Ekki biðja barnið þitt að þegja
Margir foreldrar kannast líklega við það að barnið þeirra talar og talar og jafnvel endalaust. Þetta er samt ósköp eðlilegt því börn þurfa að tala mjög mikið segir Theodóra Mýrdal, sérkennslustjóri hjá leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ, en fullorðna fólkið hefur ekki alltaf þolinmæði til að hlusta á þau. Hún sagði okkur jafnframt frá rannsókn sem gerð var hér á landi varðandi orðaforða barna og niðurstöðurnar voru sláandi.
Orðaforði verður að þjálfast einnig hjá foreldrum
„Eins og staðan er núna þá hafa börnin okkar ekki málið á valdi sínu, mjög slakur málþroski er að koma í ljós hjá bæði íslenskum og erlendum börnum sem búa á Íslandi. Við í leikskólanum erum alltaf að örva börnin málfarslega, leyfa þeim að tala og læra að hlusta á aðra en þannig þjálfast börn í að nota málið sitt. Við vinnum í skólunum að því að auðga mál barna og gefum þeim mörg ný orð sem þau læra að nota. Börn verða að eiga í samræðum við fullorðna til þess að málfærni þjálfist upp. Íslenskt beygingarkerfi er flókið en þegar barnið heyrir fullorðna fólkið tala við sig um hversdagslega hluti þá fer fram þjálfun í leiðinni. Eins og þegar foreldri er að búa til kvöldmat og setur orð á þær athafnir. Nú er ég að skera gulræturnar eða nú klæðum við þig í ermina á peysunni. Börnin hlusta á okkur, hvernig við tölum og herma svo eftir okkur. Þannig lærist málið. Þetta þarf ekki að vera flókið, bara einföld orð og athafnir,“ segir Theodóra og manni verður órótt þegar hún heldur áfram.
Sláandi niðurstöður
„Það var nýlega rannsakað á landsvísu hvernig orðaforði barna í landinu stendur í dag og því miður hefur orðaforði þeirra snarversnað. Skýringin er líklega sú að börn eiga ekki í nógu miklum samræðum við fullorðna lengur. Það er of mikil þögn. Það er áríðandi að tala við börnin, leyfa þeim að tjá sig og að þau finni að við erum að hlusta. Við þurfum einnig að tala við þau, segja þeim frá ýmsu því þá heyra þau hvernig nota á málið. Þau heyra ný orð og prófa sjálf að nota þau. Það er einnig mjög góð leið að lesa upphátt úr bókum. Börn þurfa þessa málfarslegu umhyggju ekki síður en að borða eða að klæða sig í hlý föt þegar kalt er úti. Það þarf að sinna þessum þætti, það þarf að tala við þau. Börn elska að heyra sögur af sér eða af foreldrunum þegar allir voru litlir. Þessar samræðustundir geta þá verið farvegur í leiðinni til að efla tilfinningatengslin við barnið með því hlúa að því málfarslega,“ segir Theodóra sem finnst mjög sorglegt þegar hún sér foreldri og barn sitja saman, hlið við hlið, án þess að tala saman. Barnið er þá í spjaldtölvunni og foreldrið er í farsímanum sínum. Engin að tala saman, engin samskipti.
Tala meira saman
„Það er ekki nóg að leikskólar eða grunnskólar séu að sinna börnunum okkar. Foreldrar verða að sjá um máluppeldi barna sinna einnig. Þeir þurfa að lesa fyrir barnið sitt og tala við það. Barnið kemur heim að loknum löngum vinnudegi en ég kalla það vinnudag barnsins þegar það mætir fyrir átta á morgnana í leikskólann og er sótt um klukkan fjögur. Það er jafnþreytt og fullorðna fólkið. Þá er mjög freistandi að setja barnið fyrir framan sjónvarpið eða leggja spjaldtölvuna á læri þess. Fullorðna fólkið vill fá frið. Þarna sé ég samt tækifæri til þess að eiga notalega gæðastund í sófanum, rólegheit, allir slaka á eftir vinnu og tala saman. Hafa börnin með. Að fullorðna fólkið setji farsímana til hliðar í þessar örfáu klukkustundir þar til barnið fer að sofa. Þetta getur skilað vellíðan beggja aðila þegar barnið finnur að það fær athyglina sem það þráir frá foreldri sínu. Já, börn þurfa mikla athygli og nota til þess öll brögð. Barn sem fær þá athygli sem það þarfnast er yfirleitt rólegra,“ segir Theodóra.
Átak í gangi eða Snemmtæk íhlutun
Í öllum leikskólum Reykjanesbæjar eru flest þriggja ára börn skimuð með EFI-2, málþroskaskimun, málfærni þeirra og orðaforði er þá sérstaklega skoðaður. „Sem betur fer eru flestir foreldrar í Reykjanesbæ orðnir meðvitaðir um þetta verkefni. Orðaspjall byrjaði hér hjá okkur og hefur breiðst út um allt land. Allir leikskólar í Reykjanesbæ leggja áherslu á snemmtæka íhlutun. Það þýðir að við bíðum ekki lengur og sjáum til hvort barn þróar með sér eðlilegan málþroska heldur grípum við inn í strax ef þarf. Við skimum öll þriggja ára börn og ef við sjáum að barn þarf stuðning þá fær það einstaklingsmiðaða þjálfun hjá sérkennara í leikskólanum sem vinnur áfram með málfærni barnsins,“ segir Theodóra sem brennur fyrir því að hjálpa börnum sem eru í vandræðum með tungumálið. En þetta er undanfari þess að fá greiningu á málþroska hjá talmeinafræðingum á Fræðslusviði Reykjanesbæjar.
Börn læra best í gegnum leik
Kennarar leikskólans Tjarnarsels í Keflavík hafa búið til námsefni sem notað er víða um land til að þjálfa upp orðaforða en leikskólastjóri skólans, Árdís Hrönn Jónsdóttir, samdi bókina Orðaspjall – Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Theodóra Mýrdal hefur einnig lagt sitt að mörkum til að efla málörvunarstundir í leikskólanum og til þess að efla allt starfsfólk leikskólans að vera með markvissar málörvunarstundir með börnunum. Metnaðurinn er mikill hjá þessum leikskólakennurum sem vinna að því að hjálpa börnum að verða tilbúin fyrir skólann. Það er jú hlutverk þessa námstigs. Leikurinn er það sem við sjáum í leikskólanum en undir niðri er verið að þjálfa upp mikilvæga þætti í gegnum allan leikinn. Börn læra best í gegnum leik.
Það er svo áríðandi að barn tileinki sér ákveðinn orðaforða áður en það kemur í grunnskóla því þau þurfa að vera læs á allt venjulegt námsefni. Því miður hefur það víst aukist að stór hluti barna er ekki læs á venjulegt námsefni og úr því þarf að bæta. Við þurfum að örva börnin okkar. Orðaforði og lestrarfærni eru lykill að lífsgæðum í nútímaþjóðfélagi.