Eiríkur Árni: Frelsið er dásamlegt
- býður til afmælistónleika á sunnudag
„Ég er frjáls maður og ræð mér sjálfur,“ segir Eiríkur Árni Sigtryggsson tónskáld þegar blaðamaður hringir í hann og spyr hvaða tími henti best fyrir viðtal.
Hvernig er að vera frjáls maður, spyr blaðamaður.
„Ég hafði beðið eftir þessum degi í 50 ár,“ segir Eiríkur Árni Sigtryggsson tónskáld í Reykjanesbæ og bætir við: „Þetta er bara dásamlegt. Það eru svo margir sem kvíða þessum tíma. Ég var hins vegar alltaf að starfa eitthvað fyrir utan atvinnuna. Þegar venjulegum vinnudegi lauk fór ég að skapa eitthvað annað, gera eitthvað listrænt í frístundum“.
Eiríkur Árni er bæði að fást við myndlist og tónlist en þessar vikurnar á tónlistin hug hans allan. Eiríkur Árni fagnaði 70 ára afmæli þann 14. september sl. og í tilefni af þeim tímamótum býður tónskáldið til tónleika í Hljómahöllinni (Stapa) nk. sunnudag, 27. október kl. 14:00. Þar verða flutt 20 ný einsöngslög eftir Eirík Árna. Flytjendur verða Dagný Jónsdóttir sópran og Richard Simm píanóleikari. Allir eru velkomnir og aðgangseyrir er enginn.
- Ertu eingöngu í klassískri tónlist?
„Já, en stundum koma jazz-áhrif. Ég er gamall jazzari og hef gaman af því að blanda saman jazz og klassík. Set jazz-krydd í hljóma þegar ég er að búa til undirleik í sönglög“.
- Hvað ertu að fást við stór verk?
„Ég er að skrifa verk fyrir strengjasveitir og blásarasveitir og jafnvel heilu sinfóníuhljómsveitirnar“.
- Þetta er mikil vinna
„Já, en tölvan hefur breytt óskaplega miklu fyrir okkur tónskáldin. Áður fyrr skrifaði maður allt í höndunum, þúsundir og tugþúsundir af nótum. Heilu sumurin fóru í að skrifa raddir og maður var orðinn handlama á haustin. Nú ýtir maður bara á takka og prentarinn spýtir þessu út,“ segir Eiríkur Árni og hlær við tilhugsunina. „Þetta er allt annað líf, drengur minn“.
Eiríkur Árni hefur skrifað sjö sinfóníur og tvær þeirra hafa verið fluttar opinberlega. „Og þar er alltaf von á frekari flutningi,“ segir tónskáldið sem í dag segist bíða á hliðarlínunni hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem hefur verið að skoða verk hans.
- Hvernig verður sinfónlía til?
„Ég byrja með hugmynd að heild eða heildarhugsun. Þessi heildarhugsun er þá hljómagrind eða laglínuhugmyndir sem hægt er að flétta saman. Svo sest maður niður og opnar tölvuna og setur niður öll þau hljóðfæri sem maður ætlar að nota. Það er óskaplega gaman að notast við forrit sem getur sett niður 23 eða fleiri hljóðfæri eða raddir sem maður ætlar að notast við. Svo horfir maður á þetta lengi áður en maður kemur sér að því að láta þetta byrja. Oft byrjar maður rólega,“ segir Eiríkur Árni og hummar hljóðdæmi fyrir blaðamann. „Svo bara kemur þetta og ef maður er ekki ánægður þá þurrkar maður þetta bara út og byrjar upp á nýtt“.
- Ertu að segja sögur í þinni tónlist?
„Stundum er maður með þær í huga þó svo enginn viti af því og enginn komi til með að heyra það. Annars er þetta mikið bara reynsla, þjálfun, kunnátta og þekking“.
Eiríkur Árni vinnur alla sína tónlist í stóru nótnaskriftarforriti sem heitir Finale. Hann segir það mikinn kost því forritið spili fyrir hann tónlistina sem hann semur. Áður hafi hann þurft að lesa sig í gegnum nóturnar og reynt að ná út öllum hljómunum í gegnum píanó eða hljómborð.
Í dag hefst vinnudagur tónskáldsins um hádegisbil. Þá segist Eiríkur Árni vera kominn í gott stuð til að vinna. Hann taki morgnana í rólegheit og praktíska hluti. „Ég var að skrifa undirleik fyrir sönglag þegar þú hringdir í mig áðan,“ segir tónskáldið.
- Þú ert að fara að halda 70 ára afmælistónleika. Hver er efnisskráin?
„Það á að flytja 20 ný sönglög sem enginn, eða mjög fáir hafa heyrt áður. Þau eru bæði falleg, frumleg og furðuleg“.
- Ertu að semja bæði lag og texta?
„Ég fæ stundum lög í höfuðið og þá verð ég að skrifa þau niður. Þá kemur að því að finna texta við lagið. Stundum finn ég hann ekki og þá sem ég hann sjálfur. Ég hef gert það við um það bil helminginn af þessum lögum. Svo eru textar eftir Laxness, Bólu-Hjálmar, Kristinn Reyr, Þór Stefánsson, Þorstein Valdimarsson og fleiri“.
- En ertu eitthvað að taka í penslana?
„Ég er alltaf eitthvað að mála en það er miklu minna en það var. Ég veit ekki af hverju það er en það kemur að því aftur að ég set kraft í málaralistina. Ég er aðallega í því að snurfusa gamlar myndir og laga þær til. Það er alltaf hægt að bæta myndirnar,“ segir Eiríkur Árni og hlær.
- Hvert er svo framhaldið hjá þér eftir tónleikana á sunnudaginn?
„Það verða fleiri tónleikar. Tónskáldafélagið ætlar að heiðra mig með tónleikum í vor á Myrkum músíkdögum. Þá er ég að plana það að láta flytja píanókonsert eftir mig í vor. Ég er búinn að fá píanista og hljómsveit. Svo byrjar maður bara að safna efni í 75 ára afmælið,“ segir tónskáldið Eiríkur Árni Sigtryggsson og hlær.
UM EIRÍK ÁRNA:
Eiríkur Árni Sigtryggsson fæddist í Keflavík 14. september 1943. Hann nam píanóleik hjá Ragnari Björnssyni í Tónlistarskóla Keflavíkur en síðan lá leiðin í söngkennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og útskrifaðist hann sem söngkennari tvítugur árið 1963. Síðan þá hefur Eiríkur Árni stundað tónlistarkennslu og önnur tónlistarstörf.
Árið 1965 tók hann þátt í námskeiði í Handíða-og myndlistarskólanum undir handleiðslu Kurt Zier skólastjóra og fékk við það kennsluréttindi í myndlist. Eiríkur Árni stundaði myndlistarnám hjá Valtý Péturssyni og Hring Jóhannessyni og hefur einnig starfað sem myndlistarkennari og myndlistarmaður. Hann er með margar einkasýningar að baki.
Eiríkur hélt til Bandaríkjanna árið 1983 til frekara náms í tónlist. Hann stundaði nám í tónsmíðum í Andrews University og flutti sig síðan yfir í Manitoba-háskóla. Þegar heim kom kláraði hann nám við Tónfræðideild Tónlistarskóalns í Reykjavík árið 1989. Síðan hefur Eiríkur Árni stundað tónsmíðar ásamt kennslu.
Hann hefur samið fjölda tónverka, m.a. sinfóníur, strengjakvartetta, kórverk, orgelverk, sönglög og fl. Mörg verka Eiríks Árna hafa verið flutt opniberlega. Sem dæmi var fluttur Konsert fyrir enskt horn og blásarasveit á Myrkum músíkdögum í vor sem leið.