Mannlíf

Ekki sama mokfiskerí fyrir utan tólf mílurnar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. mars 2024 kl. 06:23

Ekki sama mokfiskerí fyrir utan tólf mílurnar

Tómas Þorvaldsson GK er frystitogari í eigu Þorbjarnar í Grindavík. Sigurður Jónsson hefur verið annar skipstjóra skipsins síðan það var keypt fyrir fimm árum en þar áður var Siggi á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK frá áramótum ‘89/’90. Siggi man tímana tvenna í frystitogarasjómennskunni, allur aðbúnaður er allt annar í dag en hver túr er venjulega á bilinu tuttugu og fimm til þrjátíu dagar. Sú mokveiði á þorski sem hefur verið við Suðurnes í nánast í allan vetur nær ekki út  fyrir tólf mílurnar en innan þeirrar línu mega frystitogarar ekki veiða. Tómas Þorvaldsson GK var í sínum fyrsta túr eftir gírupptöku, sem tók um þrjá mánuði. Tímasetningin gat ekki verið betri má segja, áhafnarmeðlimir gátu þá sinnt fjölskyldum sínum á þeim tíma sem Grindvíkingar voru hraktir frá bænum sínum en sextán af 26 áhafnarmeðlimum eru með lögheimili í Grindavík.

Siggi var staddur á Selvogsbankanum, sem er um tuttugu mílur vestan Surtseyjar og 40 mílum sunnan við Þorlákshöfn, þegar myndsímtalið átti sér stað, hægt er að nálgast það á vef Víkurfrétta. Siggi var að reyna við ufsa og túrinn vantaði einn dag í að verða tveggja vikna gamall.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Skipið var búið að vera í þriggja mánaða viðhaldi, það var verið að taka gírinn upp, síðasta löndun var 11. desember í Reykjavík og gírupptakan fór fram þar. Þegar skip er búið að vera svona lengi frá tekur oft tíma að fá allt til að snúast rétt svo við fórum stutt, létum fara á Eldeyjarbankanum til að fá eitthvað niður í vinnsluna og sjá hvort allt væri ekki í lagi. Það gekk bara vel, við keyrðum svo í tólf tíma vestur eftir og á meðan var hægt að fínstilla vinnsluna og við vorum klárir þegar komið var á Vestfjarðarmið. Alltaf þegar nýtt kvótaár hefst, 1. september, er reynt við tegundirnar sem erfiðara er að ná í, eins og ufsa og grálúðu. Það þarf venjulega að hafa meira fyrir þeim tegundum, auðveldara alla jafna að ná í þorsk og karfa en við ákváðum að byrja í þorski fyrir vestan og það gekk bara nokkuð vel.“

Ekki sama mok

Þeir sem lesa vikulega pistla Gísla Reynissonar í Víkurfréttum, aflafréttir, vita að mikil þorskveiði hefur verið hér í kringum Suðurnes og hafa bátarnir oft þurft að tví- og jafnvel þrílanda en nær þetta fiskerí líka til frystitogaranna?

„Það getur verið mokveiði í eitt veiðarfæri en ekkert í það næsta, upplifunin hjá línusjómanninum getur verið allt önnur en hjá sjómanninum sem er með troll og svo öfugt. Loðnubresturinn í ár kemur við okkur en á sama tíma er búið að vera feiknarlegt fiskerí hjá línusjómanninum sem veiðir nær landi en við megum. Hjá okkur gildir tólf mílna landhelgin, við megum ekki veiða innan þeirrar línu. Hjá okkur, fyrir utan þá línu, er alls ekki svo mikið af þorski en þetta er allt breytingum háð. Þegar ég byrjaði á þessum veiðiskap, á Hrafni Sveinbjarnarsyni árið 1990, vorum við að mokveiða þorsk hér í köntunum á vertíðinni en það er enginn þorskur þar lengur. Þróunin undanfarin ár hefur verið þannig að það er mokveiði uppi í harða landi og allir bátar undir 29 metrunum eru að fiska mjög vel. Við erum búnir að vera í tólf daga hér fyrir sunnan að reyna við ufsa og erum komnir með u.þ.b. tuttugu tonn af þorski með en það hefur líka verið talsvert af ýsu. Þetta er nokkuð blandaður afli en allur þessi þorskur sem er verið er að tala um, hann er alla vega ekki hér hjá okkur en eins og ég segi, þetta er allt breytingum háð,“ segir Siggi.

Siggi með eiginkonu sinni, Fanneyju Pétursdóttur.

Venjulegur túr um mánuður

Líf frystitogarasjómannsins kallar á fjarveru frá fjölskyldu en venjulegur túr á Tómasi Þorvaldssyni GK er í kringum 30 daga. Þegar ekkert stórt viðhald er í gangi er miðað við að skipið nái þrettán túrum á ári. Í dag eru langflestir frystitogarar landsins með tvær áhafnir, það þýðir að skipið stoppar bara rétt til að landa og sinna nauðsynlegu viðhaldi og fer svo út aftur með nýrri áhöfn. Það er Þorbjörn í Grindavík sem gerir Tómas Þorvaldsson út og er frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson einnig í flotanum.

Stútfullur pokinn kominn inn fyrir (vinstri mynd). Heiti potturinn hefur slegið í gegn hjá áhafnarmeðlimum.

Hvernig er hefðbundinn dagur á hafinu?

„Í venjulegu árferði sjáum við löndunardagana í nóvember og getum skipulagt okkur samkvæmt þeim. Við ætlum að prófa í ár að hafa lengri túra yfir sumarið, gerum líklega tvo 40 daga túra þá. Þetta eru öðruvísi túrar yfir sumarið, þá er meira verið að eltast við grálúðu sem kallar á minni vinnu því það er dregið lengur og vinnslan gengur hraðar fyrir sig, það er betra veður og hin áhöfnin fær þá gott sumarfrí á meðan.

Ég kem að vestan, var á ísfisktogara á milli þess sem ég var í stýrimannaskólanum en ég flutti svo til Grindavíkur áramótin ‘89/’90 og byrjaði þá á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK svo ég er búinn að vera lengi á svona veiðiskap. Það er mikill munur að vera á þessu skipi sem ég er á í dag eða vera á Hrafninum og sérstaklega áður en hann var lengdur. Það eru einhverjir tuttugu metrar á sekúndu í þessum töluðu orðum en skipið hreyfist ekki, menn vöknuðu oft með lakið vafið utan um sig á litla Hrafninum á sínum tíma svo það er ekki hægt að líkja þessu saman í raun. Hér eru allir með sérklefa fyrir sig og það fer miklu betur um mannskapinn að öllu leyti. Ég man þann tíma sem horft var á mánaðargamlar uppteknar fréttir í sjónvarpinu, það var eitt sjónvarp og videotæki í setustofunni og það var einn sími um borð. Þegar maður fór í Smuguna var ekkert samband, maður mátti þakka fyrir ef að skip kom með póst að heiman, þá gat maður lesið bréf frá konunni. Í dag erum við alltaf í góðu netsambandi, getum horft á sjónvarp Símans svo við náum öllum boltanum má segja. Það hefur alltaf verið mikill áhugi á enska boltanum hér um borð, mikill rígur á milli manna en í góðu auðvitað.“

Lífið um borð

„Hefðbundinn dagur hjá mér er þannig að ég er venjulega vaknaður um átta leytið, kíki upp og sé hvernig staðan er og leysi svo nafna minn af um hálf tíu leytið, við reynum að miða við að standa sitthvora tólf tímana. Oft er ég kominn niður um hálf ellefu en þegar mikið fiskerí er kíkjum við niður í vinnsluna og hjálpum til. Mér finnst alltaf gaman að taka á því niðri í vinnslunni, þá er líf í tuskunum. Þegar ég er kominn af vakt reyni ég að kíkja í bók, við erum með fína líkamsrækt hér um borð og ég er nú alltaf á leiðinni að stunda hana meira. Við erum með heitan pott svo það fer vel um okkur en minn hugur er nánast stöðugt við vinnuna en maður reynir að slaka sér þegar færi gefst til.

Það var mikil breyting til hins betra fyrir hásetann þegar við fórum úr sex tíma kerfi yfir í átta tíma. Menn voru sem sagt að vinna sex tíma og voru í sex tíma í fríi en við tókum síðan upp átta tíma vaktakerfi, þannig hafa menn miklu meiri tíma fyrir sjálfan sig í fríi, geta horft á mynd, kíkt í pottinn eða ræktina og þeir hvílast líka miklu betur. Ég man að gömlu hundunum leist ekkert á þessar breytingar fyrst en nánast eftir einn dag á sjó voru þeir búnir að taka þetta nýja kerfi í sátt. Það eru þrír vélstjórar, tveir þeirra standa tólf tíma vakt eins og við í brúnni, skipta klukkan sex og yfirvélstjórinn stendur yfir daginn eins og ég. Mórallinn um borð hefur alltaf verið góður, ég hef verið með sumum hér frá upphafi á Hrafni Sveinbjarnar, t.d.

Birni Oddgeirssyni, yfirvélstjóra. Þetta verður pínulítið eins og önnur fjölskylda manns. Við erum jú saman í u.þ.b. mánuð í senn og þá tengjast menn auðvitað ákveðnum böndum og blessunarlega hefur mórallinn alltaf verið góður hjá okkur, það skiptir mjög miklu máli. Ég er mjög ánægður með áhöfnina mína, þetta er hörkuduglegur mannskapur.“

Tímasetningin á gírupptökunni gat líklega ekki verið betri fyrir skipsverjana á Tómasi, þeir gátu þá verið með fjölskyldum sínum eftir að hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík, sextán af 26 manna áhöfn búa í, já, eða bjuggu í Grindavík.

„Þetta er auðvitað búið að vera ótrúlega erfitt. Sem betur fer fengum við hjónin símhringingu daginn eftir fyrri rýminguna frá góðu vinafólki að austan, þau eiga íbúð í Reykjavík og þar höfum við verið allan tímann. Maður getur í raun ekki þakkað nægjanlega mikið fyrir þann velvilja sem okkur hefur verið sýndur en verkefnið er risavaxið, það er ljóst. Það hafa ekki allir verið eins heppnir og við hjónin, sumir hafa þurft að flytja oft og þetta er einfaldlega erfitt. Við höfum tekið ákvörðun um kaupa íbúð í Reykjanesbæ, fáum afhent í maí og ætlum að koma okkur þar fyrir. Við viljum sjá þennan atburð klárast áður en við hugleiðum að snúa aftur heim til Grindavíkur. Að sjálfsögðu viljum við snúa aftur heim en við verðum að leyfa atburðinum að klárast, það héldu allir að þetta síðasta eldgos myndi klárast á einum degi en það mallar ennþá, sem segir okkur að við vitum ekkert. Ég treysti vísindafólkinu miklu betur heldur en okkur hinum til að meta þetta, við þurfum að passa okkur hvað við segjum og skrifum á samfélagsmiðlum. Það er margt fólk sem er mjög brotið og það skiptir máli hvernig við tölum, við þurfum að bera virðingu fyrir öllum skoðunum, það eru miklar tilfinningar í gangi og margir sem eiga mjög erfitt. Hvað varðar framtíð Grindavíkur þá þurfum við að koma atvinnulífinu í gang en að mínu mati verðum við að leyfa atburðinum að klárast áður en við förum að hugleiða að hefja eðlilegt líf aftur í Grindavík. Þetta samfélag verður líklega aldrei eins, við þurfum bara að mjaka okkur í gegnum þetta en á endanum munum við snúa aftur til Grindavíkur, það er ég sannfærður um en hvenær það verður getur enginn sagt til um,“ sagði Siggi að lokum.