Einstakar hverastrýtur og djúpsjávarkóralrif fundust á Reykjaneshrygg
-Sérfræðingar unnu úr rannsóknunum í Þekkingasetrinu í Sandgerði.
Hópur íslenskra og erlendra líffræðinga fann í rannsóknum sínum sem þeir unnu við í sumar, einstakar hverfastrýtur og djúpsjávarkóralrif á Reykjaneshrygg. Strýtur sem þessar hafa aðeins fundist einu sinni áður við Ísland, í Eyjafirði. Strýturnar á Reykjanesi voru allt að 2.500 fermetrar að stærð. Notast var m.a. við tvo kafbáta í rannsóknunum.
Hluti hópsins var um borð í þýska rannsóknaskipinu Maria S. Merian sem lét úr Reykjavíkurhöfn 29. júní síðastliðinn. Markmið rannsóknarleiðangursins var að leita að jarðhitasvæðum á Reykjaneshrygg og kanna lífríkið á þeim svæðum. Vísindamennirnir höfðu mjög fjölbreytilegan tækjabúnað meðferðis, meðal annars botnsleða og tvo kafbáta, annan fjarstýrðan en hinn sjálfstýrðan sem kallast Tiffy. Leiðangrinum lauk 8. ágúst og þá hélt hópurinn til Sandgerðis, í Þekkingarsetrið, til að greina hluta þeirra sýna sem safnað var í sjóferðinni. Fræðimennirnir voru 23 og komu frá sjö löndum; Þýskalandi, Spáni, Noregi, Bretlandseyjum, Póllandi, Bandaríkjunum og að sjálfsögðu frá Íslandi.
Hópurinn uppgötvaði margt á leið sinni um Reykjaneshrygginn og má þá helst nefna nýjar hverastrýtur (e. Chimneys) sem fundust á miðju hverasvæði á Steinahóli á Reykjaneshrygg. Strýtur sem þessar hafa aðeins fundist einu sinni áður við Ísland, í Eyjafirði. Segja má að þetta sé einstök uppgötvun. Einnig fann hópurinn mjög sérstök djúpsjávarkóralrif sem ekki eru áður þekkt og því merkilegur fundur fyrir fræðimennina.
Það voru þau Saskia Brix, sem var ein þeirra sem stýrði leiðangrinum, og Jörundur Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem sögðu blaðamanni frá þessum merkilegu uppgötvunum, en þess má geta að litlu munaði að hverastrýturnar hefðu ekki fundist. Í fyrstu ferð þeirra undir yfirborð sjávar fundu þau ekkert en ákváðu svo að fara aftur á nákvæmlega sama stað þann 2. ágúst. Þá fóru þau með fjarstýrða kafbátinn sem þau notuðust við, sendu hann í aðra átt og fundu þá hverastrýtur á svæði sem er um 2.500 fermetrar að stærð. Það mátti því mjög litlu muna að þessar merkilegu og einstöku strýtur hefðu ekki fundist, en þær lægstu eru um metri að hæð en þær hæstu allt að fjögurra metra háar.
Hópurinn var mjög ánægður með aðstöðuna í Þekkingarsetrinu og hrósaði henni í gríð og erg. Þessi leiðangur var sá þriðji á sjö árum, en stefnan er sett á að fara annan leiðangur á næsta ári. Hópurinn hélt aftur á sínar heimaslóðir síðastliðinn laugardag og tók með sér fjöldann allan af sýnum sem eru þýðingarmikil fyrir vísindin og á eftir að vinna frekar úr.