Eigum eftir að búa að þessari lífsreynslu
Það var augljóst þegar hjólakapparnir Jóhannes A. Kristbjörnsson, Sigmundur Eyþórsson, Gestur K. Pálmason og Júlíus Júlíusson komu til Reykjanesbæjar í síðustu viku, eftir hringferð um landið á reiðhjólum, að þá langaði ekki að setjast á hjólin í bráð. Dauðuppgefnir eftir að hafa lagt hringveginn að baki en með eldmóð í brjósti og kokhraustir. Tilbúnir að fara annan hring, bara ekki í dag!
Við tókum hús á fjórmenningunum í bítið á þriðjudagsmorgun á skrifstofu slökkviliðsstjórans, sem fór fyrir ferðalaginu Hjólað til góðs, þar sem safnað var fjármunum fyrir langveik börn á Íslandi. Fyrsta spurningin var að sjálfsögðu um það hvernig þetta verkefni hafi komið til. Það er jú alls ekki fyrir alla að hjóla hringveginn. Strax kom í ljós, hjá þeim öllum, að þessi hjólaferð var mikil áskorun og á sama tíma verkefni sem ekki var hægt að skorast undan.
Sigmundur sagðist hafa skotið þessari áskorun á Jóhannes fyrir nokkru síðan en hugmyndin hafði blundað með honum í nokkur ár. Jóhannes sagði að Simmi hafi ögrað sér með þessu verkefni og hann ekki getað skorast undan, ekki viljað missa af svona tækifæri. Málstaðurinn hafi verið það góður og þetta í raun verið tækifæri sem maður fær bara einu sinni á ævinni. Það hafi verið auðvelt að taka ákvörðunina sem slíka en erfiðara að framkvæma hana.
Þeir félagar eru sammála um að þeir hafi litið á sig sem fulltrúa sinna starfsstétta, fulltrúa þeirra slökkviliðs- og lögreglumanna sem fólk hittir á götum úti og undir erfiðum kringumstæðum í starfi og leik á Suðurnesjum. Kapparnir fjórir hafa allir sest á hjól áður, þó svo langferðir eins og að hjóla hring um Ísland séu langt frá því að vera eitthvað sem þeir hafi tekist á hendur áður. Sigmundur og Júlíus hafa verið duglegir að hjóla í líkamsræktarsalnum en Jóhannes hefur hjólað nokkuð hér innanbæjar og um Reykjanesið. Gestur hafði farið í tveggja daga 150 km. hjólreiðaferð um öræfi Íslands, 16 ára gamall.
Enginn þeirra hafði látið sér detta í hug að hjóla í 10-12 tíma á dag, hjóla um og yfir 200 km. á dag, dag eftir dag. Gestur sagði að það hafi í raun komið sér á óvart að þetta var ekki erfiðara en raun bar vitni. Ferðin hafi verið mikil þolraun en ekki ómögulegt verkefni. Júlíus sagði að það hafi verið ánægjulegt að komast í svona mikil tengsl við landið og náttúruna og frábært hve hópurinn náði í raun vel saman, fjórir ókunnir karlmenn á mismunandi aldri. Eftir einn dag á hjólunum hafi þeir verið sem einn maður og unnið saman eins og samhent lið.
Þeir félagar voru lengi á hjólunum hvern dag og kom þeim strax á óvart hve umferðin og vindurinn eru hættuleg hjólreiðamönnum. Þeir komust að því að brekkur og rigning voru ekki erfiðustu andstæðingarnir heldur vindurinn. Eftir að hafa hjólað upp bratta brekku þá stefndi yfirleitt niður í móti handan við hæðina og rigninguna var hægt að klæða af sér. Sterkur vindur í fangið var hins vegar að gera mönnum erfitt fyrir og einnig hitabreytingar. Þannig var Öxnadalsheiði erfið, þar sem hitinn var við frostmark. Mikill mótvindur var við Mývatn og þá er frægt orðið ferðalag þeirra félaga undir Hafnarfjalli við Borgarnes, þar sem vindkviður með 35 metra hraða á sekúndu feyktu okkar mönnum út í móa og gerðu það að verkum að ekki var hægt að hjóla á móti veðurofsanum. Þegar þeir félagar rifja upp ferðalagið, þá er þeim ofarlega í huga hvað hringvegurinn er í raun og veru langur. Þeim fannst sumir vegarkaflarnir vera heil eilífð. Oft fannst þeim næsti áfangastaður vera handan við næstu hæð, aftur og aftur. Þá fengu þeir þá tilfinningu þegar lagt var upp frá Akureyri að þá væru þeir loks á leiðinni heim. Í hugum margra er sú leið ekki löng, en veðurguðirnir létu þá félaga svo sannarlega finna fyrir því á þeim kafla.
Þeir sögðu einnig að hvern einasta hjóladag hefðu þeir þurft að nýta þær varabirgðir sem líkaminn bíður uppá. Að sama skapi hafi það komið á óvart hversu fljótir líkamar hafi verið að safna orku að nýju eftir stutta hvíld. Ferðalagið hafi verið þannig skipulagt að reglulega var stoppað í 5-10 mínútur til að kasta mæðinni og borða nesti. Þá hafi einnig verið tekið eitt langt stopp á hverjum degi, allt að einum og hálfum tíma. Jóhannes sagðist oftsinnis hafa verið uppgefinn fyrir langa stoppið, liðið eins og nóg væri komið þann daginn, en hvíldin og félagarnir blásið í hann nægilegum krafti til að klára daginn.
Þeir félagar sögðust vera, eftir ferðalagið, stoltir fyrir hönd sinna starfsstétta að hafa tekist þetta verkefni á hendur. Bæði lögreglu- og slökkviliðsmenn væru í miklum tengslum við fólkið sem minna má sín í samfélaginu. Margir kynntust aðeins þessum starfsstéttum á verstu stundum lífs síns. Það hafi því verið ánægjulegt að vera slökkviliðs- og lögreglumenn í óumdeilanlega jákvæðu hlutverki, að safna fjármunum fyrir aðstandendur langveikra barna á Íslandi.
Þá sögðu félagarnir að þrátt fyrir að verkefnið hafi verið erfitt líkamlega, þá hafi það verið mjög gefandi. Frábært hafi verið að finna hversu gríðarlegur stuðningurinn var við málefnið um allt land. Það finni allir til með langveikum börnum og allir viljað leggja þeim og aðstandendum þeirra lið. Hvert sem komið var hafi þeir fengið hrós fyrir framgöngu sína.
Fólk og fyrirtæki hafi stutt málefnið með fjármunum og safnast hafi á þriðju milljón króna til handa foreldrum langveikra barna. Verkefnið “Hjólað til góðs“ hafi verið lífsreynsla sem þeir eigi eftir að búa að það sem eftir er.