæður á Suðurnesjunum um málið og hvers vegna þær haldi að svo sé.
Ólöf Rún Guðsveinsdóttir er 21 árs stúlka úr Keflavík. Hún á 10 mánaða gamla dóttur og segir að hún myndi ekki skipta því út fyrir neitt. „Það að vera móðir getur verið erfitt en ég er heppin að fá góðan stuðning heima og það hefur hjálpað mér mjög mikið. Stundum talar fólk talar við mig eins og ég viti ekki neitt um barnið mitt vegna þess hve ung ég sé og sumir reyna að segja mér til um það hvernig eigi að ala upp mitt barn þó það þekki barnið mitt ekki neitt. En þetta er eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef upplifað. Það ætti að vera sama viðhorf gagnvart ungum feðrum og ungum mæðrum.“ Hún hvetur ungar mæður á Suðurnesjum til að hlusta ekki á það sem öðru fólki gæti fundist um þær. „Ekki lifa lífinu ykkar eftir því hvað aðrir eru að segja um ykkur, það skiptir ekki máli.“
Aldís Guðrún Freysdóttir segist ekki skilja af hverju það sé oft talað niður til ungra mæðra, en hún er tvítug stúlka úr Garðinum og á sex mánaða gamlan son. „Ég hreinlega fatta það ekki. Ég er stolt af sjálfri mér sem ungri móður. Ég hef aldrei fengið almennileg rök fyrir því af hverju það sé svona svona slæmt að vera ung móðir. Mér fannst lífið mitt hefjast fyrst almennilega þegar ég eignaðist son minn. Af hverju er maður svona að missa? Að fá ekki að djamma hverja helgi? Það er val hvers og eins að eignast börn og eitthvað sem samfélagið ætti ekki að reyna taka í sínar eigin hendur, hvort sem fólk lítur á ungar mæður sem einhverja vitleysu eða ekki,“ segir hún.
Sædís Ósk Færseth, átján ára gömul móðir úr Keflavík, tekur undir með stelpunum og segir son sinn það besta sem hafi komið fyrir hana. „Ég veit ekki hvar ég væri án hans. Mér finnst æðislegt að vera ung móðir. Fólk telur oft einungis unglinga í rugli koma sér í þessar aðstæður. Ég var ekki í neinu rugli en samt varð ég ólétt. Ég ráðlegg ungum mæðrum að hugsa bara hvað þær séu heppnar að eiga litlu krílin sín en ekki um það sem fólki gæti fundist um þær. Ég er ekki verri móðir þó ég sé ung. Ég var alltaf að spyrja mig sjálfa hvernig ég ætti að fara að því að ala upp barn átján ára gömul og að telja mér trú um að ég kynni ekkert á börn. En svo þegar ég fékk litla gullmolann minn í hendurnar breytist einhvern veginn allt og ég vissi allt um hlutina. Maður gerir alltaf það sem er best fyrir krílið.“
Þær velta því fyrir sér af hverju það sé litið öðruvísi á unga feður en ungar mæður í samfélaginu. „Mér finnst líka asnalegt að spá í því að það séu fleiri ungar mæður á Suðurnesjunum en annars staðar á landinu, hvaða máli skiptir það?“ spyr Aldís Guðrún og segir að þessir hlutir gerist bara þegar þeir eigi að gerast. „Lífið mitt er yndislegt eins og það er og barnið mitt gefur mér stærsta tilgang sem ég hef haft.“