Eitt sinn verða allir menn að deyja
-„Mér finnst þetta starf hafa gert mig að betri manneskju,“ segir Kristín Richardsdóttir hjá Útfararþjónustu Suðuresja.
Það er eitt sem er öruggt í þessu lífi en það er dauði hvers einstaklings sem einu sinni hefur fæðst. Við andlát ættingja og vina verða alltaf þáttaskil sem marka djúp spor í lífi fólks. Ástvinamissi fylgir sorg og söknuður. Stuðningur við aðstandendur við andlát getur skipt sköpum um framhald sorgarferils þeirra. Þeir sem starfa við þessar hliðar lífsins eru auðmjúkir gagnvart starfi sínu eða svo fengum við að heyra þegar við heimsóttum Útfararþjónustu Suðurnesja.
Lionsklúbburinn í Garði sá áður um þessa þjónustu
Í dag eru útfararþjónustur aðeins starfandi í Reykjavík, á Akureyri, Akranesi, Selfossi og á Suðurnesjum. Annars staðar á landinu sjá jafnvel félagasamtök um allt sem við kemur jarðarför einstaklinga. Þannig var það fyrst hér á Suðurnesjum þegar Lionsklúbburinn í Garði sá um þessa þjónustu frá árinu 1989 eða allt þar til Richard D. Woodhead keypti útfararþjónustuna af Lions árið 1999. Árið 2002 stofnaði Richard félag utan um þjónustuna og Útfararþjónusta Suðurnesja varð til en hann hafði áður aðstoðað Lionsfélaga sína við útfarir. Þjónustan var í raun mjög takmörkuð á þessum tíma. Þörfin fyrir þjónustuna hefur bara aukist með árunum og í dag stýrir Kristín, dóttir Richards, Útfararþjónustu Suðurnesja en hún tók við af föður sínum sem hefur dregið sig í hlé vegna aldurs.
„Áríðandi að það sé valinn
maður í hverju rúmi
þegar kemur að útför.“
Tók við af föður sínum
Kristín Richardsdóttir og sambýlismaður hennar Aðalsteinn Hákon Jónatansson reka Útfararþjónustu Suðurnesja og þeim til aðstoðar er Þórir Jónsson. Einnig hefur Víðir Guðmundsson verið liðtækur. Richard hefur stundum tekið að sér útfarir ef þess er sérstaklega óskað, eins hlaupið í skarðið ef svo ber undir, t.d. ef það eru tvær útfarir sama daginn á sama tíma en þá hefur hann séð um aðra útförina. Kristín ætlaði bara að prófa í sex til átta mánuði en í dag hefur hún rekið fyrirtækið frá 2017. Hún hélt í upphafi að hún myndi ekki geta starfað við þetta en tíminn átti eftir að leiða annað í ljós.
„Þegar pabbi tók við af Lions árið 1999 var mikil þörf fyrir þessa þjónustu og er enn. Hann byrjaði sjálfur í þessu sem Lionsfélagi í Garðinum en félagið sá þá um þetta allt þar til pabbi ákvað að starfa einungis við þetta en þá var hann farinn að taka oftar frí frá eigin vinnu til þess að sinna þessu fyrir félagið sitt. Þörfin fyrir þjónustuna hefur bara aukist með árunum en við veitum útfararþjónustu á öllum Suðurnesjum og víðar ef fólk óskar eftir því. Í dag sjáum við um allt sem við kemur andláti einstaklinga hvað varðar útför. Þegar óvænt andlát verður í heimahúsi þá er það lögregla, sjúkrabíll og læknir sem koma fyrst á staðinn. Læknir staðfestir andlát. Það er alltaf ákveðið ferli sem fer í gang,“ segir Kristín sem segir alla sem starfa við andlát einstaklings gera það af alúð og kærleika.
„Það er einstakt samstarf á milli okkar allra sem komum að hverju andláti fyrir sig, hvort sem það er presturinn, lögreglan, prentsmiðjan eða organistinn, kórar, grafarinn, kistusmiðurinn, starfsfólkið í kirkjunum, starfsfólk á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum. Það vinna allir sem einn að því að allt gangi snurðulaust fyrir sig og aðstoða aðstandendur sem best og fara að þeirra vilja. Eins og gefur að skilja er andlát ávallt viðkvæmt fyrir aðstandendur og áríðandi að það sé valinn maður í hverju rúmi þegar kemur að útför. Mikill kærleikur og alúð er í fyrirrúmi í starfi okkar allra,“ segir Kristín hlýlega.
Var hrædd við dáið fólk
„Það var árið 2007 sem ég kom inn í þetta til þess að starfa við bókhaldið hjá pabba. Þá gat ég ekki hugsað mér að koma nálægt látnum einstaklingi, hvað þá horfa á látinn einstakling. Ég hræddist dauðann. Það er fyndið að segja frá því í dag því ég hef sem betur fer þroskast mikið síðan þá. En ef ég þurfti eitthvað að tala við pabba og hann var kannski inni að snyrta, eða klæða eins og við köllum það, þá snéri ég alltaf höfðinu til hliðar og spurði pabba án þess að kíkja á hann eða þann látna. Ég var bara hrædd við þetta allt saman. Svo gerðist það að pabbi ákvað að fara í sumarfrí til útlanda og fékk mann til að leysa sig af. Þá kom gæðastjórnandinn upp í mér því ég vissi að pabbi hafði alltaf gengið svo fallega frá látnum einstaklingum fyrir útför og ég vildi halda þeim standard á meðan hann var í fríi. Þá fór ég að hugsa út fyrir þægindarammann og viðhorfið breyttist hjá mér. Smátt og smátt fór ég að farða látinn einstakling sem gekk betur en ég hefði þorað að vona. Með tímanum breyttist allt. Ég hélt áfram að vinna í bókhaldinu og fleiru sem tengdist skrifstofunni en aðstoðaði afleysingarfólkið við förðunina og fleira þegar pabbi var í fríi. Í framhaldinu tók eitt við af öðru hvað þennan part varðaði og allt í einu var þetta eitthvað sem mér fannst verða að köllun í lífinu. Hvernig manneskja lítur út í kistunni skiptir miklu máli fyrir aðstandendur sem vilja sjá ástvin sinn líta sem best út, eins og gefur að skilja. Þetta er kveðjustundin. Fólk kemur oft með ljósmynd af hinum látna til mín og jafnvel snyrtidót, uppáhalds varalit eða naglalakk. Við jöfnum húðlit eftir því sem við á með airbrush-tækni. Konur fá oft aðeins meiri förðun en karlmenn eða allt eftir óskum aðstandenda. Stundum vilja aðstandendur fá að greiða eða farða ástvin sinn sjálfir og er það velkomið. Aðrir koma með ábendingar um hvernig þeir vilja láta búa um hinn látna. Það er mjög krefjandi að farða látinn ástvin og fæstir sem vilja gera það sjálfir. Fólk getur verið kvíðið við það sem það þekkir ekki og það er eðlilegt. Sumum finnst það gefandi að fá að leggja lokahönd á frágang hins látna. Það er allur gangur á því. Ég sé samt langoftast um þessar hliðar og geri mitt besta til þess að uppfylla óskir fólks um hár og förðun,“ segir Kristín.
„Mér finnst áríðandi að muna hvað
við getum þakkað fyrir en leyfa okkur
að gráta og syrgja sem er eðlilegt.“
Syngur oft fyrir hinn látna
„Það erfiðasta sem ég geri er að fylgja barni til grafar, maður venst því aldrei og ég tárast yfirleitt sjálf í þeirri jarðarför. Maður reynir að vera sterkur en það er mannlegt að gráta og það má. Stundum kvíði ég fyrir jarðarför ef ég veit að allt í kringum andlátið hefur verið erfitt en þá tala ég við Guð minn og bið hann um aukastyrk inn í daginn. Ég geri þetta ekki ein, Guð er með mér. Það er ákveðin auðmýkt sem fylgir starfi mínu. Kærleikurinn er mikill og áríðandi að maður hlúi vel að aðstandendum og geri sitt besta fyrir þá. Þetta er viðkvæm stund en stundum er slegið á létta strengi þegar fólk fer að rifja upp eitthvað skemmtilegt um hinn látna. Það skiptast á skin og skúrir. Maður þarf að lesa í fólk og mæta því þar sem það er. Starfið mitt er krefjandi en ótrúlega fallegt og þakklátt. Mér finnst áríðandi að muna hvað við getum þakkað fyrir en leyfa okkur að gráta og syrgja sem er eðlilegt. Í dag er ég mjög afslöppuð við þessa vinnu og hef frið í hjartanu. Ég stend mig stundum að því þegar ég er að farða einstakling að ég tala við manneskjuna eða jafnvel syng fyrir hana og þá jafnvel lag sem ég syng ekki vanalega. Þegar ég hef verið ein að keyra líkbílinn hingað suður, þegar ég hef verið að sækja látinn einstakling út fyrir bæjarfélagið, þá byrja ég stundum að syngja eitthvað gamalt lag eins og Svífur yfir Esjunni eða eitthvað álíka og brosi að sjálfri mér. Þarna finnst mér sá látni vera að senda mér eitthvað frá sér. Þá er mikilvægt að taka eftir stund og stað, hvað er verið að segja manni? Dauðinn er eðlilegur partur af lífinu. Mér finnst þetta starf hafa gert mig að betri manneskju. Það er svo mikill kærleikur sem fylgir starfinu og samvinna þeirra sem koma að einu andláti er einstök. Allir svo samtaka um að gera þetta vel. Í kirkjunni er mjög gott samfélag og allt þetta góða fólk sem starfar í kirkju gerir mann að betri einstaklingi. Þetta snýst um það hjá okkur öllum að styðja hvert annað í hverri athöfn og að jarðarförin sé sem fallegust. Þetta er það síðasta sem aðstandendur gera fyrir ástvin sinn og sú minning þarf að vera falleg og góð. Allt ferlið í kringum eina jarðarför, frá upphafi til enda, þarf að ganga snurðulaust fyrir sig.“
Aðalsteinn við Keflavíkurkirkju.
Hvaða þjónusta er í boði?
„Þegar andlát ber að garði þá vita ekki allir hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, það er frá dánarstund til jarðarfarar. Það er margt sem þarf að huga að. Ákveðið ferli fer í gang. Við sjáum um útfarir á öllum Suðurnesjum og víðar ef til okkar er leitað. Þá erum við aðstandendum til aðstoðar í öllu því sem þeir óska. Langflestir vilja fá aðstoð við allt ferlið og funda með okkur um það. Fólk getur leitað til okkar strax eftir andlát. Við erum með kistur til sýnis hjá okkur og duftker ef um bálför er að ræða. Við útvegum allt sem þarf og alla þætti er varða útförina. Við höfum samband við þann prest sem óskað er eftir, grafara, höfum samaband við viðkomandi kirkju hvort hún sé laus, organista, kóra tónlistarfólk, pöntum blómaskreytingar, leiðakross, sjáum einnig um að panta þjónustu vegna erfidrykkju ef fólk vill og finnum sal. Við pöntum allt sem þarf, sendum dánartilkynningar í fjölmiðla og sjáum um samskiptin við prentsmiðjuna vegna söngskrár og fleira. Allt eftir óskum aðstandenda. Sumir vilja sjá um eitthvað sjálfir og biðja okkur um að sjá um aðra þætti. Fólk ræður þessu og við útvegum. Allt gerist eftir samkomulagi. Þetta er gjöfult starf sem ég hefði ekki getað gert ein án hjálpar alls þess yndislega fólks sem starfar innan kirkjunnar. Ég væri ekki svona sterk í þessu starfi mínu ef þau hefðu ekki styrkt mig og hvatt í alla staði og verið mér innan handar. Þeim á ég mikið að þakka,“ segir Kristín að lokum.