HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Mannlíf

Eins og að kasta sér í djúpu laugina
Aron Ívar hefur starfað við aðhlynningu á Nesvöllum í rúmt ár.
Þriðjudagur 16. apríl 2019 kl. 11:00

Eins og að kasta sér í djúpu laugina

„Ég geri mér betur grein fyrir mikilvægi þess að sinna gamla fólkinu okkar eftir að hafa starfað hér,” segir Aron Ívar Benediktsson sem starfar við aðhlynningu á Nesvöllum. Hann segir starfið hafa þroskað sig og aukið þolinmæðina en fyrsta vaktin hans hafi verið eins og að kasta sér í djúpu laugina.

„Það var ekki létt. Mér finnst þetta ár hafa verið eins og eitt stórt sjálfstyrkingarnámskeið. Margir vinir mínir eru gáttaðir á mér. Mér er alveg sama því mér finnst þessi vinna gefa mér mikið og hún er á margan hátt einnig þægileg. Af því að ég er nú af snjallsímakynslóðinni þá tek ég eftir því að ég hef minnkað heilmikið símanotkun. Hér er maður meira til staðar að spjalla við fólk,“ segir Aron Ívar en besti vinur hans, Sindri, benti honum á að sækja um starfið. „Ég var að koma úr heimsreisu og hafði áður starfað í flugstöðinni á tólf tíma vöktum og var orðinn leiður á því. Hér starfa ég á átta tíma vöktum og stunda einnig nám í einkaþjálfun. Mér finnst meira gefandi að vinna hér en í flugstöðinni en þar vann ég í verslun.”

Public deli
Public deli

Aron segist sjá hversu mikilvægar heimsóknirnar á Nesvelli séu fyrir íbúana þar sem erfiðir einstaklingar verða oft ljúfari eftir að hafa fengið fjölskylduna sína í heimsókn. „Annars erum við meðal annars að spila spil og hlusta á tónlist hér. Sjóndeildarhringur minn hefur víkkað og mér finnst ég hafa breyst mikið. Áður var ég klígjugjarn en í dag er þetta ekkert mál. Ég á ömmu sem er 102 ára og býr í Bolungarvík. Mér finnst gaman að hlusta á ömmu mína segja frá lífi sínu þegar við hittumst.“