Ekkert stress og njóta þess að vera til
Þuríður H. Aradóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Reykjaness.
Á að ferðast eitthvað yfir páskahelgina? - Ef ekki, hvernig á að verja helginni?
Já eitthvað verðum við á ferðinni en aðallega munum við eyða páskunum hér á svæðinu. Veðurspáin hljómar kannski ekki spennandi en við stefnum á að keyra um Reykjanesið. Óskalistinn hjá mér um þessa páska er að skoða fjöruna á Garðsskaga, Brimketil við Grindavík, Kleifarvatn, Stafnes og Eldvörp.
Áttu þér einhverjar hefðir sem tengjast páskunum?
Nei ég hef því miður ekki haldið í neinar hefðir og engir páskar verið eins hjá mér síðustu ár. Nema þá helst að hafa það gott heimafyrir, ekkert stress og njóta þess að vera til.
Hvað er borðað á þínu heimili á páskadag?
Ég verð að athuga það. Ég er svo mikil prímadonna, eg er alveg hætt að elda. Það verður borðaður kalkúnn í ár.
Hvernig páskaegg ætlar þú að fá þér í ár?
Ég kaus að fá mér Draumaegg frá Freyju í ár.