Eitt af stóru framkvæmdaárum bæjarins
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar:
Árið í ár er að öllum líkindum eitt af stóru framkvæmdarárum Sandgerðisbæjar í þjónustulegu tilliti. Í upphafi kjörtímabilsins var megin áhersla bæjarstjórnar lögð á miklar framkvæmdir í þágu samfélagsins án þess að skerða velferðarþjónustuna. Megin markmiðbæjarstjórnar er því á hverjum tíma að bæta þjónustuna og nýta góðar tekjur bæjarfélagsins til að viðhalda lágum álögum á bæjarbúa.
Um þessi áramót fögnum við merkum áföngum á þeirri vegferð. Það er augljóst að stefnumál og markmið sem sett voru fram af hálfu meirihluta bæjarstjórnar eru að koma til framkvæmda eitt af öðru. Fyrr á árinu voru merk mannvirki tekinn í notkun, eins og ný sundlaug og stækkun á leikskóla bæjarfélagsins. Einnig hafa miklar framkvæmdir staðið yfir á öðrum sviðum
Fjármálaóveður gengur yfir þjóðina og mikil óvissa ríkir í þjóðfélaginu öllu. Ljóst er að margir munu lenda í erfiðleikum jafnt fyrirtæki sem einstaklingar. Hinsvegar er ljóst að að öll él styttir upp um síðir og við taka betri tímar. Öll grunngerð á Íslandi er traust. Auðlindir miklar til sjávar og sveita. Sjávarfang, orka og álver skapa miklar þjóðartekjur og menntun þjóðarinnar er góð. Á Suðurnesjum getur framtíðin því verið björt, en unnið er að ýmsum verkefnum sem munu skapa okkur tækifæri og verðmæti á nætu árum.
Fjárhagsstaða Sandgerðisbæjar er sterk og munu íbúar geta gengið að þjónustu vísri, eins og verið hefur. Bæjarfélagið mun komast í gegnum þetta öldurót með það að leiðarljósi að tryggja sem best velferð og þjónustu við íbúa Sandgerðisbæjar.
Í ljósi efnhagsástæðna verður samdrætti í tekjum Sandgerðisbæjar á árinu 2009 mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana, lækkun launa að einhverju leiti, breytingu á akstri í þágu bæjarfélagsins og endurskoðun þjónustustigs í einhverjum tilvikum án þess að segja upp starfsfólki. Útsvar, fasteignaskattur og almennar gjaldskrár verða óbreyttar frá árinu 2008.
Það er rétt að minna á að margt jákvætt hefur verið að gerast í bæjarfélaginu enda var ráðist í framkvæmdir fyrir um einn milljarð á árinu 2008. Auk þeirra verkefna sem ég nefni hér á undan þá gert ráð fyrir uppbyggingu á flugstöðvarsvæðinu og markaðsátaki í atvinnumálum og frekari uppbyggingu byggðar. Lögð er megin áherslu á að vernda grunnþjónustu bæjarbúa sem og að stuðla að háu atvinnustigi með umtalsverðum framkvæmdum á árinu 2009.