Einar Áskell og sænsk vinabæjarmenning í Grindavík
Þrjá sýningar opnaðar sama daginn
Það var mikið um dýrðir í Grindavík föstudaginn 13. október en þá kíktu m.a. nokkrir Svíar og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson í heimsókn. Þekktastur Svíanna er eflaust barnabókapersónan Einar Áskell en sýningin 50 ár af Einari Áskeli, var sett upp í bókasafni Grindvíkinga við grunnskólann en auk þess voru opnaðar tvær sýningar í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga.
Á sýningunni í bókasafninu var spjald með Einari og pabba hans og það voru ófá grindvísk börnin sem létu þetta tækifæri ekki úr greipum sér ganga og fengu mynd af sér með hetjunni sinni. Sýningin var sett upp af bókasafni Norræna hússins í samvinnu við sænska sendiráðið. Í fyrra voru 50 ár síðan fyrsta bókin kom út um Einar Áskel, árið 1972. Sýningin var formlega opnuð með ávarpi Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannssonar. Boðið var upp á veitingar í anda Einars Áskels og ömmu hans.
Þegar Einar Áskell hafði lokið sér af, fóru gestir í Kvikuna en þar var sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi, opnuð. Þessi sýning hefur ferðast á tólf listasöfn víðsvegar um landið frá haustinu 2022 og mun enda í Svíþjóð árið 2024. Sýningin er samstarfsverkefni félagsins Íslensk grafík og sænska sendiráðsins á Íslandi. Sýningin var sett upp til að minnast þess að liðin eru 250 ár frá merkum erlendum vísindaleiðangri til Íslands árið 1772. Með í för var einn af lærisveinum hins heimsþekkta sænska náttúruvísindamanns, Carls von Linné, náttúrufræðingurinn Daniel Solander. Hann var alltaf kenndur við bæinn Piteå í Svíþjóð en bærinn hefur verið vinabær Grindavíkur síðan 1978, það var ástæða þess að sýningin endaði í Grindavík.
Samhliða henni opnaði sýningin Paradise Lost - Daniel Solander’s Legacy, sem ætlað er að minnast ferða Solanders til Kyrrahafsins árið 1769. Eru þar sýnd verk tíu listamanna frá Kyrrahafssvæðinu en Solander var í áhöfn HMS Endeavour í fyrstu ferð Evrópumanna til Ástralíu.
Grindavíkurdætur fluttu nokkur lög og Grindavíkurbær bauð upp á ljúffengar veitingar. Voru allir alsælir með hvernig til tókst. Myndirnar tala sínu máli.