Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einar Lárusson hlaut Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar
Sunnudagur 10. mars 2013 kl. 14:48

Einar Lárusson hlaut Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar

Einar Lárusson fékk afhent Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2013 við hátíðarlega athöfn í Grindavíkurkirkju í dag við setningu Menningarviku.

Menningarverðlaunin sem Einar Lársson fékk, eru eru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einar fæddist í Reykjavík árið 1953. Hann hefur búið í Grindavík frá árinu 1980. Hann sótti námskeið í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík 1967 - 1969. Hann hefur tekið þátt í samsýningum í Noregi, í Gallerí Lena í Álasundi 1979 og sama ár í Álasund Museum. Hann var með einkasýningu í Gallerí 32 í Reykjavík 1981, Bæjarstjórnarsalnum í Grindavík 1994, Eldborg, móttökuhúsi Hitaveitu Suðurnesja 1999, Saltfisksetri Íslands 2007 og í Framsóknarsalnum í Grindavík haustið 2012.

Verk eftir Einar eru í eigu Grindavíkurbæjar, Landsbanka Íslands, Álasund Museum og hjá fjölda einstaklinga hérlendis og erlendis. Glerlistaverkið Tyrkjaránið í Grindavík, eftir Einar, stendur við Grindavíkurkirkju og stállistaverkið „Lífsbjörgin" við ráðhúsið í Pitea í Svíþjóð, vinabæ Grindavíkur.
Í fyrra fékk fyrirtækið Þorbjörn hf menningarverðlaun fyrir minja- og myndasýningu sem þeir hafa sett upp á gömlum munum sem tengjast sjávarútvegi í Grindavík og sögu fyrirtækisins. Þar kom Einar mikið við sögu og átti stóran þátt í skipulagi þeirrar sýningar.

Grindavíkurbær á töluvert af gömlum munum sem hafa verið í geymslu í áhaldahúsi bæjarins. Einar hefur sýnt þessum hlutum töluverðan áhuga og í þá veru að þeir verði varðveittir og þeim komið fyrir þannig að þeir geti verið sýnilegir gestum og gangandi því stór hluti þessara muna hafa sögulegt gildi fyrir samfélagið í Grindavík bæði út frá sjávarútvegs- og verslunarsögu. Einar í samstarfi við Hall Gunnarsson og Örn Sigurðsson tóku sig til nú í febrúar fóru í gegnum alla þessa muni, flokkuðu þá og komu þeim fyrir í kössum sem nú eru varðveittir í húsakynnum Þorbjarnar hf.

Einar hefur verið formaður Handverksfélagsis Greipar frá stofnun þess 2010 og unnið ötullega í starfi fyrir það félag.

Af þessari upptalningu má vera ljóst að Einar hefur töluvert sett mark sitt á menningarsamfélagið hér í Grindavík og er nauðsynlegt fyrir hvert bæjarfélag að hafa svona einstakling sem af einskærum metnaði sinnir áhugamáli sínu eins og hann gerir, af yfirvegum og festu.

Frístunda- og menningarnefnd Grindavíkur var einróma sammála um að menningarverðlaun 2013 kæmu í hlut Einars sem viðurkenning fyrir framtak og framlag hans til lista- og menningarlífs í Grindavík.