Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Eintóm hamingja að búa hér
  • Eintóm hamingja að búa hér
    Unnusta Loga, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, og sonur þeirra, Vilberg Eldon.
Sunnudagur 30. mars 2014 kl. 08:00

Eintóm hamingja að búa hér

Auðvelt að kynnast fólki á Suðurnesjum, segir Logi.

Logi Geirsson, fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður í handbolta, er einn af tengdasonum Suðurnesja. Unnusta hans er Njarðvíkurmærin Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir. Logi segir í stuttu viðtali við Víkurfréttir hvernig honum líkar að búa hér á svæðinu og hvað hann fæst við í dag.

Lítið mál að fá dagmömmu
„Við fluttum frá Þýskalandi árið 2010 og fyrsta árið vorum við búsett í Hafnarfirði. Það var svo röð atvika sem leiddu okkur á Suðurnesin. Unnusta mín er flugfreyja hjá Icelandair og því vorum við stutt frá flugvellinum. Einnig var erfitt að finna pláss hjá dagmömmu fyrir strákinn okkar í Hafnarfirði en það var lítið mál hér og svo leist okkur svo vel á eitt hús í Ásahverfinu að við skelltum okkur bara í smá ævintýri,“ segir Logi, sem núna er háskólanemi og eigandi Fjarform.is. Hann segir að fjölskyldunni líði mjög vel í Reykjanesbæ og geti varla hugsað sér að flytja þaðan, eins og staðan er. „Þetta er búið að vera eintóm hamingja síðan við settumst hér að. Kostirnir við samfélagið er smæð þess, það minnir mann svolítið á Hafnarfjörð og maður er fljótur að kynnast fólki hérna.“

Lögreglan mjög sýnileg
Logi segir Sporthúsið vera frábært mannvirki og eina glæsilegustu stöð landsins sem hann vonar að sem flestir nýti sér; þar sé eitthvað fyrir alla. „Mér finnst líka gaman að sjá hvað Árni Sigfússon og félagar hafa búið til mikið aðdráttarafl og glætt bæjarfélagið og bæinn lífi. Svo finnst mér líka aðdáunarvert hversu sýnilegir lögreglumenn eru hérna, það heyrir til undantekninga að keyra Hafnargötuna án þess að mæta lögreglunni.“

Hollari skyndibitastaðir og jákvæðari fréttir
Í öllum sveitarfélögum er hægt að gera eitthvað betur og að mati Loga mættu koma hollir skyndibitastaðir eins og Saffran eða Serrano. „Einnig man ég tímana þar sem ég mætti að horfa á körfuboltaleiki hérna á yngri árum þar sem yfirleitt var fullt af fólki og gríðarleg stemmning. Ég held að það væri hægt að rífa þetta betur upp hérna aftur með smá vinnu og vera með kjaftfullt á hverjum leik. Einnig mætti vera meira um einfalda viðburði tengdum menningu,“ segir Logi en tekur þó fram að svona heilt yfir þá telji hann að það mætti vera meira af jákvæðum fréttum af Suðurnesjum yfirleitt því að hellingur af góðum hlutum séu að gerast hérna á hverjum degi. „Einhverra hluta vegna skín það ekki í gegnum neikvæða umræðu sem virðist oft eiga sér stað um Suðurnesin.“

Langvarandi áhrif á líf fólks
Logi er um þessar mundir að skrifa Bs. ritgerð í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst, útskrifast þaðan í vor. „Síðan er það fyrirtæki mitt, www.fjarform.is, sem er eitt af því sem ég hef skapað og hef mest gaman af. Þar leitumst við eftir að vera mikils virði fyrir heilsu fólks og hafa góð langvarandi áhrif á líf fólks. Þetta er Fjarþjálfun í grunninn. Við fræðum fólk um það sem skiptir mestu máli og hvetjum það til að ná markmiðum sínum.“ Logi segist mjög stoltur af því að geta hjálpað og kennt fólki að breyta um lífsstíl. „Ég hef fengið til mín í þjálfun helling af Suðurnesjafólki. Það hvílir mikil ábyrgð í því að taka heilsu einstaklinga í sínar hendur en það er það skemmtilegasta sem ég geri.“

Samfélagsmiðill í smíðum
Einnig er Logi með í smíðum samfélagsmiðil sem væntanlega verður að veruleika innan tveggja ára þannig að ekki vantar járnin í eldinn. „Suðurnesin hafa komið mér mikið á óvart og ég er stoltur af því að búa hérna. Það er ekki bara slagsmál og rok hérna eins og oft er talað um heldur er þetta fjölbreytt samfélag með marga frábæra kosti og satt best að segja grunaði mig ekki hversu gott er að búa hér,“ segir Logi að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024