Eigum gott sumar skilið eftir harðan vetur
Freyja Sigurðardóttir, einkaþjálfari, er jákvæð og lífsglöð manneskja sem segir árið 2020 hafa verið mjög skrítið. Það verði lítið um ferðalög út fyrir landsteinana í ár. Hún hefur heimsótt systur sína í Noregi undanfarin ár en af því verður ekki núna vegna COVID-19. Freyja svaraði nokkrum spurningum úr ýmsum áttum í netspjalli við Víkurfréttir.
– Nafn:
Freyja Sigurðardóttir.
– Fæðingardagur:
16. nóvember.
– Fæðingarstaður:
Keflavík.
– Fjölskylda:
Ég er miðjubarn af fimm systkinum, þar kemur þetta mikla keppnisskap sem ég er með.
Ég er gift Haraldi Frey Guðmundssyni og við eigum fjögur börn, Jökul Mána, Aron Frey, Emil Gauta og Kristín litla kom í lokin.
– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Flugfreyja, bara út af nafninu mínu.
–Aðaláhugamál:
Íþróttir og fjölskyldan. Finnst einnig mjög gaman að ferðast en það er lítið búið að vera um það síðustu vikur, mánuði vegna ástandsins sem þessi blessaða veira er búin að hafa áhrif á.
– Uppáhaldsvefsíða:
vf.is að sjálfsögðu.
– Uppáhalds-app í símanum:
Facebook, Instagram og Snapchat eru öll uppáhalds.
– Uppáhaldsmatur:
Ristabrauð með smjöri og osti.
– Versti matur:
Skata.
– Hvað er best á grillið?
Lambakonfekt.
– Uppáhaldsdrykkur:
Vatn.
– Hvað óttastu?
Máva. Ég hef tvisvar sinnum lent í Mávaárás þegar ég var úti að hlaupa. Einu sinni á Sandgerðisheiðinni og einu sinni frá Garði til Keflavíkur. Það var ekkert grín skal ég segja þér ... hahaha en líklega mjög fyndið fyrir þau sem voru í bílum að keyra og sáu þetta :D
– Mottó í lífinu:
Hver dagur er nýtt tækifæri. Tækifæri til að læra af mistökum gærdagsins, hugsa hlutina upp á nýtt og gera öðruvísi héðan í frá.
– Hvaða bók lastu síðast?
Næsta spurning takk. Hahaha ... síðast bókin sem ég las var Emma öfugsnúna.
– Ertu að fylgjast með einhverjum þáttum í sjónvarpinu?
Vikings.
– Uppáhaldssjónvarpsefni:
Fréttir, það er lítill tími til að horfa á sjónvarpið með þessa risafjölskyldu sem ég á.
– Hvað sástu síðast í bíó?
Frozen 2. Þurfti samt að fara út fyrir hlé því litla skottan mín var farin að standa upp og trufla alla aðra. Þetta var fyrsta bíóferðin hennar. Höfum ekki lagt í aðra bíóferð með hana.
–Uppáhaldsíþróttamaður:
Halli minn var alltaf uppáhaldsíþróttamaðurinn minn. Eftir að hann hætti í fótbolta þá hef ég ekki haldið upp á neinn annan íþróttamann.
– Uppáhaldsíþróttafélag:
Keflavík, allir strákarnir mínir æfa fótbolta með Keflavík en Halli er að þjálfa Reyni Sandgerði og ég er frá Sandgerði. Ég verð að segja Keflavík og Reynir. Má það?
–Ertu hjátrúarfull?
Nei.
– Hvaða tónlist kemur þér í gott skap?
Tónlist sem fær mig til að brosa með góðum takti.
– Hvaða tónlist fær þig til að skipta um útvarpsstöð?
Úfff veit ekki, lög sem láta mig missa gleðina.
– Hvað hefur þú að atvinnu?
Einkaþjálfari og ég er einnig með Þitt Form námskeiðin sem eru í Sporthúsinu.
– Hefur þú þurft að gera breytingar á starfi þínu vegna COVID-19?
Sporthúsið lokaði, ég varð atvinnulaus en allt er að fara í gang aftur 25. maí. Get varla beðið eftir þessum degi, er svo spennt að fá að byrja að vinna aftur og hitta allt fólkið mitt.
– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Ég er mjög jákvæð og lífsglöð manneskja. Þetta ár er samt búið að vera ansi skrítið. Allt frá því að það byrjaði í janúar með öllum sínum Gulu, Rauðu og Appelsínugulu veðurviðvörunum. Allir þessir skjálftar við Grindavík og svo þessi blessaða veira sem er heldur betur búin að láta okkur læra ansi margt.
– Er bjartsýni fyrir sumrinu?
Já, eða ég er svo mikið að óska þess að við fáum gott sumar. Eigum það svo mikið skilið eftir þennan harða vetur.
– Hvað á að gera í sumar?
Þjálfa og fylgja börnunum mínum á fótboltamót sumarsins.
– Hvert ferðu í sumarfrí?
Við náum sjaldan að fara öll saman í sumarfrí út af öllum þessum fótbolta hjá fjölskyldunni. Við höfum frekar verið að fara í frí öll saman yfir jól og áramót, þá eru allir í fríi, en síðustu ár hef ég farið með börnin til Noregs í fótboltafríinu sem þeir fá. Elsta systir mín hún Sylvía býr þar, okkur finnst æðislegt að kíkja aðeins á þau. Við förum ekki þetta ár. Covid sér um að nánast engin mun ferðast erlendis þetta sumar.
– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?
Bláa lónið. Við vorum mjög dugleg að fara í lónið fyrir COVID-19-lokunina en verð að viðurkenna að ég sjálf er ekki búin að skoða mikið hér í kring en það er á mínum „to do“-lista næstu ár.