Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Laugardagur 6. febrúar 1999 kl. 12:29

EITT ATKVÆÐI - EINN FLOKKUR

Eitt atkvæði-einn flokkur ! Það er langt síðan glíman hætti að vera þjóðaríþrótt landans og flokkastofnun tók við. það hentar líka vel sjálfstæðu fólki, sem dreymir um eigin landskika, eigin bíl , hús osfrv. osfrv. að eiga heilan stjórnmálaflokk. Sumir taka þetta að vísu ekki alltof alvarlega, O listinn var feyki skemmtilegt fyrirbæri, en Sólskinsflokkurinn varð aldrei sérlega frumlegur né skemmtilegur. þá áttu Öfgafullir Jafnaðarmenn góða spretti. Flokkur mannsins var stofnaður hér um árið og vonaði ég að hér væri fyndið mótvægi við Kvennalistann, enda sá ég ekki betur en að flokknum stæði “Húmoristafélag Íslands “. Því miður átti þetta að vera Húmanistar og tóku flokkinn sinn alvarlega þó aðrir gerðu það ekki. Oft hefur hvarflað að mér, að fá hæfileikafólk í lið með mér og stofna félag Ójafnra Jafnaðarmanna, já eða misjafnra. Stefnuskrá liggur fyrir að mestu og slagorðafjöld.Alltaf fer samt svo, að flokkafjöldinn fyrir kosningar er slíkur, að ekki er á bætandi. Enginn nyju flokkanna ætlar viljandi að vera skemmtilegur, en tekst flestum þó. Frjálslyndi eitthvað flokkurinn á þó metið í lánleysi. Málstaður sem 75 % þjóðarinnar styður, herferð um allt land, viðtöl í fjölmiðlum..já framgangurinn ætti að vera vís. En eitthvað skortir á sjarmann og dómgreindina, enda skilst manni á Sverri að þarna fari menn sem engir aðrir flokkar vilji.Í ævintyrinu um Hans klaufa varð honum flest að gagni, dauður hrafn og fleira gott hjálpuðu honum að vinna kóngsdóttur og hálft ríkið. Hinum frjálslynda Klaufa-Bárði varð allt að óhamingju og jafnvel asninn sem hann sagðist hafa leitt í herbúðirnar stakk af með fylgið og stofnaði að mér heyrðist Frjálslynda Fasistaflokkinn og m.a.s. gildir kratar sverjast í fóstbræðralag við hann. Þegar sjónvarpað var frá stofnfundi flokksins sáust ýmis kunnugleg andlit. Fólk sem ekki hefur talið sig metið að verðleikum í öðrum flokkum eða leitar alltaf í nyja flokka í eilífri óánægju. Væri ekki nær að stofna flokk fyrir þetta fólk í eitt skifti fyrir öll t.d. Fúllynda sjálfræðisflokkinn, þar sem allir fá að heita formenn og haldnir eru fundir vikulega svo allir komist reglulega í ræðustól. Bankastjórinn fyrrverandi hefur það framyfir Klaufa-Bárð að vera skemmtilegur auk þess sem hann er beinskeyttur og kjaftfor. Hver skyldi líka draga í efa, að fyrrum íhald, kommisar og bankastjóri geti breyst í frelsandi baráttumann fyrir betri hag almennings. Hafði ekki Páll postuli atvinnu af að ofsækja kristna menn áður en hann snérist ??. Já kristnin.Kristilegi eitthvað flokkurinn er kominn á laggirnar. Eigum við ekki að láta nægja að benda á, að síðast liðin 2000 ár hefur sjaldnast gefist vel að blanda saman kristni og pólitík,og á Íslandi a.m.k. hafa hógværð,kærleikur og umhyggja ekki reynst góðir eiginleikar fyrir þá sem vilja ná frama í stjórnmálum. Texti dagsins; eldra whisky, betri bíla.. fleiri flokka. Hrafnkell.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024