„Einstakt safn karaktera“ hjá Hildi á handverkshátíðinni
	Hildur Harðardóttir úr Keflavík hlaut aukaverðlaunin á handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit sem haldin var um helgina í Hrafnagilsskóla.
	Í umsögn valnefndar segir svo um sölubásinn - Hildur H. List-Hönnun:
	„Einstakt safn karaktera sem í fjölbreytileika sínum vekja gleði og kátínu. Hildur tekst á við flókið viðfangsefni af listrænu innsæi og tekur sig mátulega alvarlega.“
	Handverksmaður ársins var valinn Þórdís Jónsdóttir og verðlaun fyrir sölubás ársins hlýtur Vagg og Velta.
Handverkshátíðin var nú haldin í 23. sinn. Um 100 hönnuðir og handverksfólk seldu fatnað, keramik, snyrtivörur, textílvörur og skart sem oftar en ekki er unnið úr rammíslensku hráefni. Á útisvæðinu var hægt að bragða á og kaupa góðgæti frá Beint frá býli auk fjölda annarra aðila.
	


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				