Eins og fólki hafi fækkað í bænum
Gróa Hreinsdóttir er organisti í Noregi og keyrir með ferðamenn um Ísland
„Ég stefni á að koma til Íslands og á flugmiða 11. júní, knúsa barnabörnin sem í urðu fjögur að tölu í síðustu viku. Eyða tíma með pabba mínum og börnum, vinum og ættingjum. Ætlunin var að keyra ferðamenn, sem nú eru eins og geirfuglinn, alveg horfnir,“ segir Gróa Hreinsdóttir, organisti í norska bænum Drammen.
Gróa segir að tilveran hafi breyst mikið undanfarnar vikur á veirutímum.
Hér er eins og fólki hafi fækkað í bænum, fáir bílar á ferli og víða lokaðar þjónustustofnanir. Engar messur hafa verið í kirkjunni okkar en ég hef þurft að keyra í nálægan bæ til að spila við útfarir tvo, þrjá daga í viku. Heldur engar kóræfingar eða aðrar samkomur og starfsmannafundir einu sinni í viku haldnir á Zoom. Þá höfum við tekið upp stutt myndbönd fyrir hvern sunnudag eða helgidag og sett á netið.
Drammen er yndislegur
Drammen er um 35 kílómetra suð-suðvestur af Osló, íbúar er um 70 þúsund.
„Hér voru átta sóknir þar til um síðustu áramót að það sameinuðust fleiri sveitarfélög, svo nú eru þetta tíu sóknir sem heyra undir sama prófastinn. Drammen er yndislegur bær með ár sem renna hægt og rólega og sameinast hafinu eiginlega í miðjum bænum. Háar hlíðar eru á tvo vegu en skyggja ekkert á bæinn. Mikill trjágróður er hérna eins og víðast hvar í Noregi og núna eru öll tré orðin laufguð og æðislega falleg,“ segir Njarðvíkingurinn sem er ánægður þar ytra.
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Já, hérna í kringum mig finnst mér það.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Að við erum öll varnarlaus gagnvart svona vágestum og verðum að fara eftir reglum sem fagfólk setur.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Nota símann mikið og ekki síður Messenger þar sem ég get séð framan í fólkið mitt. Dóttir mín var til dæmis einn daginn búin að klippa á sig topp og bróðir minn allt í einu kominn með skegg. Þetta hefði ég ekki vitað nema fyrir Messenger sem mér finnst dásamleg uppfinning.
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Já, ég geri það vegna þess að það er alltaf bjart á sumrin.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Oftast eiga tónlistarmenn ekki önnur áhugamál en tónlist. Alla tíð hefur eiginlega vinnan mín verið mitt áhugamál og sannarlega hefur þetta ástand sett strik í reikninginn. Ég get ekki hitt þá sem sinna áhugamálinu mínu með mér, þ.e. kórfólkið mitt.
Ferðamenn ánægðir með náttúru Íslands
Gróa hefur verið á sumrin á Íslandi undanfarin sumur og ekið með ferðamenn í rútum um landið okkar fagra.
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Eftir að ég gerðist rútubílstjóri og keyrði um landið með erlenda ferðamenn hef ég verið svo lánsöm að koma á staði sem ég hafði aldrei áður séð. Það er náttúrufegurð sem dregur hugann núna á nokkra staði; Eyjafjöll, Dyrhólaey, Aðaldal, Snæfellsjökul, allt yndislegar náttúruperlur.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Pabbi minn fengi það símtal. Hann er hetjan mín.
– Ertu liðtæk í eldhúsinu?
Uh … já! Enda búin að elda ofan í fimm börn. Tengdadóttir mín segir að það sé engin betri en ég þegar kemur að eldamennsku.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Eitthvað nýtt! Elska að prófa alls konar og taka áhættur, t.d. þegar ég fæ gesti, að elda eitthvað sem ég hef aldrei eldað fyrr og veit ekkert hvernig smakkast.
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
GÓÐUR matur úr hreinu hráefni.
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Lunda … svo ég sleppi því að nefna eitthvað óæti frá „Langtíburtistan“.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Súrdeigsbrauð sem misheppnaðist. Ég er ekki hálfdrættingur á við hann Sigga minn.
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Gott grænmeti.
SJÁIÐ VIÐTALIÐ VIÐ GRÓU Í RAFRÆNU BLAÐI VÍKURFRÉTTA.