Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Ekki annað hægt en að fá flugdellu
    Rebekka er hér fyrir framan CS100 vélina þegar hún heimsótti Bombardier verksmiðjuna í Kanada. Myndir úr einkasafni.
  • Ekki annað hægt en að fá flugdellu
    Rebekka var annar tveggja fyrirliða fótboltaliðsins Embry-Riddle Eagles á lokaárinu sínu.
Laugardagur 31. desember 2016 kl. 06:30

Ekki annað hægt en að fá flugdellu

Rebekka Gísladóttir eignaðist sextán nýjar vinkonur nánast á fyrsta degi í Embry-Riddle háskólanum í Flórída. Starfar nú í Doha við flugáætlunargerð hjá Qatar Airways, öðru besta flugfélagi heims.

„Ég hef aldrei fundið fyrir því hér að vera dæmd fyrir að vera ekki múslími eða trúuð. Hins vegar var mikið um það í Bandaríkjunum að strangtrúað fólk sagði við mann að Guð væri eina rétta leiðin,“ segir Rebekka Gísladóttir, aðspurð hvernig sé að búa í landi þar sem sjaríalög gilda. Rebekka býr í Katar á Arabíuskaga en hún starfar í flugáætlanagerð flugfélagsins Qatar Airways, en það var valið annað besta flugfélag heims í ár.

Rebekka segir fótboltann hafa staðið upp úr á háskólaárunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Flugvélar aðal umræðan
Rebekka er fædd og uppalin í Keflavík og fór eftir stúdentspróf til Daytona Beach í Bandaríkjunum í háskólanám. Rebekka fékk skólastyrk hjá flugháskólanum Embry-Riddle Aeronautical University í Flórída og spilaði fótbolta með liði skólans samhliða námi í flugrekstrarfræði. „Ég byrjaði í almennri viðskiptafræði en skipti yfir á flugsviðið eftir eina önn, en það er ekki annað hægt en að fá flugdellu þegar maður er í þessum skóla. Flugvélar voru oftar en ekki aðal umræðuefnið, flest stór verkefni voru tengd flugbransanum á einhvern hátt og skólinn er þekktur fyrir flug-iðnaðarverkfræði og flugkennslu.“

Sextán nýjar vinkonur
Háskólaárin í Flórída voru góð og mælir Rebekka hiklaust með að fara erlendis í nám ef fólk hefur þess kost. Hún segist hafa lært mikið af því og þá helst á sjálfa sig. Að tvinna saman námið og fótboltann krafðist mikillar skipulagningar en þær misstu oft úr skóladaga vegna leikja. „Það var mikið að gera þegar fótboltatímabilið var í gangi en það var á haustönnum. Við æfðum fjóra daga og spiluðum tvo leiki í viku. En ég eignaðist sextán nýjar vinkonur nánast á fyrsta degi, liðið tók svo vel á móti okkur nýju leikmönnunum.“

Vinkonur frá Daytona komu í heimsókn til Katar.

 

Meðleigjandinn fékk sér rottu
Nokkrar eftirminnilegar uppákomur standa upp úr þegar litið er til baka en ein þeirra var þegar Rebekka kom heim einn daginn hafði vinkona hennar og meðleigjandi keypt sér rottu. „Ekki nóg með það heldur var þetta hárlaus rotta! Ég reyndi að búa með henni í sátt og samlyndi í tvo daga en gafst svo upp því ég gat ekki sofið almennilega. Rottunni var því fundið annað heimili. Eitt sinn lenti ég líka uppi á lögreglustöð í lygaprófi en það var lífsreynsla út af fyrir sig,“ segir Rebekka en bætir við að hápunktur hvers árs í Daytona sé Bike Week mótorhjólahátíðin og Daytona 500 NASCAR kappaksturinn. Þá fyllist bærinn af fólki og mikið er um að vera í hátíðarhöldum.

Hvað ef?
Aðspurð hvernig kom til að hún fluttist til Katar segir hún að fyrst hafi fulltrúar frá Qatar Airways komið til Daytona að leita eftir starfskrafti. „Á þeim tíma var ég ekki á leiðinni til mið-austurlandanna. Tvær vinkonur mínar fóru í viðtal og fengu starf. Þegar þær komu til Katar voru þær spurðar hvort þær vissu um ný útskrifaða nemendur og þær bentu á mig. Þá fór boltinn að rúlla. Ég sendi þeim ferilskrána mína, var svo boðuð í Skype viðtal og síðan annað viðtal úti í Katar og þar var mér boðið starf. Vinkonur mínar höfðu búið þar í nokkra mánuði og gátu sagt mér frá því hvernig væri að búa í Doha. Ég ákvað að lokum að slá til og ég held að stór partur af ástæðunni sé að annars hefði ég líklega alltaf hugsað ‘hvað ef?’ Ég vildi frekar grípa tækifærið að fá að vinna hjá stóru, fimm stjörnu flugfélagi og gæti þá alltaf bara farið heim.“


Inland Sea, þar sem sést yfir til Saudi-Arabíu frá Katar.

 

Býr á hóteli
Meirihluti íbúa Katar eru útlendingar frá öllum heimshornum og því fjölbreytt flóra menningar og trúarbragða. Rebekka kann ágætlega við sig í höfuðborginni, Doha, en hún býr á hóteli ásamt mörgum öðrum starfsmönnum Qatar Airways sem koma frá vesturlöndum. „Hér er lítið um glæpi og ég hef aldrei fundið fyrir óöryggi. Amma mín hafði verulegar áhyggjur af því að ég væri að flytja hingað en svo komu þau afi í heimsókn og höfðu orð á því hvað allt væri hreint og þau voru örugg hér, nema þá kannski í umferðinni. Ég minnti ömmu líka á það að ég hefði búið á Daytona Beach sem er klárlega mun hættulegri en Doha.“ Rebekka segir að á móti komi að hitinn sé rosalegur á sumrin, stundum fari hann upp í 50 gráður og þá fari fólk ekki út úr húsi nema nauðsyn krefji.

Rebekka, Óli afi hennar og Emma amma hennar á Souq Waqif markaðnum.

 

Lyftu bíl
Katarbúar fá engin verðlaun þegar kemur að ökuhæfni og hefur Rebekka lent í tveimur smávægilegum árekstrum sem farþegi. Hún rifjar upp atvik sem hún varð vitni að þegar hún var eitt sinn stödd í leigubíl. „Það voru tveir bílar fyrir framan leigubílinn sem ég var í. Skyndilega keyrir annar bíllinn utan í hinn svo hann veltur á hliðina. Allir ná að stöðva og ökumaðurinn liggur fastur í bílnum. Fullt af einkennisklæddum mönnum stökkva út úr bílunum sínum, hjálpast að við að lyfta bílnum upp, ökumaðurinn sem var fastur inni kemur út úr bílnum og var einnig í einkennisbúningi. Þeir hlæja nokkrir saman og svo hoppuðu allir aftur upp í bílana sína og keyrðu af stað eins og ekkert hefði í skorist. Þetta er gott dæmi um hvernig göturnar geta verið hérna.“

Algengt er að hótel bjóði upp á „brunch“ á föstudögum og stendur matarveislan yfir í rúma fjóra klukkutíma. Hér er Rebekka með vinum og kunningjum í „brunch.“

 

Býr til flugáætlun Qatar
Starfsheiti Rebekku er „Senior Scheduling Analyst“ en hún fékk stöðuhækkun í haust sem fól í sér meiri ábyrgð. Hlutverk Rebekku innan hennar deildar er að búa til flugáætlun félagsins einn mánuð í senn. „Ég byrja að vinna í henni tveimur og hálfum mánuði áður en hún tekur gildi og þarf að skila henni tíu dögum áður til þeirra sem sjá um daglegu áætlunina. Á þeim tíma vinn ég með öðrum deildum í að finna út hvert sé best að fljúga hvaða vél og breytingar á tímasetningum vegna til dæmis tengifluga eða ef lendingartími á tilteknum flugvelli er ekki laus. Ég vinn með verkfræðingunum að því að skipuleggja viðgerðir og viðhald flugvélanna á réttum tímum. Einnig þarf ég að sjá til þess að flugfélagið hafi öll tilskilin leyfi til þess að fljúga á ákveðna áfangastaði, bæði á pólitískri grundu og hvað flugvellina sjálfa varðar.“

Rebekka ásamt herbergisfélögum sínum, Tova og Martine á toppi Table Mountain í Suður-Afríku.

 

Heimsótti Bombardier
Qatar Airways flýgur til yfir 150 áfangastaða og er með 170 farþegaþotur af öllum stærðum og gerðum. Á hverju ári er um tíu nýjum áfangastöðum bætt við, svo starf Rebekku getur verið mjög krefjandi og margþætt, en hún segir gott að fá að vinna að hinum ýmsu þáttum sem tengjast rekstrinum því þá fái hún betri heildarsýn á hvernig allt „batteríið“ virkar. „Ég hef farið á nokkur námskeið hjá IATA, alþjóðlegum samtökum flugfélaga, og fór einnig í heimsókn í Bombardier verksmiðjuna í Montréal í Kanada í sumar. Það var frábær reynsla og rosalega flott að geta kynnst fólki frá öðrum flugfélögum og fá tækifæri til að stækka tengslanetið mitt,“ segir Rebekka


Vinkonur Rebekku, Hafdís, Katrín og Helena við Perluna.

 

Trúarlög
Í Katar gilda sjaríalög sem eru trúarlög, og mega strákar og stelpur ekki hittast eða verja tíma saman, séu þau ógift. Ekki má borða svínakjöt og áfengi er bannað, nema á svokölluðum „frjálsum svæðum,“ en flest hótel selja áfengi og þar mega konur klæðast því sem þær vilja. Auk þess selur ein búð í Katar slíkan varning en sérstakt leyfi frá vinnuveitanda þarf til að mega versla þar. Rebekka segist reyna að virða þær reglur sem gilda um klæðaburð kvenna en þær eiga að hylja hné og axlir. Eitt sinn var hún þó á leið heim úr fótbolta með vinkonu sinni og vinur þeirra sem skutlaði þeim heim setti þær út á horni götunnar sem þær búa í. „Við þurftum að labba um 300 metra, báðar í stuttbuxum. Maður sem var að labba á móti okkur setti hendurnar að andliti sínu svo hann gæti ekki séð okkur á meðan við mættumst,“ segir Rebekka og bætir við að hún sé þó mjög þakklát fyrir að fá tækifærið til að búa þarna og kynnast þessum menningarheimi. „Það er margt hér sem ég er ekki sammála, eins og að konur þurfi að hylja sig, að karlmenn geti átt fleiri en eina konu og að yfirleitt eru ekki sömu tækifæri fyrir konur og karla þó að það sé þó að þokast í rétta átt, en mér finnst fréttirnar heima ekki gefa rétta mynd af samfélaginu hér.“

Mikið um að vera
Mörg stórmót í íþróttum eru haldin í Katar og stórir tónleikar, sem dæmi var heimsmeistaramótið í hjólreiðum haldið þar nýlega, HM í handbolta var haldið þar árið 2015 og á hverju ári er stórt tennismót haldið. Nýlega fór Rebekka á leik Barcelona gegn saudi-arabísku liði í fótbolta. Skemmtanalífið fer fram á hótelum og á veturna er vinsælt að verja helgunum í eyðimörkinni. Þar sem Rebekka starfar hjá flugfélagi hefur hún tækifæri til að ferðast ódýrt, en hún reynir að heimsækja nýjan stað í hverjum mánuði og segir það algjöran draum. „En það eru tveir pólar á lifnaðarháttunum hér og margir búa við slæm kjör. Það getur verið erfitt að horfa á verkamennina vinna úti í 47 gráðu hita.“


Rebekka kann vel við sólina og hitann í „sandinum.“

 

Skýr markmið
Aðspurð um framtíðaráformin segist Rebekka hafa skýr markmið hvað framann í flugheiminum varðar, það sé þó ekki endilega bundið við eitthvert ákveðið flugfélag. Hana langar að færa sig yfir til Evrópu á einhverjum tímapunkti og jafnvel heim til Íslands. „Ég hef verið erlendis undanfarin sex ár, svo ég held að fjölskyldan yrði voðalega glöð ef ég kæmi heim, eða að minnsta kosti nær Íslandi. Þetta fer allt eftir því hvar tækifærin gefast. En ég hef öðlast reynslu hérna í Katar sem ég hefði sjálfsagt hvergi fengið í Evrópu sem fyrsta starf eftir útskrift,“ segir Rebekka að lokum.

 

[email protected]