Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einn af aðalleikurum Flags of our Fathers rekur ættir sínar til Suðurnesja
Föstudagur 2. september 2005 kl. 18:22

Einn af aðalleikurum Flags of our Fathers rekur ættir sínar til Suðurnesja

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heimsótti tökustað kvikmyndarinnar Flags of our Fathers á dögunum. Í ferðinni hitti hún einn af aðalleikurum myndarinnar, Adam Beach, sem er af íslenskum ættum. Adam Beach rekur ættir sínar til Suðurnesja en langamma hans bjó í Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti síðan til Voga í Manitoba. Sjálfur er Adam Beach fæddur í Manitoba-fylki á slóðum vestur-Íslendinga.

Í pistli á vefsíðu sinni segir Valgerður meðal annars:
Í vikunni fór ég suður í Reykjanesbæ, þar sem verið er að taka upp atriði í nýjustu kvikmynd Clint Eastwood „Flags of our Fathers". Myndin byggir á árás Bandaríkjamanna á japönsku eyjuna Iwo Jima og fjallar að mestu um hermennina sex sem reistu bandaríska fánann á eyjunni. Margir kannast eflaust við fræga fréttamynd af þeim atburði. Um er að ræða afar stórt verkefni, enda Clint Eastwood enginn aukvisi í kvikmyndagerð. Kostnaður sem til fellur hér á landi vegna þessa verkefnis er talinn nema um 15-16 milljónum bandaríkjadala eða sem nemur um einum milljarði íslenskra króna.

Það var Fjárfestingastofan, sem starfar á vegum viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs, sem skipulagði ferðina og á móti okkur tók starfsfólk Truenorth, íslenska framleiðslufyrirtækisins sem kemur að þessu verkefni. Mikil ánægja kom fram hjá erlendu framleiðendunum með framlag þeirra í þessu verkefni.

Fjöldi íslenskra og erlendra starfsmanna kemur að tökunum, en á tímabili tóku um 500 leikarar þátt í þeim. Þessu fylgir einnig mikið umstang í kringum leikmuni, búninga, förðun, tæknibrellur o.þ.h. enda ekki lítið verk að farða og klæða um 500 leikara upp fyrir sömu tökuna! Um 650 bakpokar hafa verið fluttir inn fyrir „hermennina" og 1.200 byssur og riflar. Nærri 240 Íslendingar hafa unnið við þetta verkefni í skemmri eða lengri tíma.

Reiknað er með að keyptar verði yfir 10.800 gistinætur á hótelum á Suðurnesjum og í Reykjavík vegna framleiðslu myndarinnar og að erlent starfsólk muni eyða yfir 70 milljónum króna á veitingastöðum og við kaup á annarri þjónustu þann tíma sem það dvelur hér. Af þessu öllu má sjá hvað verkefni sem þetta hefur mikil og jákvæð áhrif hér á landi.

Nánar hér: http://www.valgerdur.is/index.php?frett_id=453&cat=pistlar

Myndin er af vef Valgerðar Sverrisdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024