Mannlíf

Ekkert blóð í sætum Sambíóanna
Sambíóin bjóða upp á ókeypis dömubindi í bíóhúsum um land allt.
Föstudagur 24. mars 2017 kl. 06:00

Ekkert blóð í sætum Sambíóanna

-„Ókeypis smokkar á salernum bíóhúsa er út í hött," segir sýningarstjóri Sambíóanna í Keflavík.

Sambíóin tóku nýlega upp á því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á ókeypis dömubindi á salernum í öllum þeirra kvikmyndahúsum.

,,Mér finnst þetta magnað framtak. Dömubindi er nauðsynjavara fyrir helminginn af bíógestum okkar. Náttúran gerir ekki alltaf boð á undan sér og ég er stoltur af því að geta verið til þjónustu reiðubúinn ef þurfa skyldi", segir Ólafur Ingvi Hansson, sýningarstjóri Sambíóanna í Keflavík í samtali við Víkurfréttir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

,,Þetta hefur verið baráttumál lengi um allan heim og mér finnst löngu tímabært að gera þetta að norminu. Ég hef fulla trú á því að það verði orðið sjálfsagður hlutur að útdeila þessu á flest öllum almenningsalernum og það er spennandi að vera með fyrstu fyrirtækjunum til að bjóða upp á þessa þjónustu á landsvísu."

Mikið hefur verið rætt um þetta mál á samfélagsmiðlum og einhverjir velt því fyrir sér hvað karlar fái þá ókeypis í staðinn. Þar hafa einhverjir stungið upp á ókeypis smokkum en Ólafur Ingvi segist ekki skilja þá tengingu.

,,Það að bjóða upp á smokka á salernum bíóhúsa er algjörlega út í hött. Vissulega er hægt að skoða umræðuna um að gera getnaðarvarnir aðgengilegri en ég sé ekki hvernig not fyrir getnaðarvarnir ætti að koma upp í bíósal."

Fólk virðist þó almennt taka þessu uppátæki fagnandi og umræðan verið að mestu leyti jákvæð.

,,Það er alltaf einhver minnihluti sem þarf að gagnrýna svona hluti. En flest allir í þeim hópi hafa einmitt aldrei þurft að nota dömubindi og munu aldrei þurfa."