Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Ekkert feiminn við myndavélina
    Það þekkja allir Svarta dauða orðið og vekur bílinn athygli hvert sem hann fer. Um er að ræða 25 ára gamlan Scania trukk sem Garðari þykir orðið mikið vænt um.
  • Ekkert feiminn við myndavélina
    „Ég er með svolítið svartan húmor en maður passar sig að vera ekki að særa fólk. Stundum er maður á bremsunni.“
Miðvikudagur 7. september 2016 kl. 11:36

Ekkert feiminn við myndavélina

Video: Garðar Viðarsson er hinn vinsæli Iceredneck á Snapchat

Njarðvíkingurinn Garðar Viðarsson hefur verið ansi virkur á Snapchat frá því að samskiptamiðillinn fór að ryðja sér til rúms. Hann gengur þar undir nafninu iceredneck, en hann viðurkennir fúslega að vera dálítill „redneck“ í sér. Tæplega 1500 manns fylgja Garðari á Snapchat þar sem hann lætur jafnan allt flakka. Hann starfar sem trukkabílstjóri og snappar duglega af ævintýrum sínum og Svarta dauða, sem er dyggur fákur Garðars. Hann notast mikið við frasa sem eru orðnir nokkuð vinsælir meðal þeirra sem fylgjast með honum, en hann og vinir hans hafa notað frasana í mörg ár. Þannig er til dæmis orðið nokkuð algengt að sá sem þetta skrifar heyri einhvern segja „litla dæmið,“ yfir einhverju sem þykir áhugavert.

„Maður er búinn að fá fréttir af því að þetta sé orðið notað mikið. Ég er reyndar orðinn frekar þreyttur á því að nota það. Það þarf að vera eitthvað helvíti flott til þess að vera litla dæmið núna.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Garðar segist hafa gripið Snapchat á lofti mjög fljótlega. „Ég er ekkert feiminn við myndavélina og tók þetta bara strax með mér. Þetta er eins og páfagaukur á öxlinni á mér og ég snappa mest allt sem ég geri.“ Það getur verið mikil vinna að framleiða allt þetta efni fyrir Snapchat og það kemur fyrir að Garðar er snapp-latur eins og hann orðar það. „Þá hefur fólk oft bara samband og fer fram á það að maður komi nú með snöpp.“

Þetta er stíf dagskrá en Garðar byrjar daginn oftast með kaffibolla og snappi og svo býður hann góða nótt í lok dags. Allt þar á milli fær nánast líka að fljóta með. „Stundum hef ég gaman af þessu og stundum er maður ekki að nenna þessu enda talsvert áreiti. Ég fór til dæmis að skemmta mér síðustu helgi og það var enginn friður, það er alveg legið í manni,“ segir Garðar og hlær. Hann er einlægur og hreinskilinn á miðlinum og setur sig ekki í neinn karakter. „Ég er bara sá sem ég er. Ég er ekki að bæta neinu við eða halda neinu aftur. Þetta eru bara hlutir sem ég er að gera og takast á við og svo djóka ég bara í kringum þetta. Ég er með svolítið svartan húmor en maður passar sig að vera ekki að særa fólk. Stundum er maður á bremsunni.“

Á þessu ári hefur hann orðið gríðarlega vinsæll og margir fylgjendur bætast við á hverjum degi. „Þegar ég er á ferðinni að lesta á bílinn í Reykjavík þá eru meira og minna allir vörubílar í borginni sem flauta á mig og heilsa mér. Það eru þónokkuð margir sem þekkja mig orðið.“

Alltaf til í góðan snapp-mat


Garðar er ekki mikið fyrir það að sitja heima og skoða lófana á sér. Hann verður alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Úr þessum ævintýrum hans verða oft til ansi góðar sögur fyrir Snappið. „Ég hugsa stundum að eitthvað sé flottur snapp-matur. Ef við félagarnir eru eitthvað að bauka og einhver fær góða hugmynd sem er góð á snappið, þá er ég allur inn.“

Fær ótrúlegt magn af grill og bjór snöppum

Garðar er líka duglegur að standa við grillið og matreiða pulsur og ýmislegt fleira góðgæti. Matnum skolar hann svo niður með einum ísköldum, eða tveimur. „Núna þegar fólk er að grilla sér pulsur og svona þá fæ ég að vita allt um þau mál. Ég fæ alveg geðveikt magn af grill snöppum á hverju kvöldi. Þá er búið að stilla upp bjór og svo opnar fólk grillið og segir litla dæmið,“ segir Garðar og skellir upp úr. „Ég hef bara gaman af þessu.“

Þegar Garðar er á ferðinni austur í Búrfellsvirkjun þangað sem hann flytur mikið af efni, þá staldrar hann oft við á Litlu Kaffistofunni og fær sér kjötsúpu. „Salan á kjötsúpunni hefur tvöfaldast út af mér. Nú eru allir trukkabílstjórarnir þar að fá sér súpu. Svo er Pulsubarinn á Selfossi lestaður af liði,“ segir Garðar en þar er hann vanur að stoppa á leiðinni heim. Það hefur komið upp að ýmis fyrirtæki hafa leitað til hans og vilja fá hann til þess að auglýsa fyrir sig vörur. Garðar segir að það væri ekki amalegt að fá styrktaraðila á snappið. „Iceredneck í boði Viking, það væri hrikalegt,“ segir Garðar að lokum og hlær dátt.

Gæi á snappinu from Víkurfréttir ehf on Vimeo.