Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einstakur tónlistarviðburður í Ytri-Njarðvíkurkirkju
Karlakór Stokkhólms (Stockholms Manskör).
Fimmtudagur 10. október 2024 kl. 06:05

Einstakur tónlistarviðburður í Ytri-Njarðvíkurkirkju

Þann 11. október næstkomandi mun fara fram einstakur tónlistarviðburður í Ytri-Njarðvíkurkirkju, þar sem Karlakór Stokkhólms (Stockholms Manskör) og Karlakór Keflavíkur sameinast í söng. Það verða fyrstu tónleikar Svíanna hér á landi því síðan verða tónleikar með Karlakórnum Fóstbræðrum í Langholtskirkju 12. október kl. 17:00 og með Karlakór Selfoss í Skálholtskirkju 13. október kl. 16:00.

Margir meðlimir Karlkórs Stokkhólms hófu sinn söngferil í hinum þekkta kór Orphei Drängar frá háskólanum í Uppsölum. Þegar þeim þroska var náð að vera ekki lengur gjaldgengir í Orphei drengjunum hittist hluti af söngvurunum aftur í Karlakór Stokkhólms ásamt fleiri reyndum söngvurum sem höfðu bakgrunn í t.d. sænska útvarpskórnum og óperunum í Gautaborg og Stokkhólmi og var aðalaðdráttaraflið að fá að syngja undir stjórn Håkan Sund sem er einn fjölhæfasti tónlistarmaður Svíþjóðar. Árið 2012 urðu þáttaskil í starfsemi kórsins. Í október það ár söng kórinn í fyrsta skipti utan Svíðþjóðar, nánar tiltekið á Frönsku Rivierunni í boði Sænska Riviera klúbbsins. Við þetta tækifæri varð afþreyingarhugtakið „Dîner Spectacle“ til sem hefur verið þróað og fínpússað í endurteknum heimsóknum kórsins til Frönsku og Ítölsku Rivierunnar og í heimsóknum kórsins til annara landa eins og t.d. Kanada, Bandaríkjanna, Eistlands, Baskalandanna, Noregs og til stórborganna London og Paris.

Á efnisskrá Karlakórs Stokkhólms eru verk eftir Norræn tónskáld eins og Edvard Grieg, Hugo Alfvén og Jean Sibelius. Einnig verk Franskra tónskálda og má nefna Camille Saint-Saëns, Darius Milhaud og Francis Paulenc sem dæmi. Til að slá á léttari strengi hefur kórinn flutt lög eins og Bridge over troubled water, Fever og ABBA lög sem hinn hæfileikaríki stjórnandi þeirra Håkan Sund hefur að mestu leyti séð um að útsetja. Kórmeðlimir hlakka mikið til að syngja á Íslandi á alvöru tónleikum með þessum ágætu Íslensku kórum þar sem einu skiptin sem sumir þeirra hafa sungið hérlendis hingað til var þegar þeir voru á leið til og frá Bandaríkjunum 1970 og 1974 og tóku lagið þegar millilent var á Keflavíkurflugvelli og vakti það mikla ánægju samferðarmanna þeirra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Karlakór Keflavíkur.

Karlakór Keflavíkur er Suðurnesjamönnum að góðu kunnur enda hefur kórinn árlega haldið bæði jólatónleika og vortónleika. Efnisskrá Karlakórs Keflavíkur hefur alltaf verið fjölbreytt þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi, hvort sem um er að ræða klassík eða léttari lög. Síðasta haust hélt kórinn upp á 70 ára afmæli sitt og það er ánægjulegt fyrir kórinn að fá að syngja með hinum stórgóða Karlakór Stokkhólms nú í haust. Stjórnandi Karlakórs Keflavíkur er Jóhann Smári Sævarsson okkar vel þekkti óperusöngvari og undirleikari er hinn fjölhæfi tónlistarmaður Sævar Helgi Jóhannsson.