Eins og grár köttur í Virkjun á milli vakta
Bjarni Stefánsson hafði verið að vinna hjá vélaverktökum á gröfum og vörubílum áður en hann missti vinnuna um miðjan janúar í fyrra. Hann kynntist Virkjun á Ásbrú þegar hann kom þangað á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun. Honum fannst Virkjun strax áhugaverð en sagðist fyrst bara hafa ætlað að fá sér kaffibolla og hitta fólk.
Bjarni segist fljótt hafa kynnst Gunnari Halldóri, forstöðumanni Virkjunar, sem hafi spurt hvort hann gæti ekki lagt eitthvað af mörkum því hann sé alltaf að leita að sjálfboðaliðum. Ég sagði strax að ef ég gæti lagt eitthvað að mörkum þá myndi ég gera það. Ég sagði Gunnari það að ég kynni að glamra eitthvað á gítar og sagðist treysta mér til að leiðbeina á gítarinn.
Bjarni hefur leiðbeint nokkrum hópum í gítargripum og þá hefur hann einnig tekið þátt í starfi sem kallast Vinir í velgengni. Settir hafa verið upp tónleikar á sal Virkjunar, Virkjunardagurinn haldinn hátíðlegur og margt annað áhugavert verið gert.
Þó svo Bjarni hafi fengið vinnu í mars á sl. ári hjá hlaðdeild IGS þá kom það ekki í veg fyrir að hann héldi áfram að starfa með Virkjun. „Ég var hérna eins og grár köttur á milli vakta og alltaf verið hérna með annan fótinn,“ segir Bjarni í samtali við blaðið.
Hann missti aftur vinnuna í september á sl. ári og fór þá á fullt í starfið með Virkjun. M.a. hefur hann haldið gítarnámskeið en segir að fólk sem sé án atvinnu megi vera virkara í starfinu í Virkjun.
Bjarni segir að Virkjun hafi gert mikið fyrir sig og þá sérstaklega félagslega og hann segir stærsta plúsinn við Virkjun vera allt það góða fólk sem hann hafi kynnst þar. Hann hafi kynnst álíka mörgum í Virkjun á síðasta ári eins og á síðustu tíu árum í lífi sínu.
Bjarni hvetur fólk til að taka þátt í starfinu í Virkjun og a.m.k. láta sjá sig og kíkja í kaffibolla. Mikil jákvæðni sé í gangi í Virkjun og þar verði fólk lítið vart við neikvæða strauma.