Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eins og fegursta málverk út um stofugluggann
Fimmtudagur 30. ágúst 2007 kl. 16:34

Eins og fegursta málverk út um stofugluggann

Því er stundum haldið fram að við tengjum okkur við sammannlega reynslu þegar við njótum lista því listin skapi brú milli ólíkra hugarheima og tryggi þannig grunnsamskipti manna.  Höfundurinn setur fram verk sín og opinberar þannig tilfinningar sínar. Um leið er hann að þroska þær, hreinsa þær og víkka þær út. Höfundurinn er að sýna eitthvað úr einstökum hugarheimi sínum sem skírskotar til allra einstakra hugarheima.
Halla Haraldsdóttir er hvergi af baki dottinn í listsköpun sinni. Hún hefur haft meðvind og mótvind sem hefur eflt hana í baráttunni fyrir að sinna þeirri þörf sem alla tíð hefur búið innra með henni. Fyrir ári síðan fluttu Hjálmar Stefánsson fyrirverandi útibússtjóri Landsbankans og Halla Har listakona af Heiðarbrúninni í nýja glæsilega íbúð í Garðabæ. Hver er ástæðan?


Það telst til tíðinda þegar sjötíu og tveggja ára hjón gera mikil umskipti í lífi sínu, flytja milli byggðarlaga og gerast frumbyggjar í nýju íbúðahverfi. Það gerðu Halla Har listakona og Hjálmar Stefánsson fyrrverandi útibússtjóri Landsbankans þegar þau fluttu í Sjálandshverfið í Garðabæ og skiptu algerlega um stíl þegar þau innréttuðu nýju íbúðina að Strandvegi 1. Það er ekki að sjá að þau séu að setjast í helgan stein eða leggja drög að áhyggjulausu ævikvöldi eins og sumir vilja kalla það. Þau eru í fullu fjöri, Halla málar og hefur mikið að gera milli þess sem þau hjónin flakka heimshorna á milli. Aðspurð um ástæður flutninganna segja þau þær vera þær sömu og þegar þau fluttu til Keflavíkur á sínum tíma, eftir að hafa átt heima í Danmörku í rúm tvö ár, þ.e. fjölskylduástæður. Á sínum tíma fluttu þau til að vera sem næst flugvellinum með Halla Gunna son þeirra sem dvaldi þá langdvölum í Danmörku því þar var helst að fá kennslu og þjónustu fyrir illa sjáandi  íslensk börn. Enn í dag eru ungir foreldrar í sömu sporum og þau voru og flytja búferlum til að vera nær þjónustunni.
Halli Gunni býr nú í Reykjavík og hinir tveir synir þeirra hjóna, Stefán og Þórarinn, hafa einnig komið sér fyrir á Reykjavíkursvæðinu með sínar fjölskyldur. Móðir Höllu, Guðrún Brynjólfsdóttir, níutíu og tveggja ára, býr einnig þar og voru þær mæðgur ásamt Hjálmari á leið að Krumshólum í Borgarfirði er við náðum tali af þeim hjónum.
Mér fannst komin tími til að breyta til en okkur leið alltaf vel í Keflavík. Fólkið þar reyndist okkur vel.
Það var mikill styrkur hvað fólk kom mikið til mín og við eignuðumst góða vini sem við vissulega söknum. En á móti kemur meiri nánd við nánustu fjölskyldu.

Fegursta málverk í heimi út um stofugluggann.
Hjálmar og Halla hafa verið gift í 52 ár, eru æskuvinir og hafa fylgst að í gegnum lífið allt frá fyrsta bekk í barnaskóla. Þau byrjuðu að búa á Siglufirði og Hjálmar starfaði sem skrifstofustjóri hjá Kaupfélaginu þar og var einnig með Samvinnutryggingar. Hann hóf störf hjá Birgi Guðnasyni fyrst eftir komuna til Keflavíkur. Hann starfaði síðan hjá Samvinnutryggingum á Vatnsnestorgi sem þá voru innan Samvinnubankans. Hann tók svo við útibússtjórastöðunni þar af Guðmundi Bjarnasyni en eftir sameiningu bankanna starfaði hann hjá Landsbankanum sem útibússtjóri  síðast í Sandgerði. Þau segja að þeim hafi alltaf liðið vel í Keflavík þessi þrjátíu og fimm ár sem þau bjuggu þar en það hafi verið komin tími til að endurskipuleggja sig.  Þau fluttu úr rúmgóðu einbýlishúsi og skiptu algerlega um fyrirkomulag, innbú og liti. Fóru úr dökku í allt ljóst, fóru á eina hæð og búa nú í flæðarmálinu í stað þess að búa upp í heiði við gamla kirkjugarðinn þar sem þau höfðu útsýni yfir bæinn og  út á Faxaflóann.
Umsnúningurinn er mikill og hefur haft ótrúlega góð áhrif sem kemur fram í öllu daglegu lífi þeirra hjóna.  Heimilið, útsýnið, litir og umhverfi hafa alltaf haft mikið með líf Höllu að gera og segir hún að útsýnið úr stofuglugganum hjá sér núna sé eitt fegursta málverk í heimi. Það gefur henni innblástur sem sjá má í nýjustu verkum hennar.

Æskuslóðir norður við heimskautsbaug.
Fótspor æsku þeirra á Siglufirði eru innrömmuð í hinn magnaða náttúruskjá sem þar er að finna. Þar var löngum stundum hægt að horfa á stjörnurnar og norðurljósin dansa þegar dagur var stuttur. Í faðmi fjallanna mátti líka njóta himinblámans og birtu miðnætursólar á löngum sumarnóttum jafnt sem morgunroðans og sólsetursins þarna norður við ystu nöf. Þau koma úr jarðvegi verkamanna á afskekktum stað þar sem menn unnu hörðum höndum að því að halda í byggð þorpi á útkjálka þar sem síldarævintýri áttu sér stað með blóm í haga en þar gat líka verið harðbýlt, dimmt og kalt. Hjálmar fékk framanaf  útrás  í íþróttum. Hann var í fótbolta, fimleikum og í skíðabrekkunum á meðan Halla tjáði með myndum það sem fyrir augu bar og þau áhrif sem það hafði á hana. Halla segir að Hjálmar hafi verið mikið félagsmálatröll og hafi verið í nánast öllu nema kvenfélaginu. Lífshlaup og saga þeirra hjóna er liður í “Íslandssögu nútímans” og brot af þeirri sögu landsins sem var undanfari þeirrar útrásar sem við lifum í dag. Sögusviðið spannar allt frá börnum að leik í þessu litla þorpi við sjávarsíðuna til víðföruls eldra fólks, heimsborgara, sem ferðast um heiminn bæði til að fara í skíðaferðir, sólarlandaferðir til námsferða og menningartengdra viðburða.

Halla á ART-EXPO í New York
Frá unga aldri sá Halla veröldina í lit. Umgjörðin um hughrif og baráttan fyrir að fá að sinna listagyðjunni hefur mótað allan listamannaferil Höllu.  Sá fjölbreytileiki sem náttúran birti henni í frumbernsku og þeir tímar sem fóstruðu hana sem unga konu og móður blésu henni baráttu í brjóst sem setur svip á verk hennar og hefur í raun gert hana að þeirri baráttukonu í lífinu og listinni sem raun ber vitni. Allra síst lá það fyrir  ungum stúlkum á Siglufirði fyrir miðja síðustu öld að taka þátt í útrás íslenskra listamanna eða að kynna list sína í Vesturheimi. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og Halla er einmitt nýkomin frá Bandaríkjunum þar sem hún sýndi verk sín á ART-EXPO sýningunni í New York sem er ein stærsta sýning sinnar tegundar í heiminum. „Það var ótrúleg upplifun að taka þátt í þessari sýningu. Sýningarsvæðið var svo stórt og þar mátti sjá fjölbreytt listaverk” segir Halla. En hvernig kom það til að Halla tók þátt í þessari sýningu og hvernig komst hún í samband við bandaríska sýningahaldara?

Kvennaklúbburinn á Vellinum “The international womens club”
„Það var í kringum 1987 eftir að eiginkonur háttsettra manna á Keflavíkurflugvelli höfðu gert sig heimakomnar í galleríinu hjá mér og vinatengsl mynduðust. Þessar konur hvöttu mig til að halda sýningu á verkum mínum á Vellinum og hélt ég þar einkasýningar um árabil”.
Það var Ellert Eiríksson sem hafði vísað þessum konum á Höllu. Menningartengslin endurnýjuðust í hvert sinn sem mannaskipti urðu á Vellinum og leiddu til mikilvægra tengsla við annað myndlistarfólk í Reykjanesbæ.  Eftir að Halla stakk  upp á að þær fengju fleiri listamenn til liðs við sig, útbjó hún lista fyrir konurnar þar sem hún lýsti listamönnum sem störfuðu á svæðinu og verkum þeirra. Þarna mynduðust mikilvæg tengsl og boltinn fór að rúlla.
Halla sýnir okkur bækling sem gerður var fyrir áratug síðan vegna sameiginlegrar sýningar 24.september 1997 á Keflavíkurflugvelli undir yfirskriftinni “Artists of the Reykjanes Peninsula”  Þar er umsögn um listamennina Ástu Árnadóttur, Áka Granz, Erling Jónsson, Heiðrúnu Þorgeirsdóttur og Erlu Sigurbergsdóttur auk Höllu. Hluti bæklingsins er helgaður þökkum til Höllu: „On behalf of the International Women´s club, the NATO Base wives would like to give special thanks to Halla Haraldsdóttir for all of the time and effort that she has devoted in making this exhibition a sucess.  Through Halla´s experience and guidance we were able to select some of the Reykjanesbaer´s most talented artists to display their work for us today. Halla is a wonderful friend and has become a special part of our lives. Thank you to Halla and all of the artists who helped make today so special!”
Í gegnum kvennaklúbbinn á vellinum kynntist Halla Valerie Johnson og síðar manni hennar Mike, sem stóðu fyrir því að hún sýndi verk sín á ART EXPO ásamt öðrum listamönnum úr Reykjanesbæ.
Halla tekur nú þátt í sýningu i Las Vegas, en þar eru til sýnis og sölu eftirprentanir af 5 málverkum hennar. Höllu var boðið að koma til Las Vegas en sá sér ekki fært að vera viðstödd sýninguna. Einnig eru myndir frá henni á sýningu í Maryland. „Það er mjög mikill munur á myndlistarmarkaðnum í okkar heimshluta og þeirra” segir Halla. „Íslendingar vilja orginalmyndir en Bandaríkjamenn vilja frekar eftirprentanir. Þetta er fyrst og fremst spurning um verð”.  Halla lýsir því hvernig hver eftirprentun er einstök – engin eins en eftirprentanirnar eru á striga og Halla hefur fínpússað þær hverja fyrir sig. Þetta eru verk sem líta eins út og orginalar en eru miklu ódýrari og falla betur í Ameríkanana.

Næsta sýning á Ljósanótt.
„Ég hef haft nóg að gera allt þetta ár einmitt á meðan ég var að koma mér fyrir í nýju íbúðinni” segir hún, en fyrstu verk hennar voru sýnd árið 1962 í búðarglugga á Siglufirði. „Ég man ekki eftir mér án þess að finna þessa þörf fyrir að mála og skapa. Það á vel við mig að vasast í mörgu. Vinkonur mínar lýsa mér gjarnan með sleifina í annarri hendi og pensilinn í hinni. Ég hef alltaf verið svona og þurft að skipuleggja mig vel og samræma vinnu mína fjölskyldulífinu. Mér finnst ómetanlegt að eiga góða fjölskyldu og vil hafa fjölskylduna í fyrirrúmi.” Halla hefur síðustu vikur og mánuði verið að undirbúa sýningu sem hún verður með á Ljósanótt. Sýningin verður í húsnæði Húsaness við Hafnargötu. Þar mun hún sýna olíuverk. Segja má að Halla sé brautryðjandi meðal kvenna í listinni. Hún er fyrsta núlifandi konan sem sýndi verk sín á Kjarvalsstöðum og fyrsta konan sem var með einkasýningu á Suðurnesjum. Hún var líka fyrsti kvenlistamaður Reykjanesbæjar.  Hún hefur haldið fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis og segir að Ljósanótt skipi sérstakan sess hjá sér. „Ég var alltaf með opið hús heima á Heiðarbrúninni og bauð fólk velkomið á Ljósanótt en á síðasta ári var ég að flytja og fékk þá þessa aðstöðu til sýningar hjá Húsanesi þar sem ég verð með sýningu á Ljósanótt 2007.
” Heimilið er minn vinnustaður og ég er ekki á leiðinni að setjast í helgan stein” segir Halla um leið og hún  sýnir blaðamanni gallerí sitt og vinnustofu í nýju íbúðinni. „Ég hef ennþá svo mikinn áhuga á þessu” segir Halla að lokum.

Halla lýsir listsköpun sinni fyrst og fremst sem tjáningu á hughrifum. Aflgjafann í þeirri tjáningu segir hún vera óbilandi áhuga sem er hvati þess að tjáningarþörfin leitar eftir penslinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024