Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einlæg samtöl feðgina á bók
Steina Elena og Guðni Már sendu á dögunum frá sér bókina Það er rafmagnslaust hjá selnum. VF-mynd/hilmarbragi
Laugardagur 26. nóvember 2016 kl. 06:00

Einlæg samtöl feðgina á bók

Útvarpsmaðurinn ástsæli Guðni Már Henningsson og Steina Elena, fimm ára dóttir hans, sendu á dögunum frá sér bókina Það er rafmagnslaust hjá selnum. Bókin geymir samtöl þeirra feðgina um lífið og tilveruna síðan Steina var tveggja ára gömul. „Ég var orðinn svolítið aldraður þegar ég eignaðist Steinu og vildi skilja eftir minningar fyrir hana um sig og pabba sinn. Ég kunni ekkert annað ráð en að skrifa sögurnar í tölvu en af því að þær geta klikkað setti ég þær á Facebook,“ segir hann. Þar fékk Guðni góð viðbrögð við sögunum og fólk fór að þrýsta á hann að gefa þær út á bók. „Þá fór ég að velta því fyrir mér hvers konar bók það yrði eiginlega og hver myndi lesa hana. Þetta eru eiginlega bara minningar um samtölin okkar,“ segir hann.

Fyrst voru skrifin aðeins hugsuð fyrir Steinu en þegar útgefandi hafði samband við Guðna og bauðst til að sjá um allt sem útgáfunni fylgdi ákvað hann að slá til. Bókin er gefin út hjá Herðubreið sem er í eigu Karls Th. Birgissonar, sem þau feðgin kalla Kalla. Steina útskýrir fyrir blaðamanni Víkurfrétta að það sé ekki Kalli á þakinu, heldur annar Kalli sem búi á Íslandi. „Fyrst var þetta hugsað fyrir hana en síðan fór ég í annan útgangspunkt því hún svaraði svo skynsamlega og skemmtilega. Þegar það kom eitthvað óþægilegt upp í samræðunum þá skipti hún strax yfir í það sem við vorum að tala um áður. Þetta var svo skemmtilegt að við héldum þessu bara áfram og Steina vissi allan tímann að ég væri að skrifa samtölin okkar niður.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bókin var gefin út í byrjun nóvember og að sjálfsögðu var útgáfupartýið haldið í Húsdýragarðinum þar sem selirnir búa. Steina er að öllum líkindum yngsti höfundur jólabókaflóðsins í ár. Hún er búin að læra stafina og hefur þegar áritað nokkur eintök. Samtölin í bókinni fjalla um ýmsar pælingar Steinu, eins og til dæmis hvað kóngar geri á daginn og hvort Andrés Önd hefði átt að vera stelpa. Bókinni hefur verið dreift á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi og hefur salan gengið vonum framar.


Sagan Steina og endurnar úr bókinni Það er rafmagnslaust hjá selnum


Steina Elena hefur mikinn áhuga á bílum. Þau pabbi fara oft á bílasölur að skoða bílana sem þar eru til sölu. Oftast leita þau að bleikum bílum en finna sjaldan. Pabbi gjóar þó augunum á stóra bíla sem eyða miklu bensíni en Steinu finnst lítið í þá varið.
Steina hefur skoðun á hlutunum. Í dag fóru þau að skoða bíla. Enginn bleikur á staðnum. Þá sagði Steina:
- Ég veit hvaða tegund er best. Það eru bláir bílar þó að þeir séu ekki fallegastir.
- Eru bláir bílar bestir? spurði pabbi og leit á einn silfurgráan bensínhák. Hvernig veistu að þeir séu bestir?
- Ég veit það bara, svaraði Steina. Þau pabbi óku um á bláum, eldgömlum og pínulitlum jeppa. Líklegast var Steina að sýna pabba sínum stuðning í bílamálum.
Steina og pabbi óku burt frá bílasölunni og niður að höfn.
- Sjáðu pabbi! Þarna eru endur. Þær eru svo fallegar. Þær fljúga öðruvísi en ég!
- Getur þú flogið? spurði pabbi.
- Já, ég get það. Endurnar fljúga svona, sagði Steina og sveiflaði höndunum í bílstólnum sínum. -En ég flýg svona, bætti hún við og sveiflaði höndunum. Pabbi gat ekki séð nokkurn mun á þessum sveiflum.
- Og hvert flýgur þú?
- Út í geim.
- Ertu ekki bara að gabba mig? spurði pabbi.
Steina svaraði: - Pabbi. Elskar þú mig?
- Já, ástin mín. Ég elska þig.
- Þá skaltu bara trúa mér. En pabbi, hvað er lögræðifingur?
- Lögræðifingur? Nú veit ég ekki.
- Ég ætla að verða lögræðifingur þegar ég verð stór. Og eiga bláan og bleikan bíl.
- Það skaltu gera, Steina litla. En af hverju viltu verða lögræðifingur?
- Þeir tala svo mikið og það er vinnan þeirra. Þeir mega tala svona mikið þegar þeim dettur eitthvað í hug.
Líklegast var þetta rétt hjá Steinu litlu.
- En…, sagði pabbi, útvarpsfólk talar nú líka mikið.
- Já, þau gera það, svaraði Steina. - En þau eiga bara gamla og ljóta bláa bíla.
- Nú förum við heim, Steina litla, sagði pabbi.
- Það skulum við gera, pabbi minn, sagði Steina og sveiflaði höndum eins og endur gera.