Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einnar konu Kaffitería
Föstudagur 12. ágúst 2005 kl. 12:07

Einnar konu Kaffitería

„Það er alltaf eitthvað sérstakt um að vera hjá mér,” segir Matthildur Ingvarsdóttir, sem situr í forláta stól sem hún kallar mömmustólinn og prjónar ullarpeysu, þegar hún er spurð um dagskránna á staðnum á Sólseturshátíðinni. Matta er eigandi kaffiteríunnar Flösin við Garðskaga sem opnaði fyrir rúmum mánuði.
„Ég verð með 100 til 150 mótorhjólakappa í mat hjá mér á laugardaginn. Þeir ætla að gæða sér á matarmikilli súpu, í hollum, því ég hef ekki pláss fyrir nema 80 í sæti. Þeir voru sáttir við það,” sagði Matta en auk þess að elda ofan í mótorhjólaklúbba Suðurlands hefur Matta séð um brúðkaup, skírn, saumaklúbba og konukvöld allt á þessum eina mánuði sem kaffiterían hefur verið starfrækt.

Kaffiterían er staðsett í sama húsi og Byggðasafnið í Garði, með útsýni yfir hafið. Matta sagði að betra væri að kíkja upp á svalirnar á Flösinni en að fara í hvalskoðunarskipin því hvalirnir leiktu listir sínar fyrir gesti staðarins. Staðurinn er mjög stílhreinn og unnið er að því að skreyta hann með myndum tengdum svæðinu.
„Það hefur gengið vonum framar með staðinn og aðallega eru það Íslendingar sem sækja hann fremur en útlendingar,” sagði Matta en boðið er upp á kaffiveitingar, léttvín og bjór auk þess sem margir sækja í súpurnar hennar. Hún bakar sjálf vöfflurnar og mestmegnis af öðru góðgæti kaffiteríunnar.
Í sumar hefur verið opið til miðnættis en vegna hátíðarinnar verður opið til klukkan 3 á laugardaginn. Í vetur er svo áformað að bjóða upp á enska boltann auk þess sem hópar geta fengið afnot af salnum.

VF-mynd/Margrét

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024