Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ein bók á viku í heilt ár
Laugardagur 1. febrúar 2020 kl. 07:54

Ein bók á viku í heilt ár

Harpa Jóhannsdóttir, tónlistarkona er lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar

Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Harpa Jóhannsdóttir, brasskennari og lúðrasveitarstjórnandi hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hún er fastagestur í Bókasafninu og setti sér skýr markmið fyrir árið 2019 um að lesa eina bók á viku. Það tókst og afraksturinn er 11.829 blaðsíður lesnar. Vel gert Harpa!

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er að lesa Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah, mjög áhugaverð og skemmtileg bók um uppvöxt hans í aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku.

Hver er uppáhaldsbókin?

Ég held ég eigi hreinlega ekki uppáhaldsbók. Hef aldrei lesið bók tvisvar en þegar það gerist þá verður sú bók væntanlega uppáhaldsbókin, læt vita þegar það gerist!

Hver er uppáhaldshöfundurinn?

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er minn fyrsti uppáhaldshöfundur en af þessum ungu þá elska ég allt sem kemur frá Degi Hjartarsyni.

Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?

Korku saga eftir Vilborgu Davíðsdóttur, las hana sem unglingur og fyrsta bókin sem skildi mikið eftir sig. Uppfrá þeirri bók hef ég mikið leitað í bækur um íslenskar konur fyrr á öldum.

Hvaða bók ættu allir að lesa?

Eva Luna eftir Isabel Allende, erfið en falleg saga.

Hvar finnst þér best að lesa?

Við eldhúsborðið heima, næ mestri einbeitingu þar.

Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?

Ég las margar bækur á síðasta ári og sú sem stóð uppúr var Húsið okkar brennur. Mamma Gretu Thunberg, Malena Ernman, skrifar um líf þeirra sem loftlagsaktívistar og sem foreldri barns á einhverfurófi sem ég tengdi mikið við. En mjög holl lesning fyrir alla til að vera meðvitaðari um loftlagsvandann sem vofir yfir okkur.

Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?

Alveg bókað How to Survive on a Deserted Island eftir Samantha Bell, annað væri galið!