Eins og ég sé í einni stórri fjölskyldu
Dominika Anna Madajczak er FKA Suðurnes kona mánaðarins í Víkurfréttum
Nafn: Dominika Anna Madajczak
Aldur: 38
Menntun: BS-gráða í íslensku sem annað mál, MA-gráða í þýðingafræði, löggiltur skjalaþýðandi
Við hvað starfar þú og hvar? Hver eru helstu verkefni:
Ég starfa sem löggiltur skjalaþýðandi og tek að mér alls konar verkefni sem tengjast þjónustu við pólskumælandi viðskiptavini. Ég hef marga ára reynslu í þýðingum skjala, vefsíðna, markaðsefnis, kvikmynda, fræðsluefnis, samfélagsmiðlafærslna o.s.frv. Meðal viðskiptavina minna má nefna stór íslensk fyrirtæki, stjórnmálaflokka, opinberar stofnanir og t.d. embætti forseta Íslands.
Til viðbótar við þýðingar aðstoða ég fyrirtæki og Íslendinga við að ná tengslum við hið pólska samfélag á Íslandi, pólsk fyrirtæki, finna pólska verktaka og viðskiptavini, panta vörur frá Póllandi og reka samfélagsmiðla á pólsku.
Ég hef einnig ferðaráðgjafaréttindi og reynslu í að skipuleggja margs háttar ferðir til Póllands eins og árshátíðir, ráðningar eða vörusýningar. Ég er meðlimur ýmissa félagasamtaka og aðstoða mörg þeirra einnig við þýðingar.
Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera - Reynsla?
Þar til Covid skall á hafði ég aldrei ímyndað mér að vinna annars staðar en hjá flugfélagi, en ég kom til Íslands til að vinna hjá flugfélaginu. Þar kynntist ég manninum mínum og í raun hefur allur starfsferill minn á Íslandi tengst flugbransanum. En þegar ég horfi um öxl verð ég að viðurkenna að það að missa vinnuna mína óvænt var ein besta hvatningin til að breyta lífi mínu. Og nú get ég ekki hugsað mér að fara aftur í svona vinnu, vegna þess að eftir að mér var sagt upp hafði ég loksins tíma og kraft fyrir móðurhlutverkið og ennfremur til að endurskipuleggja framtíð mína.
Við val á þeim verkefnum sem ég tek að mér reyni ég alltaf að nýta alla þá reynslu sem ég hef öðlast. Annars vegar vil ég hjálpa Pólverjum að finna sig í íslensku samfélagi og hins vegar aðstoða Íslendinga við að kynnast Pólverjum og menningu okkar.
Ég hef áhuga á nýsköpun, viðskiptum, fasteignum og langar mig að nýta öll þessi áhugamál og starfsreynslu mína til að þróa feril minn og elta meginmarkmið lífs míns: Að vera frjáls, sjálfstæð og hamingjusöm manneskja og að lifa lífinu lifandi.
Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA? Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
Í allri starfsemi minni er markmið mitt að styðja og styrkja allar konur, sérstaklega þær sem eru af erlendum uppruna, því ég veit af eigin reynslu hversu erfitt það er að flytja til nýs lands og berjast fyrir því lífi sem þú vilt eiga. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er meðlimur í FKA og öðrum samtökum. Undanfarin ár höfum við stofnað nýja deild sem heitir FKA Nýir Íslendingar, sem er sérstaklega tileinkuð konum af erlendu bergi brotnar.
Ég er að leita að nýjum áskorunum í lífi mínu og vil koma hugmyndum mínum í framkvæmd. Það er hins vegar mjög erfitt þegar þú hefur ekki mikla reynslu í viðskiptum og býrð yfir litlu tengslaneti. FKA gefur mér tækifæri til að þenja út þægindarammann, kynnast nýju fólki, læra nýja hluti og þroskast sem kona og manneskja.
FKA Framtíð, deild innan FKA sem ég er í, býður til dæmis upp á Mentor verkefni sem ég hef ákveðið að taka þátt í. Mér finnst það ótrúlegt hversu margar frábærar íslenskar viðskiptakonur ákváðu að taka þátt í því og aðstoða aðrar félagskonur og leiðbeina þeim. Ég var heppin að hafa fengið ekta Suðurnesjamanneskju, hana Helgu Steinþórsdóttur, sem Mentor.
Það sem er sérstaklega mikilvægt fyrir mig, er að ég hef aldrei fundið fyrir útskúfun í FKA og fannst ég alltaf velkomin. Ég dýrka þá reglu að á viðburðum getum við ekki staðið í lokuðum hringjum, svo allar konur geti slegist í hópinn.
Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum. Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum? Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes?
Ég hef búið á svæðinu frá því ég flutti til Íslands, sem var fyrir tæpum 17 árum. Á þessum tíma hef ég klárað nám og starfað í Reykjavík í mörg ár en mig hefur aldrei langað að flytja af Suðurnesjum. Það er frábært að búa hérna og eftir öll þessi ár líður mér eins og ég sé í einni stórri fjölskyldu. Suðurnesin bjóða upp á mörg tækifæri og allt frábæra fólkið sem býr hér er einn besti kostur þeirra. Hins vegar er hæsta hlutfall íbúa með erlend ríkisfang á Suðurnesjum, um 26,7%, og ég get séð margt sem hægt væri að gera til að þeim líði sem jafngildur hluti af samfélaginu og verði sýnilegri á öllum sviðum.
Því var ég hæstánægð þegar Fida og Guðný Birna komu með þá hugmynd að stofna Suðurnesjadeild FKA. Ég reyni að taka þátt í eins mörgum viðburðum og hægt er og stefni á að verða enn virkari þegar barnið mitt kemst inn á leikskóla.
Markmið með verkefninu er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna og sýna hversu megnugar og magnaðar þær eru.