„Eins andstyggilegar aðstæður og hægt er að hugsa sér“
segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, um eld í skipum
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja fagnaði 110 ára afmæli nú á vormánuðum. Það hafa verið fá tækifæri fyrir slökkviliðsfólk að fagna tímamótunum, þar sem hvert stórútkallið á fætur öðru hefur borist slökkviliðinu. Það heyrði líka til tíðinda að tvö stór útköll bárust í fiskiskip sem lágu bundin við bryggjur í umdæmi slökkviliðsins. Annað í Njarðvíkurhöfn og hitt í Sandgerðishöfn. Bæði þessi útköll voru mjög krefjandi fyrir slökkviliðið þar sem eldur í skipum er meðal þess erfiðasta sem slökkvilið fást við.
Engar flóttaleiðir
„Já, þetta er með því allra erfiðasta. Þarna eru engar flóttaleiðir. Það er kannski ein leið niður í skipið og út úr því aftur. Hitinn kemst ekki í burtu, hann bara vex og verður gríðarlegur hiti. Aðstæður eru erfiðar og mikil þrengsli. Það sést ekki neitt, þannig að það eru mjög krefjandi aðstæður þegar það er mikill eldur í skipum. Þetta er með því verra sem við lendum í,“ segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, um útköllin tvö í skipin. Útköllin tvö bárust með innan við viku millibili. Skipsbrunar eru hins vegar svo fátíðir í dag að þessi útköll voru þau fyrstu fyrir marga af slökkviliðsmönnum Jóns og því mikill skóli.
„Sem betur fer hefur dregið mjög úr skipsbrunum og reyndar brunum almennt á svæðinu. Ég tók saman nýverið síðustu tíu ár. Á þessum tíu árum hefur orðið mikil fjölgun fólks á Suðurnesjum og mikil aukning á byggingarmagni. Þá hafa öll umsvif á svæðinu aukist mjög, eins og allir þekkja. Útkallafjöldi slökkviliðs stendur hins vegar nánast í stað. Þar hefur tekist vel og þar eiga forvarnir og eldvarnareftirlit þátt í því. Þetta er því mjög óvenjulegt ástand fyrir okkur við við höfum ekki fengið skipsbruna í mjög langan tíma, þannig að fyrir marga af mínum mönnum var þetta frumraun. En mitt fólk stóð sig vel og gerði virkilega vel.“
Leggja sig alla fram um að bjarga mannslífum
Jón segir báða skipsbrunana hafa verið krefjandi verkefni en þó sérstaklega fyrri brunann í Njarðvíkurhöfn. Þar varð manntjón en skipverji lést í brunanum.
„Það er alltaf það versta. Menn leggja sig alla fram um að bjarga fólki og það var engin undantekning í þessu tilfelli. Þarna gerðu menn allt sem hægt var til að bjarga viðkomandi einstakling en því miður þá tókst það ekki. Að ná fólki upp úr brennandi skipi er meira en að segja það. Það er virkilega erfitt verkefni.“
Þegar slökkviliðsmenn voru á leið í útkallið var óljóst hversu margir menn væru í hættu um borð í brennandi skipinu. Það kom svo í ljós þegar komið var á vettvang að einn maður var lokaður inni í skipinu en aðrir höfðu komist frá borði. Einn þeirra slasaðist talsvert, hlaut alvarleg brunasár og reykeitrun. Hann var fyrst fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðan áfram á Landspítala í Fossvogi.
„Ég held og veit að miðað við þær aðstæður sem voru þarna þá hafi mínir starfsmenn staðið sig frábærlega vel,“ segir Jón.
Hröð atburðarás
Atburðarásin var hröð í brunanum í Njarðvík. Fljótlega eftir að slökkvilið kemur á staðinn verður sprenging bakborðsmegin í skipinu. Þar var verkstæði og gaskútar og eldurinn magnaðist mjög hratt.
„Þegar þetta gerist í svona lokuðu rými þá verður mikil hitamyndun og mjög erfitt að komast að eldinum og slökkva hann. Þetta tekur langan tíma og er þolinmæðisverk. Allar aðstæður og þrenslin eru erfið. Svo er hrunið úr lofti og veggjum. Þarna voru stigar farnir og þetta eru eins andstyggilegar aðstæður og hægt er að hugsa sér.“
Aðrar ógnir í Sandgerði
Í brunanum í skipinu í Sandgerðishöfn tæpri viku síðar voru aðrir þættir að ógna slökkviliðsmönnum. Þar var yfirbygging skipsins úr áli og það bráðnar við 700 gráðu hita. Útkallið í Sandgerði var sérstakt að því leyti að slökkvilið var kallað þrívegis í skipið. Fyrst um miðnætti og þá var eldur í rafmagni í vélarrými sem var fljótlega slökktur. Annað útkall barst undir morgun og þá slökktu slökkviliðsmenn í glæðum og gengu úr skugga um að engan eld eða hita væri að finna. Ákveðið var í öðru útkallinu á sjöunda tímanum um morguninn að slökkviliðsmenn færu á vettvang eftir vaktaskipti kl. 09 til að kanna aðstæður. Slökkviliðið var einmitt að leggja upp í þann könnunarleiðangur þegar útkall barst og þá var skipið alelda. Í þeim eldi bráðnaði mikið af áli, hvort sem það voru lúgur, stigar eða annað. Við þannig aðstæður er ekki hægt að senda slökkviliðsmenn niður í skipið og fá yfir sig bráðið ál. Til að tryggja öryggi slökkviliðsmanna þurfti að dæla sjó og vatni á brennandi skipið og það varð til þess að talsvert safnaðist fyrir af sjó og vatni í skipinu og það var um tíma í þeirri hættu að sökkva í höfninni. Mönnum tókst þó að koma í veg fyrir það með því að koma niður dælum.
„Þetta eru mjög ótryggar aðstæður og við sendum ekki okkar fólk niður í svona skip nema að sé mjög rík ástæða til, t.d. til að reyna að bjarga mannslífi eða eitthvað slíkt, sem við gerðum í fyrra tilfellinu. Þetta eru alltaf krefjandi verkefni,“ segir Jón.
Í báðum framangreindum skipsbrunum er allsherjar útkall á allt slökkviliðið og þá er ekki bara verið að manna slökkvilið, því Brunavarnir Suðurnesja annast alla sjúkraflutninga á Suðurnesjum og þannig háttaði til í báðum þessum stórbrunum að á sama tíma var mikið annríki í sjúkraflutningum á svæðinu og þurfti um tíma að forgangsraða útköllum.
Sjúkraflutningar tæplega fimm þúsund í fyrra
„Stærsti hluti útkalla hjá Brunavörnum Suðurnesja eru sjúkraflutningar. Á síðasta ári vorum við með tæplega fimmþúsund útköll og það stefnir í að það verði ekki minna þetta árið og jafnvel meira. Þessi útköll fara ekkert á bið og við fengum fjölmörg útköll á meðan þessir brunar voru. Brunarnir voru því ekki einu verkefnin.“
Brunavarnir Suðurnesja eru 110 ára um þessar mundir og því liggur beinast við að spyrja slökkviliðsstjórann hvernig staðan sé á þessum tímamótum.
„Ég held að í dag séum við betur sett en nokkurn tímann áður í sögu slökkviliðsins. Í upphafi var slökkviliðið vanbúið og lengi vel en við erum mjög vel sett í dag með þetta slökkvilið. Við erum með alveg úrvals mannskap sem að skiptir mestu máli. Það er hægt að vera með mikið af tólum og tækjum og allt það besta hvað það varðar, en ef mannskapurinn er ekki góður, þá gerum við ekki neitt. Við getum gert kraftaverk með ónýt tæki ef mannskapurinn er góður.
Þegar fer saman góður tækjabúnaður og ég veit að við erum með góðan búnað, það er vel að okkur búið, og góðan mannskap, þá eru allir vegir færir. Í dag erum við á besta stað í þessi 110 ár. Við erum með nýjan og góðan tækjabúnað. Við erum í nýju húsnæði og vel staðsettir og á góðum stað hvað þessa starfsemi varðar,“ segir Jón.
Nýr körfubíll efstur á óskalistanum
Efst á óskalistanum hjá Jóni er að endurnýja körfubíl slökkviliðsins. Hann er kominn til ára sinna þó honum sé vel við haldið. „Við þurfum líka alltaf að vera á tánum varðandi mannahald, því það kemur alltaf í ljós í svona stórum brunum að það má ekki miklu muna að við séum með nægan mannskap. Það er aldrei svo að allir geti mætt í öll útköll. Það þarf því að tryggja mönnun og að sinna viðhaldið á búnaði vel. Við kaupum reglulega það sem þarf og það kom í ljós í þessum skipsbrunum að vera með vandaðan og góðan búnað,“ segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja.